Endurfundir æskuvina í Áskirkju.

Eftir frekar annasama viku þá fór ég í alveg sérstökum tilgangi til borgarinnar í gær. Það var í annað sinn sem endurfundir gamalla æskufélaga úr hverfinu (Hjallavegur, Kambsvegur, Austurbrún og göturnar í kring) var haldinn í Áskirkju. Aftur var það fjölskylda Óskars, sem alltaf gekk undir nafninu Óskar í Sunnubúðinni, sem kom þessum endurfundum á og ég þakka þeim fyrir framtakssemina.

Það rifjast alltaf eitthvað upp frá gömlum tíma og maður sér ljóslifandi fyrir sér ýmislegt sem gerðist fyrir meira en 50 árum. Á leiðinni austur aftur þá fór ég að hugsa um mömmurnar okkar, sem voru alltaf heima til að sinna börnum og búi. Það voru reyndar mis mörg börn á heimilunum. Laufholt átti vinninginn en systkinin þar urðu 10.

Það var ekki eins auðvelt fyrir mömmur á þessum tíma að sinna heimilunum eins og það er í dag jafnvel þó mömmur nútímans vinnii flestar líka utan heimilis. Ef ég ber þetta saman, þá sé ég hvað þetta hefur verið erfitt og þá sérstaklega á barnmörgu heimilunum. Það tíðkaðist ekki í þá daga að feður væru neitt að vasast í heimilisverkum enda unnu þeir langan vinnudag og flestir fóru til og frá vinnu með strætisvagninum. Alla aðdrætti til heimilisins báru t.d. konurnar heim (engin með bíl). Þær hafa sjálfsagt oft verið örmagna blessaðar eftir þvotta og saumaskap auk alls þessa venjulega að elda mat, baka og þrífa til og ekki má gleyma því, ganga með börnin og sjá um uppeldið á þeim. Engir voru leikskólarnir.

Þvottarnir tóku marga daga því þvottavélarnar voru sko ekki sjálfvirkar á þeim tíma sem ég er að rifja upp. Fyrst þurfti að leggja þvottinn í bleyti, síðan að færa hann upp í þvottavélina og láta hann malla þar síðan þurfti auðvitað að færa upp í suðupottinn og sjóða hvíta þvottinn og eftir það var þetta enn og aftur dregið upp og yfir í balana þar sem þvotturinn var látinn skolast, oftast fram á næsta dag. Svo átti eftir að vinda allt og annaðhvort var það þá fært aftur í þvottavélina sem var með handsnúinni vindu eða undið í höndunum. Svo var auðvitað mikill metnaður í því að hengja mjallahvítan þvottinn út á snúru til að þurrka hann að ógleymdum öllum strauningunum.

Kannski hefðum við ekki velt okkur upp úr moldarflögunum og rennt okkur niður grasbrekkurnar ef við hefðum haft snefil af tillitsemi og hefðum áttað okkur á hvað það lá mikil vinna í því að láta okkur alltaf eiga hrein föt á morgnana og sauma á okkur ný föt sem stundum komu svo rifin heim.

Á þessum tíma þótti þetta allt sjálfsagt og enginn virtist neitt að spá í hvað þetta var mikið erfiði, og konurnar í Kleppsholtinu – frumbyggjarnir í þessu nýja hverfi sem var þá svo langt frá miðborginni-, virtust alltaf svo ánægðar og ekki heyrðust þær kvarta. Ég sé þær fyrir mér með léreftssvunturnar að hengja upp tandurhreinan þvottinn sinn eða kalla á krakkana í mat eða kaffi eða spjalla hver við aðra við garðhliðin.

Því miður á ég engar myndir frá þessum tíma. Fólk átti einfaldlega ekki myndavélar eða gaf sér tíma til þess að vera að taka myndir því nóg var annað að gera.

Hinsvegar tók Sigurrós myndir í gær (smella hér.)

Þessa mynd má ég til með að birta.

Vinkonurnar Edda Garðars og Didda, Daddi (Hafþór), Dæja, og Hannes bróðir Eddu 03__18_askirkja__endurfundir_010.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

11 Responses to Endurfundir æskuvina í Áskirkju.

  1. Sigurrós says:

    Mér fannst mjög gaman að fá að koma þetta með þér og sjá ykkur „krakkana“ hittast á ný 🙂

  2. Svanfríður says:

    Skemmtilegt
    Margt hefur breyst frá þeim tíma sem þú elst upp og svo þegar ég elst upp. Það er varla hægt að bera þetta saman svo ólíkt var þetta. Hugsaðu þér bara…þetta voru svo sannarlega valkyrjur þessar konur og er ég sko stolt af því að vera komin af slíkum konum. Þegar þú talaðir um að hengja þvottin út á snúrur þá fór ég að hugsa að í mörgum hverfum hér í nánd við mig, þá hreinlega má ekki hengja út á snúrur. Ég bý í hverfi þar sem þetta má en þrátt fyrir það er ég sú eina sem geri það. Ég get sko vel trúað því að þetta hafi verið skemmtileg samkoma hjá ykkur því það er alltaf svo gaman að koma saman og rifja upp liðnar stundir. Takk fyrir góðan pistil, Svanfríður

  3. afi says:

    Man þá tíð…..
    Nú er öldin önnur. Þú ert snillingur að minna okkur á liðna tíð. Þetta verður allt svo ljós lifandi. Nánast eins og að horfa á gamlar ljósmyndir. – Hafðu þakkir fyrir.

  4. Linda says:

    Ég sá ljóslifandi fyrir mér athafnir kvenmanna liðinna tíma, svo vel skrifaðirðu pistilinn..
    Það er ótrúlegt hvað tímarnir hafa breyst á ekki lengri tíma en þetta og svo sjálfsagt að eiga öll nútíma þægindi..
    Það er alger unaður að lesa skrif þín Ragna, þú kemur þeim svo vel frá þér..

  5. Svanfríður says:

    Heyrðu Ragna, ein spurning? Þessi Hannes sem er þarna á myndinni, er hann kokkur?

  6. Þórunn says:

    Liðnar stundir
    Mikið er þetta skemmtilegur siður að hittast svona. Hann Óskar kaupmaður í Sunnubúðinni var kaupmaðurinn á horninu hjá mér þegar ég byrjaði að búa í Mávahlíðinni. Sá heldur sér vel. Frásögnin af húsmæðrunum í gamla daga, er nákvæmlega eins og af mömmu minni. Þær voru sannar valkyrjur þessar konur. En þetta er ekki ólíkt því að þú værir að segja frá lífi kvennanna hérna í kring um mig, það er margt ótrúlega langt á eftir. Enda ekki hátt kaupið hjá almenningi hérna.

  7. Ragna says:

    Já Svanfríður mín, Hannes er bróðir bestu vinkonu minnar og – hann er kokkur.
    Þekkir þú Hannes?

  8. Ragna says:

    Við þessi ungu.
    Já, við þessi sem erum búin að vera ung svo rosalega lengi, munum greinilega öll eftir þessum tíma sem ég er að rifja upp. Svona var bara lífið í þá daga.
    Merkilegt Þórunn mín að það skuli ennþá vera svona lífið í litla bænum þínum í Portúgal.

  9. Svanfríður says:

    Tilviljun
    Þetta er nú lítill heimur sem við lifum í Ragna! Ég vann með Hannesi hér um árið-í veisluþjónustunni Veislunni úti á Seltjarnarnesi. Mér leist best á hann af öllum kokkunum-engin falsheit í gangi og þú mátt alveg segja honum það næst þegar þú sérð það. Ég var því miður ekki upp á mitt besta þegar ég vann með honum-var frekar upptekin við að vera ung og með hugann við djammið!:) En þetta er góður maður.

  10. Kolla says:

    Minningar
    Gaman að sjá myndir af ykkur stöllunum. Hin andlitin hefði ég kannske kanast við í eina tíð, en ekki núna. Ég bjó nú í nágrenni við ykkur frá 12 ára aldri (hm..hm), en þið voruð svoddan börn þá, að ég hefði ykkur litið á ykkur. Og það var engin Austurbrún komin þegar ég fyrst flutti í Klepps-holtið né Áskirkja. Ég varð að ganga í Laugarnesskóla. Genguð þið í Langholtsskóla? En æskuminningar eru í sama dúr. Mkið líður tíminn fljótt.
    Kveðja

  11. Ragna says:

    Gott fólk.
    Það er ekkert skrítið Svanfríður mín þó þér hafi litist vel á hann Hannes. Þetta er svo yndislegt fólk.
    Kolla mín ég ætla líka að svara þér. Það var heldur engin Austurbrún þegar ég var að alast upp. Holtið þar var aðal berjalandið okkar og leiksvæði. En hinsvegar fylgdist maður af áhuga með uppbyggingunni. Ég var í fyrsta árganginum sem fór inn í Langholtsskólann.

Skildu eftir svar