Vetur konungur.

Ég var nú farin að halda að Vetur Konungur væri búinn að koma í sína síðustu heimsókn því eftir að Þorri kvaddi og Góa kom þá hefur hann haft hægt um sig. Það var orðið svo vorlegt og tré, runnar og annar gróður óðum að búa sig undir það að sýna sitt fegursta skart. Krakkarnir farnir að leika sér í úti boltaleikjum og sífellt fleiri á ferðinni á hjólunum sínum.

Ég var búin að hlakka mikið til fara í saumaklúbb á mánudagskvöldið og hélt að það yrði nú ekki mikið mál í vorblíðunni. Vetur Konungur birtist hinsvegar óvænt, hann var reyndar lúmskur og fór mjög leynilega, lét svona smá snjódrífu sáldrast yfir okkur hérna á Selfossi, ekkert mikið bara svona aðeins til að minna á veldi sitt. Sjálfur lagðist hann hinsvegar í leyni uppi á Hellisheiði, sínum uppáhaldsstað, þar sem hann úðaði yfir veginn og sáldraði síðan snjónum yfir svo mikil hálka myndaðist. Einhverjir bílar fóru útaf og aðrir lentu í árekstrum. Oft hef ég skammast mín fyrir gunguskapinn, að þora ekki af stað þegar ég sé ekki í Hellisheiðina sem annars blasir við úr eldhúsglugganum mínum. En mér leist sem sé ekki nógu vel á að fara þetta kvöld og sleppti því saumaklúbbnum með öllu því góðgæti sem hann hafði upp á að bjóða fyrir utan nú góða félagsskapinn sem ég hafði hlakkað svo til að njóta.  En stundum er ver farið en heima setið og þegar ég heyrði daginn eftir af hremmingum fólks sem var á ferð á þeim tíma sem ég hefði sjálf verið á ferðinni ef ég hefði ekki verið slík gunga, þá var ég sátt við það að vera bara gunga.

Að gamni ætla ég að sýna ykkur veðrið í dag. Þessa mynd tók ég eftir hádegið af krökkunum að leika sér hérna á pallinum.  Kuldinn sést á því að stubburinn sem helst aldrei vill fara í úlpu, bað ömmu að setja hettuna yfir húfuna og það er merki um að það sé KALT.

enn_vetur.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Vetur konungur.

  1. afi says:

    Styttast?
    Það er lengi von á einum. En nú fer að styttast í vorið.

  2. Sigurrós says:

    Ég passa mig yfirleitt á því að búast ekki við vori fyrr en eftir páska. Páskarnir eru jú í seinna fallinu núna í ár en samt sem áður, betra að miða við þá og vera við öllu búinn 😉

  3. svanfríður says:

    Takk fyrir að sýna vetrarmynd. Hér er sama sagan með veðrið, í gær var yndislegt veður og við vorum úti í 2 tíma en í dag er skítakuldi og varla farið út fyrir hússins dyr nema bara út í bíl. En vorið kemur brátt og þá verður svo gaman.

  4. Linda says:

    Það er sko engin gunguháttur að vera heima þegar hellisheiðin er ófær eða illfær.. Ég kalla það skynsemi..
    Ég get vel sagt þér Ragna að það er bara alls ekkert skemmtilegt að vera kölluð út – út af slysi sem hefði ekki þurft að gerast..
    Ég vildi að það væru allir eins skynsamir og þú.

  5. afi says:

    Dyntir
    Vetur konungur hefur verið nokkuð dynóttur þetta árið. Erfitt að henta reiður á honum. En undanfarið hefur hann slegið slöku við og ætlar greinilega að bæta úr því með eftirminnilegum hætti. Það er því gott að einhver sýni aðgæslu og skynsemi, þegar konungurinn slettir úr klaufunum. Fallega myndskreytt spjall hjá þér. Nú er bara að leggjast á bæn og koma kónginum út í ystu myrkur.

  6. Þórunn says:

    Ófærð
    Ég held að ég hafi sagt það áður við þig Ragna að ef allir væru jafnskynsamir og þú, þá fækkaði slysunum. Það er skynsamlegt að vera mátulega hræddur. Góða helgi og hafðu það gott.

Skildu eftir svar