Ekki bara góður heldur rosalega góður.

Alveg er dæmalaust hvað það koma margir góðir dagar í sumar. Dagurinn í dag kom svo sannarlega á óvart. Karlotta var hjá mér í dag og þegar hún kom í morgun klukkan að verða átta og ég opnaði dyrnar norðanmegin þá fannst mér vera kaldur gustur sem kom á móti mér. Kannski var það bara af því ég var ennþá á náttfötunum 🙂 en ég var svo viss um að nú væri haustið að læðast að okkur. Guðbjörgu hefur líklega fundist það sama því Karlotta var í sokkabuxum undir síðbuxunum.  Þegar fór að líða á morguninn fórum við í smá leiðangur og þá kom í ljós að það var verulega farið að hlýna og þegar við vorum búnar með það sem við þurftum að erinda og búnar að borða ísinn í Blómavali um hádegið og komum heim aftur þá fórum við beint út á pall og fækkuðum fötum hið snarasta.  Ég kláraði að klippa kantana sem ég átti eftir þegar ég sló í vikunni og síðan bara nutum við sólarinnar í allan dag. Siggi sótti svo Karlottu um fjögurleytið og síðan ætluðu þau að sækja Odd afmælisbarn, en þau verða hjá pabba sínum um helgina.


Það var alveg á mörkunum að ég nennti inn til að elda mér mat en gerði það  nú samt. Ég reyni að hafa það fyrir reglu að elda mér kvöldmat þó ég sé ein. Annars er maður endalaust að renna í eitthvað og finnst maður alltaf vera orðinn svangur aftur.


Nú ætla ég að manna mig upp í að skrifa kvörtunarbréf fyrir Guðbjörgu vegna galla í pússningunni á húsinu hennar. En í ljós hefur komið að pússningin er laus á stóru svæði. Byggingu hússins lauk 1996 og maður hefði nú ekki búist við slíkum galla á þetta nýju húsi.  Heldur leiðinlegt að standa í slíku en hinsvegar alveg fáránlegt að Guðbjörg taki þetta alfarið á sig. Ég vil í það minnsta athuga hver réttur hennar er og ætla því að skrifa bréf til fyrri eigenda og fasteignasölunnar.


Læt þetta því duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar