Aðeins meira úr Danmerkurferðinni..

Það hefur verið nóg að gera eftir heimkomuna og lítill tími eða kraftar til að halda áfram með ferðasöguna. Sigurrós kom austur og var í tvær nætur hjá okkur og við notuðum tækifærið og grilluðum saman Grundartjarnarfjölskyldan og við hérna í Sóltúninu. Í dag fórum við Haukur svo í Hveragerði að kaupa blóm í garðinn svo allt verði nú fallegt og fínt á þjóðhátíðardaginn. það þarf líklega ekki að hlaupa oft út til þess að vökva nýgróðursettu blómin því himininn sér um þá hluti þessa dagana.
Annars hef ég nú verið svona á hálfum dampi síðan ég kom heim því ég fékk einhverja fjárans pest í ferðinni sem ég er ekki alveg búin að ná mér af. Heimilislæknirinn dreif mig hinsvegar á sýklalyf í morgun svo vonandi stendur þetta allt til bóta næstu daga.

———————————————–

Þessa mynd tók ég af Hauki í fjörunni í Vemmingbund en þangað fórum við í göngutúr á morgnanna. Haukur hélt sig vera Tarsan og ætlaði að vippa sér yfir sjóinn í flæðarmálinu með því að hanga á trjágrein. En stundum ganga hlutirnir ekki upp og hér sést hann vinda sokkinn sinn eftir að hafa hellt úr skónum.

fjarandk11.jpg

Hér sést yfir litla þorpið í Vemmingbund á Broager. Þetta var svona álíka stórt þorp og Eyrarbakki

vemmingbund.jpg

Þessi er tekin í einni morgungöngunni.

tre_sjor.jpgÞessi svanur leit frekar sakleysislega út þegar ég gekk til hans og smellti af honum mynd en líklega hef ég ekki sýnt honum nægjanlega virðingu þar sem hann stóð þarna í hallargarðinum í Gråsten því þegar ég ætlaði að koma aðeins nær og taka aðra mynd þá hvæsti hann á mig. Mér brá svo að ég nærri því missti myndavélina út úr höndunum.

svanurdk10.jpg

Svona var hann hinsvegar borubrattur syndandi um á vatninu í Gråsten daginn eftir þegar við skoðuðum betur hallargarðinn þar.
svanurdk3.jpg

Það er svo freistandi að setja inn fleiri myndir en ég held að ég verði bara að gefa ykkur upp slóðina á allar myndirnar því það er víst svo erfitt að opna síðuna mina með öllum þessum myndum. Ég slæði kannski einni og einni umhverfismynd á síðuna mína til uppfyllingar þegar andagiftina brestur til þess að skrifa pistil.

Endilega skoðið myndirnar hér ef ykkur langar til. Það standa yfir breytingar á útliti og flokkun á myndaalbúminu mínu svo það getur verið ruglingslegt um sinn, en það er samt opið.

Ef ég verð ekki dugleg að setja eitthvað nýtt inn á morgun þá ætla ég að óska ykkur

ánægjulegrar þjóðhátíðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Aðeins meira úr Danmerkurferðinni..

  1. Magnús A says:

    Kæra Ragna! Ég á vart orð vegna hinna frábæru mynda sem detta út úr myndavélinni þinni og inn á heimasíðuna. Svo er nú textinn ekki til að skammast sín fyrir. Ég skoða heimasíður ykkar Magnúsar Más á hverjum degi. Með kærri þökk. MA

  2. Linda says:

    Þetta eru stórkostlegar myndir Ragna.. Þú ert snillingur með myndavélina..

    Þjóðhátíðrkveðjur frá Groton..

Skildu eftir svar