Tannálfar og heilarar

Oddur ömmustubbur fór með mér í dag að láta ástandsskoða Pólóinn minn. Hann verður nú átta ára á árinu (þ.e. Pólóinn ekki Oddur) svo ég er að hugsa um að skipta honum út fyrir nýrri/nýjan til þess að vera öruggari á ferðum mínum.

Oddur fylgdist með af áhuga þegar bíllinn var skoðaður og var alltaf að spyrja ömmu hvað maðurinn væri nú að gera. Amma reyndi að setja upp spekingssvip og skýra út hvað var í gangi án þess að hafa svo sem neina þekkingu á því hvað maðurinn var að aðhafast en einhverjar skýringar verður maður nú að gefa sex ára áhugasömum ömmustubb. Jú, hann er að stilla ljósin, mæla olíuna og athuga þjöppuna á vélinni – amma var sérstaklega montin að geta brugðið fyrir sig svoleiðis tækniorðum, en hvort þau pössuðu svo hverju sinni – það er annað mál. En bíllinn fékk bara góða einkunn þrátt fyrir aldurinn enda ekki ekinn nema rétt yfir 60 þúsund km. á þessum tæpu átta árum. – Ef þið vitið um kaupanda að honum þá er sjens fram á föstudag að góma gripinn áður en ég læt hann ganga upp í önnnur kaup.

En áfram með ömmustubbinn. Þegar við vorum komin inn til að bíða eftir skýrslunni snerist málið hinsvegar um allt annan hlut – nefnilega tönnina sem nú er laflaus og svo hinar sem eru dottnar. Það eru komnar nokkrar fullorðinstennur en minn hafði áhyggjur af því að hafa aldrei fengið neitt frá tannálfinum. Ömmu fannst það nú eitthvað skrýtið og spurði hvort hann hefði ekki sett tönn undir koddann sinn.

"Jú en amma, það verður að vera fyrsta tönnin sem maður setur undir koddann, ekkert að marka hinar sem detta seinna og þegar fyrsta tönnin datt úr mér þá var ég hjá pabba og það var enginn gluggi opinn á herberginu svo tannálfurinn hefur hvergi komist inn og um morguninn gáði ég svo líka hvort þvottahúsglugginn sem er við hliðina væri opinn, en hann var líka lokaður svo þessvegna hefur hann ekkert komist inn til að taka tönnina og seja pening í staðinn"

Ja hérna Þetta fannst ömmu ljótt að heyra. Svo sagði hann frá ýmsum vinum sínum sem höfðu fengið gjafir frá tannálfinum. Æ nú var amma farin að vorkenna honum. En það var gott að hann hafði svona góða skýringu á þessu því það hefði verið leiðinlegra ef tannálfurinn hefði hreinlega gleymt honum.

oddurv.jpg

———————————————–

Það hringdi í mig góð kona hérna á Selfossi (gift frænda stelpnanna minna) og bauð mér að koma í prufutíma til sín í höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð. Ég fór til hennar seinni partinn í dag og upplifði yndislegan tíma á bekknum hjá henni. Það er ekki spurning að það er eitthvað mikið sem gerist við þessa meðferð eins og hún lætur samt lítið yfir sér- engin átök eða læti. Hún hafði einmitt séð einhverntíman í blogginu mínu að ég væri að hoppa og skoppa glaðvakandi um húsið hjá mér í tvo – þrjá tíma á nóttunni í stað þess að sofa eins og venjulegt viti borið fólk. Hún var því svo elskuleg að hringja og bjóða mér í prufutíma í von um að ég fari að sofa betur eftir meðferðina. Ég er ákveðin í því að taka fleiri tíma og fylgja þessu eftir og spennt að vita hvort ég sef kannski betur í nótt. Þó ætla ég nú ekki að vera of bráðlát því það getur þurft meira til að koma manni á rétt ról – en aldrei að vita.

Nú ætla ég að hreiðra um mig í Lazy-boy stólnum og fylgja meðferðinni eftir og kveð því að sinni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Tannálfar og heilarar

  1. Svanfríður says:

    Það er gott að tannálfurinn skildi Odd ekki útundan-hann hafði góða afsökun vegna lokaðra glugga. En segðu mér, er þetta nýlunda að tannálfur gefi pening? Ég vona svo sannarlega að þú sofir betur eftir meðferðina..gott hjá þér að prófa þetta.

  2. Sigurrós says:

    Nei, ekki er það nú nýlunda að tannálfurinn splæsi á mann einhverjum málmkrónum undir koddann í staðinn fyrir þessar sem hrynja úr kjaftinum 😉 ég fékk alla vega alltaf smá pening frá honum þegar ég var yngri (tíkall eða svo) en það var sko ekki bara fyrir fyrstu tönnina heldur allar barnatennurnar… Þetta hefur greinilega eitthvað breyst með verðbólgunni 😉

  3. Ragna says:

    Rosalega hefur þú verið heppin Sigurrós mín að tannálfurinn hafi hugsað til þín í hvert sinn sem þú misstir tönn. Mig minnir reyndar að hann hafi látið hundraðkall en kannski voru það bara 10.
    Það er bara vonandi að tannálfar nútímans fari ekki að missa sig alveg og gefa á við fermingargjafir.

  4. Þórunn says:

    Margt gerist á netinu
    Til dæmis þegar fólk hringir og býður aðstoð sína, þetta var fallega gert. Ég þekki fólk sem hefur farið í nokkra tíma til konu á Selfossi (gæti verið sú sama) og þau koma himinsæl til baka. Njóttu vel og vonandi færir þetta þér betri nætursvefn.

  5. afi says:

    Það er með tannálfa eins og aðra álfa, þeir eru mis gjafmildir. Stundum þarf ekki einu sinni að vera opinn gluggi. Vonandi uppskerð þú góðan nætursvefn uppúr þessari meðferð. Það væri nú óskandi.

  6. Linda says:

    Ég man eftir tannálfum í minni æsku, minnir að ég hafi fengið einn bláan, 10 krónu bréfpening fyrir mína fyrstu tönn..

    Æ, já, hvað ég vona að þessi meðferð virki fyrir þig, það er bölvanlegt að vera á vappi um miðjar nætur..

    Farðu vel með þig Ragna mín..

  7. Sigurrós says:

    Nei, ég held að það hafi nú ekki verið hundraðkall. 10-kall var svo mikið á þessum tíma, sjáðu til og mig minnir endilega að það hafi verið klinkpeningur en ekki seðill sem ég var vön að finna undir koddanum.

Skildu eftir svar