Dansinn dunar…..

Mikið var þetta nú góð helgi.  Góður matur í saumaklúbb hjá Önnu í hádeginu á laugardaginn og gaman að hitta "stelpurnar". Svo kom ég það snemma heim úr saumaklúbbnum að ég náði að rölta yfir götuna og yfir á Hrafnistu og hitta aðeins hana Tótu mína.

Svo var það aðalmálið, að gera sig fínan og fara á þorrablótið hjá Félagi harmonikkuunnenda og Þjóðdansafélaginu í Glæsibæ um kvöldið. 

_orrablot.jpg

Þetta var svona alvöru blót með góðum mat, heimatilbúnum skemmtiatriðum  og gömludansarnir dansaðir út í eitt.
Að byrja að dansa eftir að hafa úðað í sig súrmatnum og hákarlinum var svona eins og að gangsetja gamlan bíl í miklu frosti. Fyrst höktir hann og óvíst um framhaldið og svo jafnast gangurinn þangað til hann er kominn á góðan skrið. Þetta var allavega sú samlíking sem mér fannst passa best við það hvað maður var þungur á sér og stirður í fyrsta dansinum en gangurinn varð þíðari með hverjum dansinum og síðan var erfitt að stoppa sig þegar ballinu lauk. Það var yndislegt að svífa þarna í polkum, rælum og völsum, marsúkkum, skottísum og Skoska dansinum svo eitthvað sé nefnt.  Þetta var algjört danskonfekt og mikið gott að ég var búin að ná mér úr gigtarkastinu svo það truflaði ekki neitt.  Nú bíður maður bara eftir næsta balli.

Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorguninn var ég alveg ákveðin í því að fara ekki heim fyrr en ég væri búin að líta inn hjá henni tengdamömmu og Ingabirni og Haukur fór með mér. tengdam_ingi.jpg

Það var auðvitað ekki við annað komandi en að gefa okkur kaffi þó við værum tiltölulega nýstaðin upp frá morgunmatnum. Svo vorum við svo heppin að Einar mágur og Inga litu inn nokkru eftir að við komum. Alltaf gaman að hitta tengdafólkið mitt.

Þegar við vorum að leggja af stað heim þá hringdi Magnús tengdasonur og sagðist hafa keypt konudagstertu handa sinni konu í tilefni dagsins og svo væri hann að baka vöfflur og hann vildi að tengdó fengi að njóta líka. Við fórum því beint í konudagskaffið í Grundartjörnina þegar við komu austur.

konudagur.jpg

Um kvöldið sátum við svo aðeins hjá krökkunum á meðan þau hjónin og bumbubúinn fóru út að borða. Krakkarnir voru spennt að sýna okkur búningana sem þau ætla að skarta á öskudaginn og það var ekki farið úr þeim fyrr en það átti að fara að sofa.  Þau lásu fyrir okkur og spiluðu fyrir okkur á fiðlur svo við fengum hina bestu skemmtun út úr þessu. Það var gaman þegar þau voru að spila saman. Karlotta alveg viss á öllu sínu en Stubburinn tók þessu með svona léttu kæruleysi og gleymdi stundum að fylgjast með nótunum og þá þurfti stóra systir að siða hann aðeins til og sagði að maður gæti ekki spilað ef maður horfði bara eitthvað út í loftið og gleymdi að fylgjast með nótunum. 

fidluspil.jpg

buningarnir.jpg

Já það var gaman að þessu og þannig lauk nú þessari góðu og viðburðarríku helgi okkar að þessu sinni.

Ég þakka öllum sem tóku þátt í að helgin varð svona skemmtileg.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

13 Responses to Dansinn dunar…..

  1. afi says:

    8 gata trillitæki.
    Börnin eru aldeilis vel með á nótunum. Mikið var nú gott að amman hökkti í gang á ballinu. Gamli Fordinn varð í einu vetvangi að algjöru trillitæki.

  2. Linda says:

    Stórglæsileg ertu Ragna..svakalega góð myndin af þér..

    Þegar ég las um að þið hafið setið yfir barnabörnunum, þá var ég ekki alveg viss um hver var að passa hvern.. því krakkarnir virðast hafa haft ofan fyrir þeim „gömlu“.. thíhíhí..

  3. Ragna says:

    Takk Linda mín. Hauki fannst konan orðin svo fín að hann vildi fá mynd.
    Best að hafa ekki hátt um það hver passaði hvern. En í alvöru talað, er ekki fínt að ungdómurinn skuli hafa verkaskipti við gamlingana?

  4. Þórunn says:

    Glæsileg helgi
    og glæsileg dama, það er líklega rétta orðið yfir þig vinkona, þú er alltaf svo glæsileg. Það er ekki oft sem helgin er svona pökkuð af góðum og skemmtilegum atburðum. Engin furða að þið voruð alsæl með hana. Takk fyrir að deila henni með okkur.

  5. Svanfríður says:

    Stórglæsileg
    Mikið ofsalega ertu falleg á myndinni Ragna-algjört MEGABEIB eins og maður segir á fágaðri íslensku:) Þú sagði hjá harmonikkufélaginu. Spilar maðurinn þinn á harmonikku eða þú? Það er svo gaman að stíga dans í góðum hóp svo ég samgleðst þér innilega að hafa átt góða helgi.

  6. Ragna says:

    Sjalið fallegt.
    Þið gerið mig nú bara feimna. Þessi fékk bara að fljóta með vegna þorrablótsins en þar tókum við hinsvegar engar myndir. En sjalið er fallegt og ég vona að hún Edda Garðars vinkona mín sjái myndina því hún gaf mér þetta fallega sjal.

  7. Nafnlaust says:

    Flottust
    Didda mín
    Gaman að sjá þessa fínu mynd sem strákurinn sem er svo skotinn í þér tók af þér, það sést á þér hvað þú hlakkar til að fara dansa.
    Ég viðurkenni alveg að sjalið er flott á þér – þetta er þinn litur.
    kær kveðja
    þín Edda GG

  8. Stefa says:

    Ohh það er svo gaman að dansa!
    Sæl Ragna mín,

    mikið samgleðst ég þér að hafa getað farið á ball og dansað svona. Það er langt síðan ég hef fengið tækifæri til að dansa gömlu dansana almennilega en ég reyndi þó að fá blíða sveina mér til fylgilags í brúðkaupinu hjá Sigurrós og Jóa. Skoski dansinn og marsúrka voru í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var í dansinum og ég er svo ótrúlega hæf að ég get dansað hvort sem heldur stráka- eða stelpusporin vegna strákaskorts í dansinum í minni æsku. Því miður held ég að það sé svo enn – strákarnir síður duglegir að læra …en þeir sjá eftir því síðar á ævinni ;o) Bestu kveðjur af malbikinu, þín Stefa

  9. Ragna says:

    Elsku Stefa mín! Þú talar um í þinni æsku. Þú sem ert enn langt fyrir innan þrítugt og ert auðvitað á miðju æskuskeiðinu ennþá. Ég veit nú samt hvað þú ert að meina. Ég vona bara að þú fáir Rúnar með þér í dansinn fljótlega.

  10. Ragna says:

    Að spila eða ekki spila á harmonikku.
    Svanfríður mín! Ég ætla að upplýsa þig um að Haukur spilar alveg ágætlega á harmonikku þó hann myndi aldrei viðurkenna það. Af því að hann hefur ekki lært þá þykist hann ekkert kunna að spila og spilar helst bara fyrir sjálfan sig. Þegar hann var ungur þá spilaði hann samt á böllum með frænda sínum. Svona er nú það en við erum í Félagi harmonikkuunnenda og það er svo gaman á böllunum hjá þeim.

  11. Sigurrós says:

    Mamma mín er sko langflottust, það hef ég alltaf vitað! 😉

  12. Svanfríður says:

    Pabbi minn spilar á harmonikku líka-þó svo hann sé örugglega í sama flokki og Haukur þinn-segist ekkert kunnar því hann hafi aldrei lært. En það er örugglega mjög gaman í þessu félagi því það er aldrei leiðinlegt í kringum harmonikkur:)

  13. Gurrý says:

    Gaman að lesa pistilinn frá þér í dag, greinilega hefur verið fjör á ballinu myndin af þér er mjög fín, glæsileg bara! Aaaa það er svo langt síðan ég hef farið á dansiball…

Skildu eftir svar