Dómgreind og ekki dómgreind.

Í tilefni af atburðum og umræðum hérna í Árborg síðustu daga þá hefur orðið dómgreind verið talsvert notað. Það eru margir í sárum vegna dómgreindarleysis frambjóðanda sem sem flutti hér austur og kom eins og hvítur stormsveipur inn í politíkina og blés auknu lífi í flokk sinn, sem var orðinn fastur í viðjum vanans – alltaf sömu menn kjörtímabil eftir kjörtímabil en eftir komu hans blómstraði flokkur hans sem aldrei fyrr. Nú veit enginn hvað gerist. En, sem betur fer komst fleira ungt og efnilegt fólk í efstu sætin og mér sýnist það vera fólk sem stendur alveg fyrir sínu þó breyting verði á efsta sætinu og synd að láta það góða fólk gjalda þess að efsti maður á lista tapaði dómgreindinni, ók drukkinn, ók á ljósastaur, skipti þá um bílstjóra og lét drukkna unnustu sína aka burt af vettvangi. Ljótt mál alltsaman.

Það leiðir hugann að merkingu og notkun á orðinu dómgreind og dómgreindarleysi, sérstaklega þegar það er notað sem afsökun fyrir gerðum manna. Já auðvitað þvælist blessuð dómgreindin stundum fyrir manni og getur verið harður húsbóndi. En húsbónda skal hlýða þegar maður er í þjónustu hans þó mann langi kannski til þess að slæpast eða gera eitthvað allt annað en hann krefst af manni.

Ég var að velta fyrir mér þeirri afsökun að áfengi hefði brenglað dómgreindina í þessu tiltekna máli, eins og viðkomandi heldur fram.

Getur maður, sem fer í afmælisboð og drekkur þar allar þær veigar sem bjóðast, sagt að það sé áfenginu sem hann drakk að kenna að dómgreindin brenglaðist og hann settist undir stýri til þess að aka í 60 kílómetra heim til sín í alls óökuhæfu ástandi.

Ég á auðvitað ekki að gerast dómari og hef engin dómararéttindi. En ég má hafa álit.
Mitt álit er, að þegar maður fer í samkvæmi þar sem vitað er að veitt er vín, þá sé maður fyrirfram búinn að nota dómgreind sína til að gera það upp við sig

a) hvort maður ætli að vera á bíl og drekka ekki, eða

b) hvort maður ætli að drekka og vera því ekki á bíl.

Hvað sem um slíkt má segja þá finnst mér ekki hægt að kenna áfengi um að brengla dómgreind sem ætti að hafa verið notuð áður en áfengið kom til sögunnar.

Kannski skrifa ég þessar línur af því ég hef orðið fyrir vonbrigðum með frambjóðanda sem ég trúði á og fannst koma ferskur inn í stjórnmálin, en get ekki treyst lengur og finnst að hann hefði átt að gefa út yfirlýsingu um að koma ekkert að bæjarmálunum þetta kjörtímabil. Það tekur tíma fyrir kjósendur að vinna traust slíks manns aftur. Hinsvegar hef ég trú á þeim sem eftir sitja og tel að þau spjari sig vel.

Ég tala ekki svona af því ég sé algjör bindindismaður og sé að predika bindindi, en mér finnst þessi mörk verða að vera nokkuð skýr.

Vera bíllaus ef það á að drekka.

Vera á bíl og sleppa áfenginu.

Hvað finnst ykkur um þetta mál?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Dómgreind og ekki dómgreind.

  1. Magnús Már says:

    Áfengi og dómgreind
    Ég er sammála þér tengdmóðir kær og í þessu sambandi er vert að rifja upp snilldarleg ummæli Tómasar Guðmundssonar skálds, en hann fullyrti að áfengið hefði engum manni mein gert – að fyrra bragði.

  2. Linda says:

    Þarna er ég algerlega sammála þér Ragna..
    En sem betur fer er það þannig fyrir augum dómstóla að ef maður er undir áhrifum áfengis eða einhverju öðru, þá er það ekki tekið gilt..
    Þessi maður hafði val – hann gat valið að drekka og aka ekki bifreið, eða drekka ekki og aka því heim.. hann hafði líka annað val (og þar kemur persóna hans best í ljós) og það var að taka afleiðingunum þegar hann ók á staurinn í stað þess að láta unnustuna taka á sig sökina..
    Hvað segir þetta um persónu hans???

    Að sjálfsögðu skilur maður að veröld hans virtist hafa hrunið þegar umrætt atvik átti sér stað, en það er algerlega óafsakanlegt, þegar í harðbakkann kemur, að setja hnífinn í annars manns hendur og fela sig á bak við hurð.. Svona framkoma er lágkúruleg og á ekkert heima í pólitík..

  3. afi says:

    Nú heldur afi að best sé að segja sem minnst.

  4. Ragna says:

    Auðvitað rétt.
    Já það er auðvitað rétt hjá afa að best hefði verið að segja sem minnst um þetta mál. Þetta er svo dapurlegt hvernig sem á það er litið. Ég viðurkenni að ég batt miklar vonir við þennan frambjóðanda og hlakkaði til þess að fá hann hér í forsvar en nú er eins og maður hafi verið löðrungaður.
    Það er líklega best að láta tímann leiða í ljós hvernig úr þessu vinnst en taka sjálfur upp léttara hjal.

  5. Sigurrós says:

    Ég er alveg sammála þér, mamma. Þetta er mjög einfalt – annað hvort er maður á bíl og drekkur ekki, eða maður drekkur og er ekki á bíl.
    Mjög einfalt.

Skildu eftir svar