Annasamur dagur

Í dag var byrjað að grafa upp planið hjá okkur systrum báðum og síðan á að setja hellur fyrir bílana og gangstéttina. Það er nágranni okkar hún Eva sem er skrúðgarðyrkjufræðingur sem ætlar að taka þetta að sér en hún er með sérgrein hellulagnir og hleðslur. Hún vinnur þetta ásamt pabba sínum og eiginmaðurinn sem er sjómaður, en er í landi núna, vinnur þetta með þeim.  Þau eru búin að ganga frá þessu hjá sér og okkur líst vel á það og drifum því í að fá þau til að gera þetta á línuna enda allir orðnir þreyttir á að láta mölina gangast inn á gólf hjá sér.  Við notuðum hinsvegar mölina sem var mokuð upp úr planinu að hluta til til þess að setja meðfram pallinum hjá okkur. Við drifum okkur í að ná í jarðvegsdúk og erum búin að ganga frá þessu. Það tafðist hinsvegar nkokkuð að klára að moka upp úr planinu hjá okkur því það bilaði grafan og þurfti að fara með hana til Reykjavíkur en vonandi kemur önnur á morgun. það er slæmt þegar það þarf að hætta við svona verk því við erum með bílana á hrakhólum á meðan þetta ástand varir.


Annars byrjaði dagurinn hjá mér á því að ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja Karlottu í skólann fyrsta skóladaginn hennar. Guðbjörg var sjálf að byrja að kenna 6 ára bekk og varð auðvitað að vera í sínum skóla að taka á móti þeim svo það var gott að amma var á lausu. Ég hitti þær uppi í skóla hjá Guðbjörgu og svo röltum við Karlotta niður í Sandvík þar sem hún verður í vetur. Það var svo gaman að sjá öll þessi litlu sem eru að byrja í fyrsta sinn í skóla. Þau eru eitthvað svo smá en öll með svo stórar og miklar skólatöskur að það sá varla í þau nema hendur og fætur og efsta hluta höfuðsins. Karlotta gekk nærri tvöföld eins og hún bæri þungan heybagga á bakinu. Ég spurði hana hvort taskan væri svona þung. „Já amma ég er bara alveg að leka niður í götu“.  Þau voru nefnilega fyrsta daginn með allt mögulegt sem síðan á að geymast í skólanum. Ég var að segja við Karlottu hvað það væri sniðugt að mamma hennar, Sigurrós og hún sjálf væru allar að byrja í sex ára bekk í dag. Jú henni fannst það sniðugt. Mér fannst bara verst að ég gleymdi að hafa með mér myndavél.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Annasamur dagur

  1. Sigurrós says:

    Skólataskan
    Mér varð hugsað til Karlottu minnar þegar ég las þessa teiknimyndasögu

Skildu eftir svar