Bara smá mal fyrir svefninn.

Mikið er veðrið búið að vera einkennilegt í dag. Ýmist hefur verið sól eða eins og himnarnir hreinlega opnist og rigning og haglél hefur streymt niður. Svo hefur verið ótrúlega hlýtt í dag.  
Ég gat nú ekki annað en vorkennt krakkagreyjunum sem voru í unglingavinnunni en þeir voru að vinna hérna í grasmöninni handan við garðinn okkar þegar himnarnir opnuðust svona í morgun. Ég er nú ekki vön að vera að vorkenna þeim neitt sérstaklega því þau eru svo löt að vinna og liggja oftast útaf og eru að mala hvert við annað eða þau hanga í rólunum, nema þegar verkstjórinn kemur á svæðið þá fara allir að raka og reita. Þegar ég horfi á þau út um gluggann þá hef ég spurt sjálfa mig hvort þetta sé vinnukraftur framtíðarinnar sem tekur til hendinni á þennan hátt.  Kannski verða þau búin að finna upp einhver tölvustýrð tæki sem gera þetta alltsaman svo þau geti bara legið með fjarstýringarnar og malað í vinnutímanum.
En í morgun var ekki annað hægt en vorkenna þessum greyjum sem höfðu farið að heiman í sólskini og áttu sér einskis ills von og urðu auðvitað alveg hundblaut í dembunum.  Ég hélt að allur hópurinn fengi að fara heim til að fara í þurr föt en þau voru látin dúsa fram að hádegi.  

Ég hef bara verið nokkuð dugleg í dag. Kláraði að mála gestaherbergið svo nú er allt til reiðu þegar gestirnir mínir frá Englandi koma í byrjun ágúst. Svo er maður þessa dagana ýmist að pakka niður einhverju til ferðalaga eða taka upp dót eftir ferðalög. Nú vorum við að ljúka við að pakka niður.  Það er alltaf gaman að skreppa í smá ferðalög en svei mér þá nú langar mig mest til þess að fara að vera meira heima og njóta blómanna minna í garðínum og annars sem ég hef hér í kringum mig. Ég er þó að berjast við að festast ekki í því að vera of heimakær og fylgi því Hauki í svona eitt og eitt ferðalag.

Nú er best að hætta þessu mali, ýmislegt á eftir að gera áður en ég fer í rúmið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Bara smá mal fyrir svefninn.

  1. Sigurrós says:

    Þú veist að unglingavinnan er eins og ólympíuleikarnir.
    Það skiptir ekki máli að vinna, bara að vera með 🙂

  2. Linda says:

    Ragna, þú ert svo mikil dúlla þegar þú skrifar.. manni getur ekki annað en þótt vænt um þig, þú hefur einhvern sjarma..
    Hlakka til að sjá þig.. 😉

  3. afi says:

    Vinnuskóli?
    Á þessi sumarvinna krakkanna ekki að heita vinnuskóli?? Hvað er þeim kennt? Ekkert. Oftast vita verkstjórarnir jafn lítið og blessuð börnin. afi vill meina að þetta vinnulag sé síst börnunum að kenna. Þau þurfa aðhald og stýringu.

  4. afi says:

    Skógarkál
    Skógarkál í blómapotti getur sáð sér út um allt. Hafðu það á þeim stað sem það má leika sér. Þá líklega í sumarbústaðalandinu. afa sýnist að flest hin blómin séu meðfærileg. Þó getur tvítönnin breitt dálítið úr sér en það er bara allt í lagi.

  5. Þórunn says:

    Fróðleg frásögnin af veðrinu og vinnuháttum unglinganna. Það er nú frekar sjaldgæft að veðrabrigðin séu svona mikil á Íslandi þó allt geti gerst. En vinnubrögð unglinganna í „unglingavinnunni“ hafa verið svipuð áratugum saman. Ég er sammála afa, þau þurfa virkilega að fá góða tilsögn og aga, annars virðist rætast ótrúlega úr þessum krökkum. Takk fyrir bréfið, Ragna mín já ég gat mér rétt til hvar þú hefðir fengið blómin, það er ómetanlegt að þekkja gott fólk. Ég skrifa þér fljótt til baka.

  6. Svanfríður says:

    Ég segi það sama og Linda. Það er svo mikill sjarmi í skrifum þínum að manni getur bara þótt vænt um þig þó svo maður hafi aldrei séð þig:)

Skildu eftir svar