Hláturinn lengir lífið.

Alveg voru þeir óborganlegir í spaugstofunni í kvöld þegar opinberuðu hvernig Halldór Ásgrímsson gæti náð meiri vinsældum fyrir Framsóknarflokkinn með því að vera í gerfi Sylvínu Nóttar (Nætur)).  Og ekki var söngurinn og textinn til að skamma uppá. Ég sat hérna ein heima og veltist um af hlátri.   Ég var líka búin að hlæja mikið að þættinum á undan þeim, breska þættinum með fjölskyldu tannlæknisins – þeir þættir bregðast aldrei.
Hláturinn lengir lífið og ég kann RUV miklar þakkir fyrir þessa framlengingu á lífi mínu.

Annars er dagurinn í dag búinn að vera mjög fínn. Ég dúllaði mér í morgun í rólegheitunum með kaffibollann og Moggakrossgátuna eins og ég er vön á laugardagsmorgnum Síðan fór ég í bíltúr upp í Grímsnes í góða veðrinu með Guðbjörgu og Magnúsi Má.  Við ætluðum reyndar að finna sumarbústað sem ekki var auðvelt að finna svo við höfðum nú ekki árangur sem erfiði,  en kaffiið og kökurnar  í Þrastarlundi bætti það upp og yljaði okkur eftir göngutúrinn í sumarbústaðalandinu.

Það var uppörvandi að heyra veðurfréttirnar í kvöld. Spáð var björtu veðri nánast alla næstu viku. Ég vona að það hafi ekki bara verið vegna þess að veðurfræðingurinn, sem er splunkunýr á skjánum, hafi bara verið að koma sér í mjúkinn hjá okkur.

Ég kveð að sinni glöð og hress.

P.S. Talandi um að hlæja. Þegar við Guðbjörg ókum fram hjá Kotströnd á leið okkar í bæinn á föstudaginn tókum við eftir því að maður með skóflu sér við hönd opnaði ræsislok í vegkantinum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi ef við hefðum ekki horft á manninn hverfa með hraði ofaní jörðina.  Þetta var eitthvað svo óvænt og ófyrirséð að við mæðgur þurftum nú ekki meira til þess að fá hláturkrampa.  Blessuð börnin í aftursætinu, sem ekki voru að horfa út um gluggann og fylgdust því ekki með þessu,  botnuðu hvorki upp né niður í okkur sem hlógum svo mikið að við  máttum ekki mæla.  Ég vona bara að manngarmurinn hafi komist upp aftur – nema hann hafi verið útsendari einhvers þarna niðri og bara verið að fara heim úr vinnunni. 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Hláturinn lengir lífið.

  1. SVanfríður says:

    Gott að þú lengdir lífið svona rosalega í kvöld:) Ég hef oft velt því fyrir mér hvað stjórnmálamennirnir blessaðir og aðrir sem lenda í klóm spaugstofumanna hugsi og finnist um spaugið sem gert er af þeim. Ég ætti kannski bara að spyrja Halldór að því…

  2. Linda says:

    Ohh, Ragna.. þú veist ekki hvað ég öfunda þig af Morgunblaðskrossgátunni..
    Ekki að það séu engar krossgátur hér í henni Ameríku, heldur er ég bara ekki sú besta í þeim, hef ekki nógu mikinn orðaforða til að ráðast á þær..
    Farðu vel með þig Ragna mín.

  3. afi says:

    Spaug
    Já þeir eru sannarlega snjallir þessir Spaugstofumenn. Hver myndi svo sem eftir Dóra ef þeir væru ekki til staðar?

  4. Þórunn says:

    Spaug
    Það er virkilega gott að geta hlegið hjartanlega. Ég flýtti mér að horfa á spaugstofuna í tölvunni eftir að hafa lesið pistilinn þinn, það var sannarlega þess virði. Þeir eru alveg ótrúlegir þessi menn, hvað þeir geta séð spaugilegu hliðarnar á ÖLLU.

Skildu eftir svar