Ferðasaga.

Ég ætla nú að byrja á því að setja hérna inn mynd af okkur Eddu Garðars sem var tekin í afmælinu hennar fyrir skömmu. Hún sendi mér þessa mynd á E-maili og mér þykir mjög vænt um að fá hana. Takk Edda mín ef þú lest þessar línur.


Þá er nú helgin búin og konan svoldið lúin. Á fimmtudagsmorgun lögðum við Haukur af stað austur á Borgarfjörð. Við snerum á vonda veðrið sem hafði verið spáð og fórum snemma af stað til að vera á undan því og stungum það reyndar alveg af. Við ókum sem sagt í sól og fínu veðri alla leið til Akureyrar en þangað komum við um kaffileytið. Við vorum í kaffi hjá Svandísi systur Hauks og skruppum síðan að skoða miðbæinn, þ.e. göngugötuna (sem ég er nú takmarkað hrifin af). Síðan fórum við og skoðuðum Jólahúsið. Það er búið að byggja við það af mikilli smekkvísi og bendi ég þeim sem leið eiga til Akureyrar á að gera sér ferð og skoða Jólahúsið og umhverfi þess. Það versta var að við vorum með „Strumpajól“ á heilanum alla leiðina aftur til baka eftir að hlusta á þau þann tíma sem við vorum þarna inni.  Sem betur fer rjátlaðist það síðan af okkur á meðan við borðuðum kvöldmatinn á veitingastað þarna við pollinn. Við fórum svo aftur til Dísu og Óla „komma“ og áttum skemmtilegt kvöld með þeim og gistum svo þar um nóttina. Hann Óli hefur frá svo mörgu að segja og hefur gaman af að segja sögur bæði af Hornbjarginu og öðru.


Á föstudaginn tókum við svo daginn snemma því við áttum að mæta á fund á Egilsstöðum kl. 14:00. Við vorum komin þangað um hádegið og fengum okkur að borða og mættum svo í tæka tíð upp á sjúkrahús til þess að vera á fundi með læknum, hjúkrunarfólki og mömmu hans Hauks. Hún er orðin svo lasburða og getur ekki séð um sig sjálf í húsinu sínu á Borgarfirðinum. Þessi ferð okkar var farin til þess að ganga frá því að hún fengi framtíðarvistun á sjúkrastofnun fyrir aldraða sem er á Egilsstöðum. Til að gera langa sögu stutta var þetta frábær fundur. Gamla konan er komin í þá framtíðarvistun sem hún er alsæl með og við öll hin getum nú hætt að hafa áhyggjur af henni einni á Borgarfirðinum.


Við Haukur fórum svo niður á Borgarfjörð og vorum þar um nóttina. Við vorum áfram heppin með veðrið og Borgarfjörðurinn skartaði sínu fegursta þegar við komum þangað. Ég held ég fari ekki ofan af því að fjöllin á Borgarfirði eru fallegustu fjöll á landinu. Þá er ég ekki að meina hin tignarlegu Dyrfjöll heldur Staðarfellið og fjöllin þar í kring. Hvílíka litadýrð hef ég a.m.k. hvergi annarsstaðar séð.


Við röltum um þorpið í góða veðrinu kvöldið sem við komum. Á laugardagsmorgninum áður en við fórum litum við svo aðeins inn hjá Elsu og Arngrími, en þau eru langamma og langafi Karlottu og Odds Vilbergs í föðurættina þeirra. Ég lít alltaf til þeirra þegar ég kem á Borgarfjörðinn. Einstaklega gott og skemmtilegt fólk. Við vorum líka að segja þeim af gömlu konunni.


Við ókum síðan sem leið lá, suðurleiðina til Selfoss eftir að stoppa aðeins hjá gömlu konunni á Egilsstöðum. Við vorum komin hérna um hálf ellefu í gærkvöldi, þreytt en í alla staði mjög ánægð með ferðina.


Haukur er farinn í bæinn því hann á að byrja á næturvakt í nótt. Já það er mikið að gera á sumum bæjum.


Ég er búin að sitja hérna úti í sólinni í dag en þegar ég sá að skýin fóru að færast fyrir sólina þá ákvað ég að snúa mér að dagbókinni minni sem af eðlilegum ástæðum hefur verið skilin útundan síðustu daga. Nú tel ég mig hinsvegar búna að gera bragarbót þar á og læt þetta gott heita í bili. Guðbjörg var að bjóða mér í kvöldmat. Namm, namm ég hlakka til að fá nýtt læri hjá henni 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar