Allt í eðlilegt horf.

Þá er nú lífið í Sóltúninu að taka á sig eðlilega mynd aftur. Nú er mamman komin heim með litla snáðann, pabbinn kominn í fæðingarorlof og börnin farin úr vistinni hjá ömmu í Sóltúninu og heim í Grundartjörnina.

Áður en lengra er haldið þá sögðu nýbökuðu foreldrarnir að ég mætti ekki dæma fæðingardeildina hérna of hart eins og þeim fannst ég gera í blogginu mínu. Það hefðu í raun engin mistök verið gerð. Þó ég hefði sagt rétt frá, þá yrði nefnilega að taka það til greina að þetta ástand sem var á fæðingardeildinni hérna um helgina var mjög óvenjulegt, en þessa einu helgi fæddust víst 8 börn sem nálgast met á einni helgi. Svo það er kannski best, af því allt fór nú vel, að taka tillit til þess og vera ekki með leiðindi. Þau sögðu að í stöðunni hefði bara ekki verið hægt að hafa þetta öðruvísi. Allir hefðu reynt að gera sitt besta og þó að þetta hafi vitaskuld tekið langan tíma þá hefðu þau ekki getað hugsað sér betri ljósmóður en þá, sem tók á móti litla snáða.

Þá hef ég nú komið þeirra sjónarmiði á framfæri.

Það var mikið gott að komast í vatnsleikfimina og heita pottinn í dag. Ég fór ekkert í síðustu viku því ég var með einhverja fjárans hálsbólgu og höfuðverk en nú verð ég að taka mig á og verða dugleg að mæta aftur.

Ég skrapp til Selmu systurdóttur minnar í kaffi í dag, en hún hýsir bumbubúann sem næstur fæðist í fjölskyldunni. Já það er gaman hjá okkur systrum að eignast báðar ömmubörn sama vorið.

Svo kíkti amma auðvitað aðeins í Grundartjörnina og er nú búin að máta litla snáðann í fangið á sér þar sem hann smellpassaði eins og systkini hans gera.

Sjáið þið nú bara hvað amma er montin. Já, það er gaman á Selfossi í dag það má nú segja.

dscf1632.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Allt í eðlilegt horf.

  1. afi says:

    Einber dásemd
    Ó, er þetta ekki yndislegt. Enn og aftur til hamingju. afi verður að bíða þangað til í júlí.

  2. Þórunn says:

    Dásamlegt
    Enn og aftur til hamingju Ragna mín, hvað er dásamlegara en að fá þetta undur lífsins í fangið? Njóttu vel, ég sé hvað þú ert stolt og sæl.

  3. Linda says:

    Hvað er betra en að fá að kúra í hálsakotinu á ömmu..
    Þið takið ykkur vel út..

  4. Sigurrós says:

    Tek undir það, þetta er falleg sýn 🙂 Ég hlakka til að koma austur og máta líka 🙂
    En hvað segirðu, afi, er að fjölga barnabörnum hjá þér í júlí? Mamma getur sagt þér hvað júlíbörn eru yndisleg 😉 hehe

  5. Ragna says:

    Orð að sönnu
    Já Sigurrós mín! Sérstaklega eru þau yndisleg sem fædd eru 19. júlí. En þetta er nú hægt að sannfærast betur um með því t.d. að skoða „Ég um mig“ og gestabókina á heimasíðunni þinni.

  6. Svanfríður says:

    Þú ljómar eins og fallegasta sól í heiði þarna á myndinni elsku Ragna. Til hamingju aftur með gullmolann.

  7. afi says:

    Já Sigurrós, einn prinsinn enn. afi þekkir nokkuð til júlí barna. Elli, pabbi nýdönsku ljúflinganna er júlí strákur (18.)

  8. Gurrý says:

    Það er gaman að kíkja á bloggið þitt í dag, var að lesa um fæðinguna og hvernig þetta dróst á langinn. Greinilega áhyggjuefni fyriri alla og ekki síst móðurina. Eins og þú sagðir líka þá efast ég ekki um að starfsfólkið allt hafi gengið að öllu undir sínum reglum og varfærni. Þú tekur þig ljómandi út í ömmuhlutverkinu, gaman að þessu..

Skildu eftir svar