Bæjarferð og afmæliskveðjur.

Í gær skruppum við Guðbjörg í bæjarferð. Ekki var um borgarferð að ræða í þetta skiptið því við héldum okkur alveg í Kópavoginum. Við hittum Sigurrós sem lóðsaði okkur í Rúmfatalagerinn þar sem við Guðbjörg vorum svo miklar sveitakonur að allt var nýtt fyrir okkur. Við undruðumst þegar við sáum heilmikið færiband sem lá upp á efti hæð sem var sko alls ekki til staðar síðast þegar við komum þarna. Upp færibandið fer fólk svo með kerrurnar, stillir þeim bara á bandið og sleppir takinu og viti menn þær hreyfast ekki þó bandið fari upp á næstu hæð – ja hvílík undur og stórmerki fyrir gamla sveitakonu að upplifa. 
Það er nú eins og alltaf þegar rölt er í Rúmfatalagernum að hitt og þetta tínist til sem maður telur sér trú um að vanti heima fyrir. Þannig keypti ég m.a. svuntu, pottalepp og handklæði með myndum af fuglahúsi og fuglum,  sem ég fullvissaði mig um að ég mætti til með að  skarta á pallinum í sumar. 

Við fórum nú að finna til svengdar eftir að hafa rölt þarna um og skoðað allt í krók og kima og ekki mátti þreyta þessa með bumbúann svo mikið að  hann ákveddi að líta dagsins ljós á heimleiðinni.  Við fórum því yfir götuna í Smáralindina og settumst þar inná kaffihús og fengum okkur hressingu og sátum þar lengi og spjölluðum saman. 
Það var mjög notalegt að hittast allar þrjár og eiga svona góðan tíma saman. Það er orðið langt síðan síðast.  Heimferðin gekk síðan aldeilis vel í vorblíðunni.

NJÓTIÐ VEL HELGARINNAR.

Í dag laugardaginn 25. febrúar halda saman upp á afmælið sitt Vilborg systurdóttir mín, sem á afmæli í dag  og Edda Karen systurdóttir Vilborgar sem átti afmæli í vikunni.  

TIL HAMINGJU STELPUR MÍNAR.

 

vilborg_.jpg               edda_karen.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Bæjarferð og afmæliskveðjur.

  1. Svanfríður says:

    Svona innkaupakerrurennistigar eru liggur við í öllum stórverslunum hér og mér finnst þetta alltaf jafn fyndið. Ég er einhvernveginn út úr þessari uppfinningu að ég fer alltaf í næstu lyftu með innkaupakerruna því ég hef alltaf á tilfinningunni að kerran detti úr stiganum en það er bara bull í mér:) Góða helgi Ragna og hafðu það gott.

  2. afi says:

    Undraland
    Það má kannski segja það að Rúmfatalagerinn sé algjört undraland og völundarhús. Þar ægir saman hinu og þessu, þörfu og óþörfu. Gott að þú hafðir góðan leiðsögumann.

Skildu eftir svar