Ekkert merkilegur dagur – eða…

Mér fannst ég ekkert hafa að segja af því að ekkert merkilegt hefði gerst í dag.  Svo fór ég að hugsa um það, hvað væri merkilegt og hvað ekki.

Var það ekki merkilegt að fá að vakna í morgun, vera heilbrigð og geta farið á fætur til þess að taka þátt í lífinu.
Það eru ekki allir svo heppnir?

Er það ekki líka merkilegt að hafa heilbrigða fætur til að ganga á og geta farið í langan göngutúr í góða veðrinu sem var í dag?
Allt of margir eru bundnir við rúmið eða hjólastól og hafa ekki slík tækifæri.

Er ekki merkilegt að fá að sækja barnabörnin sín í skólann og heyra hvað þau hafa verið að gera í dag, fara með þeim heim til mömmu sinnar og borða með þeim um hádegið og fylgja þeim síðan í rútuna svo þau kæmust til pabba síns. Hafa svo dóttur sína til þess að skreppa með í búðir? 
Margir eiga börnin sín og barnabörnin í öðrum löndum og jafnvel í öðrum heimsálfum  og eiga ekki kost á svona samveru.

Er ekki merkilegt að eiga gott heimili með öllum þægindum, þar á meðal tölvu sem ég get notað til að hafa samband við ættingja mína og vini sem eru fjarri.
Margir eiga ekki einu sinni þak yfir höfuðið og eiga þess engan kost að eignast það.

Það sem upp úr stendur í því að skilgreina hvað er merkilegt og hvað ekki þá hef ég komist að raun um það, að hver einasti dagur sem maður lifir er á einn eða annan hátt merkilegur. Maður þarf bara að sjá það og kunna að meta það og nýta sér.

Ég ætla að láta flakka nokkrar myndir sem ég tók í göngutúrnum í morgun. Þær eru teknar á sömu slóðum og snjómyndirnar um daginn. Með þessum myndum vil ég segja við ykkur

G Ó Ð A   H E L G I.

mynd1.jpg

Ég vildi að ég gæti leyft ykkur að heyra allan fuglasönginn.

mynd2.jpg

mynd3.jpg

…og þessi er tekin niður í Fosslandið. á leiðinni heim.
Það er auðvelt að sjá hvað veðrið er yndislegt.

mynd4.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Ekkert merkilegur dagur – eða…

  1. Sigurrós says:

    Það merkilegasta af öllu ert þú, elsku mamma mín 🙂
    Góða helgi og láttu þér líða vel.

  2. Dandý says:

    Elsku didda mín og kæra frænka eins og ég hef kosið að kalla þig, flott síða ég hef skoðað hana í marga mán,og ferkar spæld þú ert löt eins og þú segir sjálf og skrifar ekkert í heilan dag „Takk fyrir góðar hugsanir til okkar allra. Komin tími til að ég komi inn takk held áfram að fylgjast með þér. Takk Dandý Gufuskálum

  3. Kolla says:

    Þú ert hvort tveggja: góður myndasmiður og góður ritsmiður Didda mín.
    Hvaða fuglar eru það sem sækja þig mest heim? (Segðu ekki starrar, heillin!)
    Alltaf ánægja að lesa dagbókina þína.

  4. Svanfríður says:

    pistlarnir þínir eru mannbætandi Ragna. Þetta er svo rétt hjá þér að það er svo margt sem við eigum að vera þakklát fyrir og mér sýnist þú vera þakklát fyrir það sem þú hefur. þú virðist vera góð manneskja með gott hjartalag og örugglega gott að sitja yfir kaffibolla hjá þér og láta gamminn geisa. Hafðu það sem best yfir helgina, góðar kveðjur héðan úr Cary, Svanfríður sem er þakklát fyrir svo margt einnig.

  5. Hulla says:

    Sammála henni dóttur þinni. Hún þekki sko mömmu sína 🙂 Þú ert stórmerkileg kona 🙂 Og okkur hérna sem þekkjum þig og/eða lesum bloggið þitt þykir endalaust vænt um þig 🙂 Góða helgi.

  6. Þórunn says:

    Þakklæti
    Takk fyrir þessa fallegu hugleiðingu og þörfu ábendingu til okkar allra. Ég er líka þakklát fyrir margt, til dæmis að hafa kynnst þér á netinu og hitta þig svo í eigin persónu í haust. Góða helgi Ragna mín.

  7. Anna Sigga says:

    Magnaðar myndir…
    …og mjög góð hugleiðing. Farðu vel með þig, Ragna mín!

  8. Linda says:

    Þú klikkar ekki á einlægninni frekar en fyrri daginn.. ótrúlega góðir og hjartnæmir pistlar sem þú skrifar Ragna..
    Og rétt er að margt er það sem maður ætti að vera þakklátur með.. Það er bara þannig að fólk vill oft gleyma að hversdagslífið á ekki að vera tekið sem sjálfsagt.. Það er bara alls ekkert sjálfgefið að fá að vakna næsta morgun eða fá að taka þátt í lífi annarra..
    Svo er það líka val hvers einstaklings hvernig sá kýs að vakna.. ætlar hann að vera þakklátur fyrir að fá að vakna og vita að börnin sem hann ól upp hafi komist sæmilega til manns eða ætlar hann að kvarta og kveina yfir því að „bossinn“ gaf honum ekki dagsleyfi til að fara í passamyndatöku??

    Allt er þetta spurning um val og að bera virðingu fyrir lífinu..

  9. afi says:

    Merkilegt
    Þetta hefur samt verið mjög merkilegur dagur og myndrænn. Hafðu þakkir fyrir hann og alla aðra daga.

  10. Ragna says:

    Þakka ykkur öllum fyrir að skrifa í orðabelginn.
    Kolla mín. ég get huggað þig með því að það eru ekki Starrar sem sækja mig mest heim heldur Snjótittlingarnir blessaðir og einn og einn Þröstur kemur í heimsókn líka og vonandi fjölgar þeim þegar trén í mínum garði verða stór,

    Ég vil svo þakka ykkur öllum fyrir að vera svona dugleg að leggja orð í belg.
    Eitt vil ég að komi skýrt fram, og það er að þið megið alls ekki halda að undirrituð sé eitthvað merkileg það er hinsvegar lífið sjálft sem henni hefur verið úthlutað að taka þátt í sem er merkilegt.

Skildu eftir svar