Hvílíkur haustdagur.

Það heldur áfram að vera hvílíkt blíðuveður. Ég settist aðeins út eftir hádegið í síðum buxum og skyrtu, svona af því það er nú komið haust. Ég var fljót að fækka fötum og endaði á stuttbuxum og hlírabol og var samt alveg að kafna úr hita. Ég var að fara í gegnum Moggana sem höfðu komið síðan á fimmtudag. Hvílíkur bunki á ekki lengri tíma! Ég gerði nú ekki annað en fletta þessu í gegn. Laugardagskrossgátuna fann ég hinsvegar og tók úr strax og ég kom heim úr helgarferðinni, en ég er vön að fara fram snemma á laugardagsmorgnum til þess að sækja Lesbókina með krossgátunni. Það er mitt uppáhald að ráða krossgátuna og drekka sterkt og gott kaffi með.  Edda, sem var að koma heim eftir nokkurra daga dvöl í sumarbústaðnum, kallaði svo á mig í kaffi sem við drukkum úti á palli hjá henni.  Geitungunum er sem betur fer farið að fækka en tveir voru samt að hrella okkur en Edda sá við því og veiddi þá báða.


Ég var að spjalla aðeins við Ernu frænku á Bornholm á MSN í morgun. Það endaði nú reyndar með því að við töluðum saman í síma.


Ef Haukur væri heima þá hefðum við sko farið út að ganga núna því það er svo fallegt veðrið ennþá þó komið sé kvöld en ég held ég nenni því ekki ein. Ætli ég fari ekki að kíkja á hvort eitthvað bitastætt er í þessu blessaða sjónvarpi annars fer ég bara í rúmið með bókina sem ég er að lesa.  Læt þetta bara duga í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar