Kristínar- ruglingur.

Það var hringt í mig, fyrir svona hálfum mánuði, þar sem ég var að borga vörurnar mínar við kassann í Krónunni, og ég minnt á tímann minn hjá Kristínu. Ég spurði hvort ég mætti ekki hringja þegar ég væri komin heim því ég væri ekki með penna á mér og vildi skrifa þetta hjá mér. Ég mundi nefnilega ekki eftir að eiga tíma hjá Kristínu og vildi athuga það betur þegar ég kæmi heim. Ég fann ekkert hjá mér um þennan tíma og daginn eftir þá hringdi ég til Kristínar tannlæknis því ég vissi að ég átti að vera búin að panta hjá henni tíma. Stúlkan sem svaraði þar gat hinsvegar ekki fundið neitt um þetta en skráði mig niður miðvikudaginn 17. maí klukkan 16:00.

Svo líður tíminn og í gær er hringt í mig aftur þar sem ég var í orðsins fyllstu merkingu úti að aka og ég minnt á tímann hjá Kristínu á morgun. Ég þakkaði bara fyrir og flýtti mér að láta símann frá mér því það á auðvitað ekki að aka og tala í síma. þegar ég kom heim sá ég hinsvegar að tíminn hjá Kristínu var ekki fyrr en á miðvikudag. Ég hringdi nú enn og aftur í tannlækninn en þar stóð bara tíminn minn á miðvikudag og þar kannaðist enginn við að hringt hefði verið til mín. Ég fór nú að athuga í gemsanum úr hvaða númeri var hringt til mín í gær. Viti menn það var þá úr Domus Medica en þar er önnur Kristín sem kallar mig til sín í eftirlit árlega. Nú upphófust hringingar til þess að geta sameinað þessa Kristínarferð og útkoman var sú að ég hitti Kristínu í Domus klukkan 10 í morgun og Kristínu tannlækni klukkan tvö eftir hádegið. Í millitíðinni heimsótti ég svo Birgit vinkonu mína og önnur vinkona Ingunn Ragnars kom svo líka. Hjá Birgit var ég í góðu yfirlæti og mun betur farið með mig en hjá Kristínunum. En sú fyrri, frysti á mjög sársaukafullan hátt tvo brúna bletti af hálsinum og einn á handlegg, sem henni leist ekki á og vildi drepa niður strax. Sú seinni spólaði og spólaði í mér tönn en eins og vejulega kaus ég að láta ekki deyfa mig svo auðvitað gat ég ekkert kvartað.

Hér er hún Birgit vinkona min en engar tók ég nú myndirnar af Kristínunum tveimur.

birgit.jpg

Svo kom ég við í Grundartjörninni og smellti þessari mynd af nafna mínum sem er sjö vikna síðan á sunnudag. Hann horfði undrandi á þessa ömmu sem kemur alltaf með eitthvað í höndunum sem hún fiktar við og síðan kemur blossi beint í andlitið á manni.
Nú bíðum við spennt eftir því hvort augun verða brún eins og í mömmu og Karlottu eða blá eins og í pabba.

ragnar4.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Kristínar- ruglingur.

  1. afi says:

    Málið leyst
    Gott að málið komst á hreint í tíma.

Skildu eftir svar