Sagan af því þegar litli bumbubúinn leit dagsins ljós.

Já, taugar ömmunnar í Sóltúninu sem beið eftir nýja barnabarninu sínu voru þandar til hins ýtrasta alla helgina og sama held ég sé að segja um ömmuna og afann norðan heiða.

Fimmtudagurinn benti ótvírætt til þess að nú færi eitthvað að gerast. Og allt hófst þetta svo rétt fyrir klukkan tvö aðfararnótt föstudags þegar legvatnið fór og Magnús Már gerði ömmunni á bakvaktinni viðvart að nú væri að draga til tíðinda og hugsanlega þyrfti að koma um nóttina og vera hjá krökkunum. Ekki var nú litli snáðinn alveg tilbúinn að fylgja þessu eftir og á föstudagsmorgunn var ekkert búið að hringja aftur. Þá áttu þau að mæta uppá spítala en voru send heim aftur og nú upphófst ferli sem fólst í því að fara heim og koma aftur upp á spítala með reglulegu millibili. Það var svo ekki fyrr en á laugardagsmorgun sem átti að ýta eitthvað meira við litla snáðanum svo hann héldi áfram för sinni út í heiminn . Þau áttu að hafa samband klukkan átta um morguninn en var sagt að koma ekki fyrr en klukkan 10 því það væri fæðing í gangi og fæðingarstofan upptekin og sömuleiðis eina ljósmóðirin sem var á vakt. Rétt fyrir hádegi birtust þau svo í Sóltúninu, því klukkan 10 þegar þau fóru uppeftir þá var enn ekki aðstaða til að taka á móti þeim. Nú var tíminn settur á hálf tvö.

Þegar þau fóru upp á spítala um hálf tvö á laugardaginn ákvað Haukur að fara með stressuðu ömmuna í smá bíltúr, annars var hann á leið í bæinn til að byrja vinnusyrpu næstu nótt. Við skoðuðum okkur um í Hveragerði og fengum okkur svo kaffii og rjómaköku í fína bakaríinu þar. Veðrið var fallegt en mjög kalt. Þessi mynd er (held ég örugglega) af gamla menntaskólaselinu í Hveragerði.

selid.jpg

Magnús Már var svo duglegur að senda mér upplýsingar um gang mála og alltaf hrökk sú gamla við þegar kom nýtt SMS en flest voru þau á þá leið að enn væri frestun á aðgerðum sökum mannfæðar og vegna þess að fæðingarstofan væri upptekin. Loksins var þó hafist handa og Guðbjörg fékk stíl sem átti að koma meiri hríðum af stað og síðan átti að gefa annan klukkan átta um kvöldið ef þyrfti.
Klukkan átta um kvöldið var hinsvegar ákveðið að hætta þessum aðgerðum og hægja aftur á, svo barnið kæmi ekki um nóttina. Næsta morgun yrði svo gefið dripp. það var svo staðið við það að gefa þetta dripp um morguninn en nokkrum mínútum eftir að það var komið í gang var það tekið af aftur því ljósmóðirin þurfti að sinna annarri fæðingu (ein á vakt). Á þessum tímapunkti töluðu þau nú um sín á milli að svona gæti þetta ekki gengið lengur, en ljósmóðirin, nafna Guðbjargar sagðist ætlaði að kalla út aukavakt sem síðan kom um tíuleytið svo loksins var hægt að halda áfram án frekari tafa og litli snáðinn fæddist um hálf tvö á sunnudeginum 26.03.2006 – sem sagt nákvæmlega 2 1/2 sólarhring eftir að hafa fyrst boðað komu sína. Guðbjörg var mjög ánægð með þessa nöfnu sína og sagði að hún hefði algjörlega bjargað þeim.

Eftir á var Guðbjörgu sagt að drengurinn hafi ekki snúið alveg rétt og á einhverjum tímapunkti hefði verið íhugað að gera keisaraskurð því þá hafði hægt svo á hjartslætti barnsins en svo komst það í lag með hjálp Guðbjargar ljósmóður sem náði að láta barnið snúa sér.

Svona var nú þetta ferli. Ég segi nú bara, finnst ykkur nokkuð skrítið að gamla konan hafi verið stressuð.

Á sunnudagsmorgun hófst sú gamla handa og bakaði hverja kökuna af annarri bara til þess að róa taugarnar.

Bjarki hans Magnúsar Más kom hérna til mín á laugardaginn og gisti hjá mér. Það var pabbahelgi hjá Magnúsi Má sem eðlilega hafði ekki tækifæri til þess að vera með syninum þessa helgi svo hann gisti bara hjá stjúpömmu sinni.

Ömmubörnin mín voru líka hjá pabba sínum og þegar þau komu hérna um miðjan dag fórum við Karlotta, Oddur Vilberg og Bjarki upp á spítala til þess að skoða litla bróður. Þau voru auðvitað hugfangin eins og við öll.

Síðan brunuðu Sigurrós og Jói austur að skoða barnið og komu svo í Sóltúnið. Magnús kom líka og við borðuðum öll hérna saman. Magnús skilaði svo Bjarka heim (hérna á Selfossi), en Karlotta og Oddur Vilberg voru hjá ömmu í nótt því Magnús þurfti að vera kominn til Reykjavíkur klukkan átta í morgun. Það hefur nú verið erfitt fyrir hann eftir miklar vökur og stress um helgina.

Þá hafið þið nú fengið alla sólarsöguna af litla snáðanum sem var ekki alveg ákveðinn í því hvort hann ætlaði að koma í heiminn eða halda áfram að kúra í notalegheitunum í bumbunni á mömmu. Mér fannst hann hinsvegar ekkert sjá eftir að hafa loksins litið dagsins ljós og gaf sér góðan tíma til að skoða það sem í kringum hann var.

Á Selfossi er í raun góð aðstaða til þess að fæða, falleg fæðingarstofa og góðar ljósmæður, sem allar nota nálastungur til þess að deyfa sársauka með. Það er hinsvegar ekki hægt að tala um góða aðstöðu ef fleiri en ein er að fæða í einu því þá geta hlutirnir gengið fyrir sig eins og í Guðbjargar tilfelli og um helgar er bara ein ljósmóðir á vakt. Ég veit ekki alveg hvað fæðingarnar voru margar. Guðbjörg heldur að þær hafi verið 6 eða 7 á þessum sólarhringum.

Vitanlega hafði maður áhyggjur af barninu í þessu langa ferli og mér finnst ótækt að láta konu vera í svona langan tíma að eignast barn. Jafnvel þó ekki eigi að vera bein hætta á ferðum fyrir konuna eða barnið, en hvenær getur maður verið viss um að það sé ekki og á ákveðnum tímapunkti var reyndar spurning hvort ekki væri hætta á ferðum. Sem betur fer fór þó allt vel.

Þakka ykkur öllum kæru bloggvinir og aðrir fyrir góðar kveðjur og samhug á meðan á þessu stóð. Mér leið alltaf betur þegar ég las kveðjurnar frá ykkur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Sagan af því þegar litli bumbubúinn leit dagsins ljós.

  1. Þórunn says:

    Hamingjuóskir
    Við sendum innilegar kveðjur og hamingjuóskir úr vorinu í Portúgal, þetta er alltaf stórkostlegt undur þegar barn fæðist, nýr einstaklingur kemur fullskapaður úr móðurkviði. Þetta er aldeilis fróðleg lesning, og raunverulega ótrúleg miðað við tæknina í dag. Ég er ekki hissa þó þið hafið öll verið stressuð og kvíðin. Þetta er að mínu mati, allt of langur tími sem líður frá því að fyrstu boð um að fæðingin sé að fara í gang, þar til öllu er lokið. Og að það skuli þurfa að stöðva dripp til að draga fæðingu á langinn finnst mér alveg ótækt. Þetta er orðin of löng ræða hjá mér, en ég get ekki orða bundist. En þær hafa staðið sig vel báðar Guðbjargirnar, enda nafnið gott.

  2. Linda says:

    Innilega til hamingju aftur með glænýja ömmustrákinn.. Það er alltaf kraftaverk þegar nýjir einstaklingar fæðast og alls ekki sjálfgefið..

    Manni finnst svo ótrúlegt að heyra þegar konur eru komnar af stað, að þær eru látnar bíða og út af manneklu.. þetta á bara alls ekki að gerast á sjúkrahúsum..
    En gott er að allt gekk vel, þrátt fyrir að biðin hafi verið löng..

    Bestu kveðjur yfir hafið Ragna mín..

  3. afi says:

    Slökun
    Hvar er betra að slaka á en í Hveragerði? Gott mál hjá Hauki.

  4. Edda says:

    Rólegur strákur
    Didda mín, tetta hefur nú verid meiri tolraunin, en, drengurinn var bara ad bida eftir flottasta faedingardeginum.
    Hann er fallegur drengur. mikid knus og kossar hedan fra Kanari.
    tin edda

  5. Svanfríður says:

    Aftur innilegar hamingjuóskir.
    Já þetta er ótrúlegt að kona skuli vera látin bíða vegna manneklu. „Velferðarþjóðfélagið“ ætti að skammast sín að láta þetta viðgangast. Fæðing hjá dýrum er ekki einu sinni stoppuð! Ég verð alltaf reið þegar ég heyri svona verð ég að segja. En gott að allt fór vel. Góðar kveðjur til ömmunnar yfir hafið, Svanfríður

  6. Kolla says:

    Hamingjuóska-rigning
    Elsku Didda mín,
    Það litur út fyrir að ég búi í „outer space“ því ég hafði ekki hugmynd um að viðbótar ömmubarn væri á leiðinni!
    Hundrað hamingjuóskir og vona að mæðginum báðum heilsist vel.
    Reyndi að senda kveðju í gærkveldi þegar ég sá öll skrifin, en þegar ég var búin sáust þær hvergi. Outer space again! Kannske var ekki meira pláss. En gaman að lesa um viðburðinn og sjá myndirnar af litla herranum og fjölskyldunni. – Og síðan gamla skólaselið mitt í þokkabót. Það stendur þá enn?

    Kveðjur og fenn meiri hamingjuóskir
    Kolla

  7. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir.
    Ég þakka ykkur kærlega fyrir allar kveðjurnar og hamingjuóskirnar. Mikið er alltaf yndislegt þegar nýtt líf kemur í heiminn. Ég kíki auðvitað á nýja herramanninn daglega og nú klæjar mig í puttana að fá að taka hann í fangið þegar hann kemur heim til sín. Ég hef ekki viljað vera að taka hann upp svona alveg nýfæddan, finnst þau eiga að vera í friði með mömmu og pabba fyrstu dagana.
    Kær kveðja til ykkar allra.

Skildu eftir svar