Saumaklúbbur, dansiball og garðrækt.

Þá er kominn sunnudagur. Garðverkin bíða þess að ég bretti upp ermarnar, fari í gúmmískóna mína, snari mér út og taki til hendinni.

Nú er maður fullur af endorfíni eftir góðan dag í gær. Það byrjaði með saumaklúbbnum um hádegið og síðan komu Guðbjörg, Magnús Már og nafni minn en ég var búin að bjóða þeim í kvöldmat. Þau komu í fyrra lagi svo saumaklúbbsvinkonurnar gátu litið litla prinsinn augum áður en þær fóru í bæinn. Haukur kláraði vinnusyrpu í gær og náði að koma og borða með okkur í gærkvöldi.

Eftir kvöldmatinn drifum við "gömlu" okkur síðan á dansiball útí Bása og dönsuðum þar þangað til ég var orðin svo þreytt að ég gat ekki lengur lyft fótunum og þá var tímabært að koma sér heim og beint í draumalandið. Ég verð nú að játa að þegar búið var að ganga frá eftir kvöldmatinn og ég settist niður til að horfa á umfjöllunina um Evróvision þá ætlaði ég ekki að nenna að fara að gera mig klára til til þess að fara á ball, en við vorum búin að ákveða að fara þetta því við komumst ekki á lokaballið í Glæsibæ á föstudagskvöldið. Því var ekki um annað að ræða en bíta á jaxlinn, bæta aðeins á sminkið svo ekki sæist að ég var ansi lúin og síðan var ekið út í Bása. Í sárabætur að fá ekki bílinn minn fyrir helgina þá fékk ég að aka á Hondunni hans Hauks á ballstaðinn.

Eftir fyrstu syrpuna fór manni svo að vaxa ásmegin og fjör færðist um mann allan og við héldum út í dansinum frá klukkan tíu til klukkan hálf tvö en þá, eins og ég segi, lá við að við kæmumst ekki heim fyrir þreytu. Ég gerði svo góðar teygjuæfingar þegar við komum heim og er nánast engar harðsperrur með í dag.

Nú er best að drífa sig út, Haukur er farinn að bíða eftir mér. Hann skilur ekkert í því að ég skuli vera sest við að pikka á tölvuna þegar ég ætlaði út í garð. En svona er þetta – það mikilvægasta skal gert fyrst.

Ég óska ykkur öllum góðra stunda.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Saumaklúbbur, dansiball og garðrækt.

  1. Svanfríður says:

    Ragna! Ég hef eitt að segja um þig -þú ert yndisleg. Pant koma með á næsta ball:)

  2. afi says:

    Gangi þér vel með garðverkin. afi er gjörsamlega búinn eftir garverk hjá kunninga sl. tvo daga. En afraksturinn eru 10 – 12 kerrur af lengri gerðinni.

  3. Ragna says:

    Ja, afi sæll, garðurinn minn er nú það nýr og ekki stór svo það verða ekki tvær kerrur en við náðum samt að fylla þrjá plastpoka og ekki alveg búin – ja, það er að segja við vorum alveg búin – bara ekki með garðinn.
    Svanfríður mín, hvort þú mátt koma með okkur á næsta dansiball það væri sönn ánægja. Á ég ekki að láta þig vita 🙂 🙂 🙂

  4. afi says:

    Garðurinn
    Alltaf nóg að gera í garðinum? Hvað með nýja bílinn? Afsakaðu forvitnina.

  5. Ragna says:

    Garður og nýi bíllinn.
    Já, það er sko alltaf nóg að gera í garðinum, Haukur fór með mosatætara yfir allt í gær og svo á auðvitað eftir að planta út, en ekki strax.
    Nýi bíllinn, já það er von að þú spyrjir. Ætli ég hafi ekki frekari fréttir í kvöld – eða ég vona það alla vega.

  6. Edda systir says:

    Til hamingju með nýja bílinn , ég er nú fyrst að heyra þessar hrakfarir þínar núna. En nú sé ég fínan ljósan bíl við dyrnar hjá þér það hlýtur að vera sá rétti. Hvernig var þetta með bókaávísunina ? Ég gekk með mína inn í Nóatún á Selfossi og keypti bók orðalaust ?!!

  7. Ragna says:

    Já, ég ætlaði einmitt að fara að setja inn færslu og mynd af nýja bílnum. Þetta með bókaávísanirnar, kannski að kvartanirnar vegna þess að ekki var hægt að nota þær á Selfossi hafi loksins borið árangur þessa síðustu daga.

Skildu eftir svar