Ýmsar minningar frá sumardeginum fyrsta.

Sumardagurinn fyrsti á sérstakan sess í mínum endurminningum, ekki síst fyrir það að hann pabbi minn var fæddur þann dag og þó að 23. apríl bæri vitaskuld ekki alltaf upp á sumardaginn fyrsta þá er hann alltaf í sömu viku og frá því að pabbi fæddist var alltaf haldið upp á afmælið hans þennan fyrsta sumardag hvers árs og hann hélt því alla tíð á meðan hann lifði.

Mér er svo minnisstætt þegar hún föðuramma mín var að koma í afmælið hans pabba. Fyrir það fyrsta þá kom hún alltaf með strætó, vildi helst ekkert hafa með aðra bíla að gera. Svo kom hún yfirleitt með hann kisa sinn með sér og hafði hann alltaf í sömu brúnu leðurtöskunni. Það var alltaf jafn spennandi að hlaupa á móti henni þegar hún sást koma upp Ásveginn og fá að kíkja í töskuna. Hitt man ég líka í sambandi við þennan dag, að hann pabbi átti svo erfitt með að taka á móti gjöfum, var oft hálf reiður þegar það var verið að gefa honum afmælisgjafir. Ótrúlegt, eins og hann hafði sjálfur mikið yndi af því að gefa öðrum gjafir og koma á óvart. Það var erfitt að skilja þetta og það stangaðist svo á við hans persónuleika. Systir hans pabba var vön aða heilsa með þessum orðum þegar hún kom í afmælið "Sæll Nonni minn og til hamingju með daginn – Ég kem nú bara ég sjálf" og pabbi var mjög ánægður með það.

Nú er ég enn einu sinni farin að skrifa um það sem ég ætlaði ekkert að skrifa um, en nú ætla ég að koma mér að efninu. Mér er svo minnisstætt hvað það var alltaf hræðilega kalt þennan fyrsta dag í sumri og minningin um það kemur yfirleitt fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til baka.

Þegar ég var í barnaskóla var venjan sú að fara alltaf snemma morguns sumardaginn fyrsta og taka Rauðakross merki til þess að selja. Maður fékk fullt af merkjum og box merkt rauðum krossi til þess að setja peningana ofaní. Það var fest band í þetta box til þess að halda á því með. Síðan gekk maður hús úr húsi og bauð þessi merki til sölu. Ef maður fór of snemma kom fólk úrillt til dyra og skammaðist yfir því að það væri verið að vekja það. Eða að maður kom of seint því þá var komið merki í gluggann á útihurðinni sem sýndi að hér væri búið að selja. Það þurfti því að finna þennan gullna meðalveg til þess að geta selt öll merkin. Það var erfitt að hafa vettlinga við þetta því ekki máttu peningarnir fjúka út í veður og vind svo það voru bláir og bólgnir fingur sem reyndu að halda utanum peningana svo þeir færu nú beint í boxið. Ég held nefnilega að það hafi alltaf verið frost og kuldi því ég gleymi aldrei hvað manni var kalt. Nú safnar Rauði krossinn hinsvegar peningum með því að fólki hitnar á puttunum við að pikka á spilakassa en það er önnur saga. Áfram með gamla tímann.

Ég átti nokkra fasta viðskiptavini í merkjasölunni, en þegar ég var búin að ramba um allt Kleppsholtið þá endaði ég alltaf á sömu gömlu konunni sem ég gat treyst á þegar ég var orðin svo krókloppin að ég gat ekki meira, en það var hún Beta sem átti heima neðar á Kambsveginum. Það brást nefnilega ekki að þegar ég kom til hennar þá bauð hún mér inn og hitaði handa mér kakó og keypti svo af mér öll merkin sem ég átti eftir og sagði mér endilega að koma aftur til sín á næsta sumardeginum fyrsta því þá myndi hún líka kaupa af mér merki. Í fyrsta skiptið sem þetta gerðist þá kom ég til hennar þegar ég átti ein átta merki eftir og bjóst bara við því að hún keypti kannski eitt, en hún vorkenndi krókloppnu stelpugreyinu og keypti allt sem eftir var.

Þegar ég sagði frá þessu heima þá var tekið af mér loforð um að fara ekki til hennar Betu með svona mörg merki því það væri svo dónalegt að fara að nota sér þetta og ætlast til þess að hún keypti allt saman. Helst þyrfti ég að vera búin að selja allt nema eitt, en ef ég gæti það ekki þá kannski þegar tvö eða þrjú væru eftir. Oftast voru nú tvö eða þrjú eftir þegar ég fór í kakóið og spjallið hjá henni Betu en ég vogaði mér ekki að fara með fleiri eftir ráðleggingarnar heima fyrir því ekki vildi ég nú vera dónaleg.

Hátíðarhöldin niðri í miðbæ eftir hádegið eru líka minnisstæð. Það fóru skrúðgöngur úr austur og vesturbæ og fyrir þeim fóru vagnar, Vetur konungur og hans hirð á öðrum en Sumar konungur á hinum. Þegar komið var á Lækjartorg þá mættust þannig vetur og sumar síðan var skemmtidagskrá á Lækjartorgi. Ég man eftir að Edda systir mín var send með litlu systur í þessar bæjarferðir á meðan sú litla mátti ekki fara ein í bæinn. Slíkum hátíðarhöldum man ég eftir í nokkuð mörg ár en síðan var þetta lagt af. Af hverju? Jú það var vegna þess að fólk hætti smám saman að mæta vegna þess hvað það var alltaf hræðilega kalt þennan dag. Það tíðkaðist á þessum tíma að allir voru í sparifötunum sínum eins og alltaf á hátíðisdögum og ekki hefur það nú dregið úr kuldanum að vera í kjól og kápu, sportsokkum og spariskóm. Það var ekki komið í tísku á þeim tíma að vera í góðum skjólfötum og klæða sig eftir veðrinu eins og nú er en það þekktist lítt í þá daga. Spariföt skyldu það vera á rauðu dögunum á dagatalinu. Mikið rosalega er maður nú orðinn gamall þegar maður rifjar upp þennan löngu liðna tíma.

Nú veit ég ekki hvort nokkuð er eftir af hátíðarhöldum í miðbænum nema skátaskrúðgangan og skátamessan. Já, það var nú eitt af því sem maður upplifði svona frá 12 ára aldri eftir að maður var hættur að selja merkin, að ganga í skátakjól í skrúðgöngunni niður Laugaveginn að Fríkirkjunni til þess að vera við skátamessuna þar snemma morguns sumardagsins fyrsta.

Nú situr maður bara í rólegheitunum með kaffibollann sinn og horfir á sólargeislana skína inn um gluggann og dásamar þá staðreynd að nú sé sumarið komið hvað sem hitatölum líður og óðum víki myrkrið endanlega fyrir birtunni og ylnum sem í vændum er.

Gleðilegt sumar

og takk fyrir veturinn!

golden_plover_3.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Ýmsar minningar frá sumardeginum fyrsta.

  1. Svanfríður says:

    Gleðilegt sumar
    Þetta voru skemmtilegar minningar. Þegar ég var stelpa þá beið mín alltaf einhver sumargjöf á þvottavélinni fram við útidyr. Ég fór snemma á fætur til þess að líta gjöfina augum og aldrei brást það að eitthvað skemmtilegt biði manns. Ég man sosum ekki eftir sérstökum hátíðarhöldum heima á Höfn en áreiðanlega hafa þau verið. En ég veit til manns heima sem hefur skráð hitatölur til dagsins í dag frá árinu 1933 og hann kann þær utan að. Gleðilegt sumar og takk fyrir skemmtilegan bloggvetur.

  2. Sigurrós says:

    Ég man hvað sumardagurinn fyrsti var alltaf notalegur 🙂 Amma með pönnukökur eða eitthvað annað gott og yfirleitt fékk ég nýja strigaskó. Ég man sérstaklega eftir einum strigaskónum, þeir voru frekar háir upp á ökklann, bláleitir og með My Little Pony.

  3. Linda says:

    Gleðilegt sumar
    Þetta var skemmtileg frásögn Ragna..
    Ekki man ég nú eftir neinum skemmtunum í minni æsku en alltaf fengum við systur sumargjöf.. það voru alltaf alveg eins sumarföt sem við systur klæddumst þennan dag, sem og aðra góða sumardaga..

  4. Þórunn says:

    Gleðilegt sumar
    og takk fyrir góðan bloggvetur. Þetta er góð frásögn hjá þér eins og venjulega en ég man ekki eftir neinum hátíðarhöldum á Vopnafirði þegar ég var að alast þar upp. En ég man eftir að hafa farið með börnin mín í skrúðgöngur í Reykjavík, ég held að það sé satt að það hafi alltaf verið kalt og stundum jafnvel snjór á jörðu.

  5. afi says:

    Gleðilegt sumar
    Ýmsar minningar eru tengdar þessum degi. Eins og skáta skrúðgöngur í leiðinda veðri.

Skildu eftir svar