Mikið að gera – allt svo ljúft.

Það var yndislegt sólarlagið síðasta vetrardag.

sidastivetr.jpg

Ég fór í borgarferð á sumardaginn fyrsta. Af því að ég var nú búin að tala svo mikið um hvað það væri alltaf kalt þennan dag þá var auðvitað blíðskaparveður. Ég hitti Hauk á Austurbrúninni, en tilefni ferðarinnar var að fara til Borghildar dóttur Hauks, og vera í 5 ára afmælisboði hjá Leonóru afastelpu.

Við höfðum svo rúman tíma og veðrið var svo fallegt að við ákváðum að fara fyrst í góðan bíltúr niður í bæ. Það var mikið af fólki að ganga, hjóla og skokka eftir göngustígnum við Skúlagötuna og ekki amalegt að horfa yfir hafið bláa og sjá Esjuna, Akrafjallið og Skarðsheiðina blasa við sparibúin í hvítum kuflum.
Leiðin lá vestur í bæ og út á Granda. Hjá Ellingsen var sýning á hjólhýsum. Við settumst inn í flottustu hjólhýsin og létum okkur dreyma, þóttumst vera hvílíkir betri borgarar komin í sumarleyfi á einhvern fallegan stað. Það er nú ekki mikill vandi að láta sig dreyma þegar inn í svona flottheit er komið. Þetta er bókstaflega með öllu sem hægt er að hugsa sér, eldhúsi með öllum græjum, ísskáp og örbylgjuofni svo eitthvað sé nefnt, baðherbergi með sturtu og WC, hjónaherbergi og gestaherbergi og bara nefndu það það er allt þarna til staðar. Ég veit ekki nema við hefðum bara læst og verið þarna daglangt, eða fram á næsta dag ef við hefðum ekki átt í vændum afmæliskaffi.

Þegar við höfðum slitið okkur frá þessu flotta hjólhýsi þá kláruðum við hringinn um Grandagarð og skoðuðum síðan Seltjarnarnesið. Út við Gróttu var margt um manninn og það er gaman að sjá hvað það er búið að gera skemmtilega gönguleið, sem virtist mikið notuð, allsstaðar meðfram sjónum. Síðan skoðuðum við Skerjafjörðinn og brunuðum svo í afmælisveisluna þar sem við fengum gott kaffi og fínerí og horfðum á töfrabrörð Péturs Pókuss.

Afmælisbarnið var hálf feimið við þennan galdramann sem dældi uppúr sér jólaskrauti, svo miklu að hann gat vafið því margsinnis utan um þær mæðgur..

toframadurjpg.jpg

Hér er Leonóra í nýju flíspeysunni sinni.

leonora.jpg

Eftir afmælisveisluna lá leiðin í Kópavoginn þar sem ég skildi bílinn minn eftir hjá Sigurrós en hún kom svo á honum austur í gær föstudag og er hérna hjá okkur í helgarferð.

Ekki var nú allt búið enn því okkur var boðið í mat til Jóu (Evu) dóttur Hauks, þeirrar sem er með Nornabúðina. Ég er ekki frá því að maturinn hafi verið eldaður með einhverskonar göldrum því hann var svo ljúffengur. Grillað lambafille með bökuðum kartöflum, salati og sveppum. Allt bráðnaði þetta í munni og eplaréttur með þeyttum rjóma í eftirrétt og Expresso kaffi á eftir.

Ég segi nú bara hvílíkur dagur. Ef allt sumarið á eftir að vera eins og sumardagurinn fyrsti þá verður þetta ekki amalegt sumar. Verst er bara ef það þarf að endurnýja fataskápinn og fá allt í stærra númeri þegar líður á sumarið.

Hér eru myndirnar úr afmælinu, en myndirnar af fallegu postulínsdúkkunum eru teknar hjá henni Evu. Ég má til með að smella mynd af einni hefðarfrúnni.

lady.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Mikið að gera – allt svo ljúft.

  1. Gurrý says:

    Gleðilegt Sumar
    Gleðilegt sumar, það hefur verið gaman að upplifa þennan sérstaka dag í fínu veðri þarna hjá ykkur. Maður fær nú bara heimþrá að lesa um þetta allt. En Ragna, værirðu til í að gera mér smá greiða? Sendu mér póst á gurrybaara@gmail.com ég þarf að biðja þig að hringja fyrir mig eitt símtal í Hveragerði..kveðja, Gurrý

  2. Linda says:

    Þær klikka ekki myndirnar hjá þér frekar en fyrri daginn Ragna mín..

    Takk fyrir rúntinn á sumardaginn fyrsta – ég hafði þörf fyrir rúnt um Reykjavíkina og nágrenni..

  3. Svanfríður says:

    Þetta var skemmtilegur rúntur Ragna í góðum félagsskap. Yndisleg myndin af sólarlaginu og hefur það áreiðanlega verið helmingi fallegra á að líta með „berum“ augum.

  4. Ragna says:

    Það sem þú baðst mig um Gurrý, fæ ég svar við um klukkan hálf fjögur og þá sendi ég þér E-mail.

  5. Sigurrós says:

    Takk fyrir helgina 🙂 Alveg yndislegt að fara í svona helgarpakkaferðir út úr bænum 😉

  6. afi says:

    Skemmtiferð.
    Skemmtilega myndskreytt bæjarferð.

  7. Bogga says:

    Takk fyrir okkur
    Sælar og takk fyrir síðast. Ég afritaði myndirnar, takk takk. Ég og Lóran mín erum ennþá í skýunum yfir gjöfinni. Takk enn og aftur. 🙂

Skildu eftir svar