Löt að skrifa undanfarið.

Nú verð ég að bæta fyrir hvað ég hef verið löt að fara inn á síðuna mína síðustu daga. Fyrir það fyrsta fer ég alltaf minna í tölvuna þegar Haukur er heima í fríum. Nú er hann farinn að vinna sína fimm daga og er heima í fimm. Þegar hann er heima þá erum við oftar eitthvað að bralla og ég læt tölvuna frekar bíða. Haukur fór í bæinn í dag og byrjar á næturvakt í nótt.


Við skruppum á Laugarvatn í gær skoðuðum staðinn vel og fengum okkur kaffisopa. Það var sól og gott veður og fullt af krökkum að busla í volgu vatninu. Mig minnir að ég hafi séð í blaði um daginn að það ætti að fara að byggja upp betri aðstöðu þarna við vatnið og nýtt gufubað. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Allavega er afskaplega skjóðsælt þarna og yndislegt að busla í vatninu á góðviðrisdögum. Ég ætla að reyna að muna það næsta sumar að fara með Karlottu og Odd Vilberg þarna til að busla. Á leiðinni heim stoppuðum við í Grímsnesinu og týndum smá af bláberjum. Ég var búin að setja bakbeltið mitt og strigaskó í poka áður en við fórum að heiman, ef við skyldum finna ber, en þegar við vorum komin í berjamóinn kom í ljós að pokinn hafði orðið eftir heima. Ég tiplaði því aðeins um þúfurnar á sandölunum og átti þar að auki erfitt með að beygja mig eftir berjunum svo við höfðum nú stuttan stans við berjaþúfurnar í þetta sinn.


Ég þurfti að skreppa í bæinn í morgun til að fara eina ferðina enn til augnlæknis. Þetta vesen með augun í mér ætlar aldrei að taka enda. Nú er ég með slímhimnubólgu í báðum augum og exem á öðru augnlokinu. Ég veit ekki hvað ég er oft búin að fara til augnlæknis í sumar. Vonandi lagast þetta nú við dropana og kremið sem ég fékk í dag. 


Mikið finnst mér stressandi að koma í umferðina í Reykjavík. Það bregst varla að maður komi að þar sem árekstur hefur orðið. í dag hafði orðið einn slíkur á horni Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og bíll alveg í klessu skorðaður að hluta til ofaní skurði sem þarna er vegna framkvæmda og að hluta til utan um einhvern staur sem þarna var. Sem betur fer ætlaði ég mér rúman tíma til að komast vestur á Öldugötu til læknisins, því þarna varð nokkur töf vegna árekstursins. Ég dreif mig svo beint austur aftur til þess að ná í vatnsleikfimina klukkan korter yfir fjögur. Mikið rosalega finnst mér gott að fara í þessa vatnsleikfimi.


Jæja þetta er nú orðin nokkuð löng færsla hjá mér um allt og ekki neitt svo ég læt hér staðar numið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar