Að sofa í góðum rúmum.

Í gær gáfum við okkur, þrátt fyrir nokkurt annríki síðustu daga, tíma til að skreppa aðeins í bæinn í alveg ákveðnum erindagjörðum.

Oftast er það nú svo að þegar fólk hefur verið saman í ákveðinn tíma þá eignast það barn saman og skiptir þá ekki málið hvert rúmið er eða hefur verið.  Nei, verið alveg róleg, ég er ekki að verða sextug kraftaverkamamma hvað sem verður, því við fórum í bæinn til þess að kaupa okkur saman sitt hvorn helminginn af rúmi sem síðan verður sett upp hlið við hlið hérna í svefnherberginu.

Það er nefnilega svo þegar maður er orðinn gamall og gigtveikur, að maður vill láta fara vel um sig í rúminu sínu.  Við erum búin að sofa allt of lengi á sömu dýnunni en það er svo glatað að hafa ekki tvær dýnur í hjónarúmi því þegar annar aðilinn hreyfir sig þá gengur hinn allur í bylgjum.
Nú var sem sé nóg komið og strikið því tekið beint í Svefn og Heilsu. Þar voru rúmin skoðuð gaumgæfilega.  Við vorum eins og í sögunnii um Gullbrá og bangsana því við lögðumst og prufuðum hvert rúmið af öðru, lögðumst með tærnar upp í loft lyftum höfðalagi á ógnarhraða og lyftum fótunum sömuleiðis hátt í loft upp. Það lá við að maður yrði helst smeikur um að  koma sér í einhverja þá stillingu að maður yrði fastur í rúminu – hvað ef rafmagnið fer nú – en allt fór vel og ef maður nær að verða ekki mikið ruglaðri í ellinni en maður er orðinn þá ætti þetta að vera í lagi.  Nú þurfum við  alla vega ekki lengur að liggja út á brún og passa að detta ekki framúr af því rúmið sé of mjótt og að hendast til og frá ef hinn aðilinn hreyfir sig Nei þetta verður nú eitthvað annað.

Ekki komu rúmin austur í dag, en Haukur fór hinsvegar í bæinn í vinnusyrpu svo ég get sofið í miðju rúminu í nótt, en mikið hlakka ég til að fá hina dýrðina.

Góða nótt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Að sofa í góðum rúmum.

  1. Svanfríður says:

    Auðvitað er réttast að kaupa 2 dýnur. Ég vildi óska að við hjónakornin hefðum verið svo vitur en það verður næst. Ég vona bara að þið sofið vel á nýju dýnunum. Ég á eftir að sakna þín þegar þú ferð til DK-ekki vera voða lengi, ha?:)

  2. Ragna á Ak says:

    Sæl nafna mín. ég spurði Magga í gær
    hvort nokkuð væri að hjá ykkur ,mér leist ekkert á að þú værir hætt að tjá þig, en mér létti þegar ég sá að þú varst komin í gírinn í morgun. Hvað rúmin varðar þá óska ég ykkur til hamingu með þau og ég get lofað að þetta verður unaðslegt og ekki skemmir að geta þotið upp og niður til endanna með fjarstýringu bara að muna að vera með þá réttu. kveðja RM

  3. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Svanfríður mín að ætla að sakna mín smá á meðan ég verð í burtu, alltaf notaleg tilfinning að vita að manns sé saknað.
    Sama segi ég við þig nafna mín og sam-amma á AK. Það hefur verið eitthvað svo mikið stúss á manni þessa vikuna og það hefur bitnað á heimasíðunni.
    Kær kvkeðja,

  4. Linda says:

    Ég vildi að ég væri með 2 dýnur í staðinn fyrir þessa einu. Ég er alveg sammála þér að það svo leiðinlegt að vakna við og finna bylgjurnar frá hinum aðilanum þegar sá hreyfir sig..

    Ég var nú líka farin að hafa smá áhyggjur þegar engin færsla kom inn nú í nokkra daga, svona er maður nú heimtufrekur..
    ég ætla pottþétt að hafa samband þegar ég kem heim seinna í sumar, það yrði mér heiður að fá að hitta þig og drekka með þér kaffibolla..

Skildu eftir svar