Helgin góð – þrátt fyrir allt – og ekki síst dagurinn í dag.

Jæja kæru bloggvinir nú bara get ég ekki lengur án ykkar verið.  Ég hef verið að ganga framhjá tölvunni öðru hvoru um helgina og kíkja á skjáinn, en hef að mestu virt það bann að setjast við tölvuna til skrifta þó mig hafi mikið langað til þess. Ég þakka ykkur kærlega sem hafið verið að senda mér góðar kveðjur í orðabelgnum.  En nú bara verð ég að stelast til að senda smá pistil svona til að missa ekki alveg sambandið við ykkur.

Á laugardaginn gekk ég með hálskraga mestan hluta dagsins og hef verið að taka  inn einhverja bólgueyðandi ólyfjan síðan fyrir helgi. Í morgun náði sjúkraþjálfarinn að teygja mig og toga svo heldur jókst nú blóðrásin upp í haustetrið og mér líður nú heldur betur í dag . 

Ég átti nú ekki von á neinum stórræðum þessa helgi en það var nú ýmislegt gert þrátt fyrir allt.

Við Haukur fórum í rúmlega klukkutíma göngutúr  á laugardagsmorguninn í yndislegu veðri.  Birtan var svo falleg en því miður var myndavélin ekki með. Úm miðjan daginn ákvað Haukur svo að bjóða sinni elskulegu í kaffi á Hafið Bláa.

hafi_bla.jpg

Það var yndislegt að sitja þarna og horfa út á hafið.

Ég mátti svo til að bjóða Hauki upp á gott lambakjöt sem við borðuðum við kertaljós um kvöldið og fengum okkur rauðvínsstaup með.
Svo tók söngvakeppnin við. Við vorum  alveg viss um að þetta væri úrslitakvöldið  en svo reyndist ekki vera og engin urðu úrslitin. Það voru fleiri en við sem misskildu þetta og héldu eins og við að úrslitin lægju fyrir eftir þetta kvöld.

Sunnudagurinn var svona frekar aðgerðarlítill en við fórum þó í bíó um kvöldið og sáum  "Rumor has it" með Jennifer Anniston.  Ég dáðist að Hauki að sitja með mér út myndina því þetta er nú svona dæmigerð konumynd en það var vel hægt að hlæja að henni og hann kvartaði ekkert – sat bara karlmennskan uppmáluð og lét sig hafa þetta.

Við Guðbjörg fengum þá snilldarhugmynd að fara með krakkana eftir hádegið í dag í dagsferð í Sælukot. Þetta er eini dagurinn sem þau eru ekki í neinum aukatímum eftir skólann og urðu himinlifandi þegar þau heyrðu hvað stóð til. Magnús var að kenna og afi að fara í bæinn í vinnusyrpu svo þeir sem fóru voru amma, Guðbjörg, bumbubúinn, Karlotta og Oddur Vilberg.

Ánægjusvipurinn leynir sér ekki á ömmustubbnum

vel_festur.jpg

Þau fundu sér strax eitthvað að sýsla með.

_slukoti.jpg

Guðbjörg SMSar Magnúsi sem var að leita frétta. 

i_sambandi.jpg

Þá er ég svona með hléum búin að pota þessu inn. Nú er best að taka af sér hálskragann og búa sig undir að horfa á Survivor klukkan níu og Lost klukkan rúmlega tíu. Algjört konfekt á mánudagskvöldum í imbanum.      Allar myndir helgarinnar eru hér.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Helgin góð – þrátt fyrir allt – og ekki síst dagurinn í dag.

  1. Sigurrós says:

    Æ, hvað ég öfunda ykkur af Sælukotsferðinni…! 🙁 En það þýðir víst ekki að kvarta meðan ég neita að flytja á Selfoss 😉

  2. Svanfríður says:

    Ég var búin að sakna þín. Nú eigið þið bara næsta laugardagskvöld undir úrslitin sem ekki er nú leiðinlegt. Hér á bæ er Bangsimon sem stjórnar sjónvarpstækinu og situr sá stutti límdur við:) Hafðu það gott og vonandi fer líðan enn skánandi.

  3. afi says:

    Sveitin.
    Mikið er gott að heyra að heilsan sé að skána. Vonandi verður framhald á því. Það er alltaf svo gaman að koma í sveitina. Ekki sakar að veðrið sé gott og börnin með. Bestu kveðjur.

  4. Þórunn says:

    Sól og SÆLA
    Mikið er gott að heyra að þú ert að jafna þig. Helgin hefur verið sannkölluð SÆLUhelgi hjá ykkur. Þið Haukur hafið semsagt tekið forskot á SÆLUNA sem hefði átt að vera í dag samkvæmt dagatalinu. Eigðu góðan dag.

  5. Gurrý says:

    Leitt að heyra að þú sért lasin Ragna mín, ég á tengdó mína hér í jórdaniu í sömu sporum og veit hvernig henni líður stundum. Mikið er gaman að sjá myndirnar af sólargeislunum þínum, en þau minntu mig bara á sól og blíðu þessi brosandi andlit. Farðu vel með þig og ég held áfram að kíkja við, kveðja Gurrý

  6. Linda says:

    Æ hvað það er gott að heilsan er betri hjá þér..
    Göngutúrinn hefur gert ykkur hjónakornum og kynt undir rómantíkinni.. Lamb og rauðvín.. mmm..

    Ein spurning ef maður má vera svo forvitinn.. hvar er Sælukot staðsett?? finnst ég kannast eitthvað við umhverfið..

  7. Ragna says:

    Þakka góðar kveðjur
    Þakka allar góðu kveðjurnar.
    Linda, þú spyrð hvar Sælukot sé. Það er frekar ofarlega á Rangárvöllunum í Heiðalandi. Tengdamóðir mín Guðbjörg Oddsdóttir var fædd á Heiði og við börn hennar og tengdabörn eigum þennan bústað saman og höldum þannig tryggð við staðinn þó ættin sé að öðru leyti farin frá Heiðabænum.

  8. Linda says:

    Takk fyrir það.. ég sé að mínir útreikningar voru alveg út úr kú.. Enda aldrei verið góð í hvorki stærðfræði né landafræði..

    En á myndunum er landslagið svo svipað og þar sem fjölskylda mín er með bústað.. datt í hug að tékka svona að gamni..

  9. Nafnlaust says:

    rómantík
    Didda mín,
    Mikið var gaman að lesa pistilinn þinn. Greinilega mikil rómantík í loftinu þarna fyrir austan. Ætli maður verði ekki að flytja austur til að reyna viðhalda því sem var kannski einhverntímann fyrir hendi í fyrri hálfleik.
    Eins hafði ég gaman að skoða myndirnar þínar úr bústaðnum, það rifjaðist upp þegar við vorum þarna saman eina helgi og Sigurrós var með okkur.
    Haltu áfram að láta þér batna Didda mín og svo sjáumst við á laugardaginn.
    þín Edda GG

  10. Ragna/Didda says:

    Já Edda mín það rifjast oft upp fyrir mér þessi góða helgi okkar í bústaðnum á sínum tíma. Veistu bara að það eru að verða komin 16 ár síðan þetta sumar. Það var mikil rómantík í loftinu þetta sumar, sumarið sem ég kynntist Hauki.

Skildu eftir svar