Komið í lag!

Betra.is hefur staðið í flutningum og vefurinn þess vegna legið niðri. Nú hef ég hinsvegar ekki afsökun að sleppa blogginu því allt virðist vera komið í lag.


Í gær gerði ég nú svo sem ekkert sérstakt og var alveg rosalega eitthvað þreytt og undirlögð af einhverjum krankleika. Ég hélt satt að segja að ég væri bara að fá einhverja pest. Líklega er þetta bara þreyta eftir ferðalagið okkar um helgina. Það segir alltaf til sín þegar maður fer út úr rammanum. Ég ætlaði ekki að nenna í sundleikfimina en lét það ekki eftir mér að vera heima og viti menn ég hresstist auðvitað öll við að hreyfa mig í lauginni. Svo sofnaði ég nú reyndar yfir sjónvarpinu í gærkvöldi en það var bara góð þreýta.


Í dag fór ég í bæinn til að hitta augnlækninn sem lét mig fá dropa sem ég á að setja í augun á hálftíma fresti í 10 daga. Fyrir nóttina fékk ég reyndar eitthvert gel sem á að setja fyrir svefninn svo ég þarf nú ekki að  dunda mér við þetta á nóttunni líka. Síðan á ég að tala við hana aftur eftir 10 daga  en þá ræðst hvort ég á að hafa þessa dropa áfram „forever“.  Ja það er eins gott að vera ekki í vinnu. Það væri ekki mjög vinsælt að standa fyrir framan spegil á hálftíma fresti og dunda sér við að koma þessum blessuðu dropum í augun.


Ég fór helst til snemma af stað í morgun svo ég sá að ég hefði tíma til að líta aðeins við í Bólsturverki hjá Lofti. Alltaf gott að hitta Loft.


Þegar ég var búin hjá augnlækninum þá heimsótti ég Birgit. Hún hringdi rétt áður en ég fór að heiman og sagðist vera í fríi frá vinnu í dag svo það var ákveðið að ég liti inn hjá henni þegar ég kæmi frá augnlækninum. Hún sagðist vera með norsk blöð handa mér. Það er nú orðið nokkuð langt síðan ég hef fengið norsku blöðin. Ég gleymdi að taka þau þegar við hittumst síðast. Nú verður gott að koma sér í rúmið með bunkann og lesa nokkrar greinar og slúðursögur.


Svo mátti ég til með að koma aðeins við í Kleppsholtinu og líta til hennar Tótu. Það er orðið svolítið langt síðan ég hef komið til hennar núna. Gamla fólkinu finnst svo gaman ef einhver lítur inn. Hún er nú búin að þekkja mig síðan ég fæddist. Hún sagði að fyrrverandi nágranni okkar hann Sverrir hafi verið að deyja og það eigi að jarða hann á föstudaginn frá Áskirkju. Ég var reyndar búin að lofa Guðbjörgu að leyfa Karlottu að vera hjá mér eftir hádegið því hún fer ekki í skólavistunina eftir skóla á föstudögum en Guðbjörg er sjálf ekki laus fyrr en seinni partinn. Nú stend ég hinsvegar frammi fyrir því að það eru tvær jarðarfarir á föstudaginn sem ég vildi vera við, þ.e.  jarðarför Sverris klukkan 13:30 og jarðarför Dúnu, svilkonu hennar tengdamömmu sem er klukkan 15:00. Ég verð bara að sjá hvað ég næ að gera. 


Ég held ég láti þetta bara duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar