Bakþankar.

Nú fara fermingarnar að nálgast og maður veltir því fyrir sér ár eftir ár, hvaða veganesti unglingar fari almennt með út í lífið. Hafa þeir raunhæfa mynd af lífinu eða eru þeir ofdekraðir og halda að peningar vaxi á trjánum?  Og ef mamma og pabbi segi NEI  þá séu þau leiðinleg. Vita þau að gott líf er ekki bara gott af sjálfu sér. Það krefst líka fórna og því að taka þátt svo allir megi vel við una. 

Það eru fleiri en ég sem hafa velt þessu fyrir sér og  í síðustu viku  kom Jón Gnarr með alveg frábæran texta í Bakþönkum sínum í Fréttablaðinu. Sjálfsagt hafið þið flest séð þennan texta en kannski ekki öll svo ég ætla að leyfa mér að slá hann hérna inn.

Bakþankar Jóns Gnarr í Fréttablaðinu.

"FORELDRAR.

ÞEGAR ég var barn og unglingur fannst mér sú þjónusta sem foreldrar mínir veittu mér alveg sjálfsögð. Ég þurfti ekki að þvo af mér fötin.  Ég lét þau bara í óhreinatauið og nokkrum dögum síðar birtust þau aftur hrein og straujuð í skápnum mínum.  Ég þurfti heldur aldrei að elda mér mat.   Mamma eldaði fyrir mig og yfirleitt eitthvað sem mér fannst gott, enda hefði annað ekki verið tekið í mál.  Og ef hlutirnir gengu ekki snurðulaust fyrir sig, eins og þegar eitthvað gleymdist, varð ég fúll.

ÞAÐ var ekki fyrr en ég var orðinn foreldri sjálfur sem ég fattaði hvað þetta er oft erfitt og hvað það er ömurlega leiðinlegt að vera foreldri frekra og kröfuharðra krakka sem taka öllu sem maður gerir fyrir þau sem sjálfsögðum hlut.  Og hvers konar réttlæti er það þegar einn gerir allt sem er leiðinlegt?  Það er bara kúgun.

AUÐVITAÐ er það hlutverk foreldra að hugsa vel um börnin sín.  En það er ekki sjálfsagt.  Það er fullt af fólki sem hugsar illa um börnin sín og vanrækir þau.  Góðir foreldrar eiga skilið þakklæti fyrir.  Foreldrar eru ekki þrælar heldur manneskjur eins og allir aðrir.  Hvað ætli margir unglingar, sem skreyta sig með merkjum kommúnisma, hagi sér eins og fasistar heima hjá sér?

ÞEGAR börnin eru vanþakklát og frek þá langar fólk ekkert að gera fyrir þau.  Og það er kannski ágætis ráð fyrir foreldra sem finnst þeir vanmetnir að skrifa niður allt sem þeir gera fyrir börnin sín:  "Þetta gerum við fyrir ykkur, hvað eruð þið að gera fyrir okkur?" Og ef það þýðir ekki er hægt að draga úr þjónustu: Abuse it, lose it! Og ef það bregst þá má grípa til verkfalls,  hætta að kaupa í matinn, elda, þvo barna- og unglingaföt og láta loka fyrir símann.

EF ég yrði unglingur aftur myndi ég hjálpa mömmu minni meira.  Ég myndi læra á þvottavélina, vaska upp og jafnvel gleðja hana með því að sýna frumkvæði og gera eitthvað, sem hún þyrfti annars að gera þegar hún kæmi heim úr vinnunni.  Og ég myndi kynna mér matargerð og elda fyrir hana á afmælinu hennar.

SÝNIÐ foreldrum ykkar skilning og virðingu.  Þakkið þeim fyrir það sem þau gera vel og ekki taka því sem shálfsögðum hlut að fá heitan og góðan mat á hverjum degi.  Það hafa allir þörf fyrir viðurkenningu.  Ekki bara börn heldur foreldrar líka.

—————————-

Svo mörg voru þau orð.  Mér finnst þessi texti alveg sérstaklega góður og það mætti vel gera komandi fermingarbörnum skylt að lesa hann og ræða  sínum undirbúningi.  Mér hefði ekki veitt af svona ábendingu þegar ég var á þessum aldri. Heima hjá mér virtist eðlilegt að mamma gengi til allra verka nema kannski að vaska upp. Hún kvartaði aldrei og við hin höfum sjálfsagt talið að henni þætti þetta svo skemmtilegt eða að þetta gerðist allt af sjálfu sér. Sem betur fer er í dag farið að gera kröfur til þess að aðrir heimilismenn taki þátt í að hafa hreint og hjálpist að við að hafa allt í röð og reglu.

  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Bakþankar.

  1. Svanfríður says:

    takk
    Takk fyrir að setja þennan pistil inn, ég er svo löt að lesa fréttatenglana á netinu að það var gott að lesa þennan pistil. Þetta er líka alveg rétt hjá honum. Örugglega og því miður eru „störf“ foreldra vanmetin. Þegar ég lýt til baka til móður minnar get ég ekki annað en dáðst að henni. Oft voru heimilisaðstæður þannig að hún gat ekki verið heima en alltaf voru hendur hennar langar að hún hugsaði um mig,vel, þó hún væri í burtu og mun ég ætíð vera henni þakklát og pabba auðvitað einnig. EF ég get gert helminginn af því með Eyjólf sem þau gerðu með mig þá verð ég stolt eiginkona og móðir.

  2. Linda blinda says:

    jahá
    Gæti ekki verið meira sammála – enda er ég ansi oft sammála Gnarrinum. Ég bý einmitt við það að vera einstakt foreldri unglings sem telur sig búa á hóteli – og hefur jafnvel fengið vini sína til að trúa því að þeir séu einnig staddir á einu slíku. Það getur verið lýjandi.

  3. Þórunn says:

    Hótel Mamma
    Þetta var virkilega þörf hugleiðing hjá þér Ragna mín og fróðleg greinin eftir Jón Gnarr. Ég veit ekki hvað skal segja um þetta hugsunarleysi barna og unglinga varðandi foreldra sína. Þetta virðist vera gömul saga og ný. Hvað getum við gert til að breyta þessu? En svo er annað sem ég hef tekið eftir varðandi fermingarbörn síðustu árin. Ég þekki nokkur dæmi þess að börnin eru ósátt við að vera skikkuð til að mæta í svo eða svo margar messur fyrir ferminguna, finnst það virkilega leiðinlegt. Hvað er orðið um trúna? Eru börnin ekki að fermast vegna trúarinnar? Mér finnst að þau ættu þá ekki að láta ferma sig ef þeim leiðist svona að fara í kirkju, eða hvað?

  4. Hulla says:

    Frábært!!
    Þetta er frábært! Ég var auðvitað ekki búin að sjá þetta (eðlilega) en ég er að hugsa um að prenta þetta út og setja í ramma og hengja upp á vegg hjá börnunum mínum 🙂 Þau gáfu mér einu sinni skjal sem á stendur….elsku mamma og pabbi…. og svo runa af allskonar sniðugu. Og það var hengt upp á vegg hjá mér, og mér finnst það virkilega fallegt, en nú eru blessuð börnin bara orðin það stór að mér finnst fínt að þessar línur séu það fyrsta sem þau sjá þegar þau opna augun á morgnana. Þú er best Ragna!!!

  5. Linda says:

    Það er alveg á hreinu að sum börn kunna ekki að meta hvað fyrir þau er gert.. Ég hef mjög ákveðna skoðun á þessum hlutum sem og öðrum og get verið alveg brjál þegar svona umræður eru í gangi..
    Ég held að ef börnum er kennt að bera virðingu fyrir hlutum frá unga aldri, þá veður það sjálfsagt að taka ekki hlutum sem gefnum, og fólk/börn meta hluti og sjá hluti í öðru ljósi ef þeim er kennt og sýnt að ekkert er sjálfsagt..
    Börnin eru bara það sem fyrir þeim er haft er gamalt orðatiltak og ég held að það sé bara alveg rétt..

    Ferming í dag er orðin keppni barnanna um hver fær dýrustu gjöfina frá foreldrunum og virðist ekki tengjast á nokkurn hátt við einhverja trú..

    Nú er ég farin að tapa mér í umræðunni, svo ég hætti nú en vona samt að ég hafi engan móðgað með mínum persónulegu skoðunum..

    Hafið það gott allir..

  6. Dandý says:

    Uuum ég held að allir eigi að hugsa um þetta,Mömmurnar eru allt of oft að leggja mikla vinnu í það sem engin sér, mamma hvar eru leikfimisfötin mín, þau voru í töskunni í gær, hvar er sundfötin þau voru í töskunni í gær. hvernig væru fötin útlítandi ef mamman væri ekki búin að þvo og viðra.. ummm hugsa ummm kv Dandý

Skildu eftir svar