Lakkrísinn og fleira gott.

Ætli íslenski lakkrísinn sé sá besti í heimi?
Ég fer að halda það. Svanfríður segist vilja fá sem flesta gesti svo hún fái mikinn lakkrís og hún býr nú í Ameríkunni þar sem allt fæst.  Á óskalista hjá dóttur Hauks í Danmörku var nr. 1 að við kæmum með lakkrís. Það voru líka ófáar sendingarnar til systur minnar á Bornholm sem innihéldu lakkrís.

Gestirnir mínir heilluðust líka af íslenska lakkrísnum. Þau fóru með mér að versla og ég tók pakka af lakkrís og spurði hvort þau langaði til að prufa. Angela sagðist vera mikið fyrir lakkrís en hann fengist heima í Englandi. Þar sem þessi var mjúkur og greinilega nýr þá tók ég samt sem áður pakkann svona að gamni.  Ég dró hann svo fram þegar heim var komið og gaf þeim að smakka. Betri lakkrís höfðu þau ekki fengið og áður en þau fóru heim þá fóru þau í verslunarleiðangur í Nóatún og keyptu m.a. nokkra lakkríspakka til að hafa með sér heim.

Mér fannst  skemmtilegt að þau keyptu sér líka stórt  úrbeinað hangikjötslæri, HP flatkökur og HP seytt rúgbrauð til þess að hafa með sér heim að ógleymdum Gullosti og bláum Kristal.

Þau ætla nefnilega að hafa íslandskvöld með vinunum úti og gefa þeim þetta góðgæti. Alick ætlaði svo að taka flösku af Brennivíni í fríhöfninni í sama tilgangi.  Í borgarferðinni okkar þá komum við nefnilega við á Austurbrúninni hjá Hauki og hann dró fram flösku af Brennivíni sem hann var búinn að geyma frosið í 2 ár og gaf Alick að smakka. Hann hafði sett flöskuna  í mjólkurfernu með vatni og  þetta var einn klakastumpur.  Ég smakkaði það nú ekki, en þetta líktist meira sýrópi að sjá svona ískalt.

Íslendingurinn í mér var rosalega stoltur yfir því að  þau skyldu vilja taka með sér íslenskan mat til þess að bjóða löndum sínum uppá þegar heim væri komið.  Ég fæ örugglega fréttir af því hvernig þeim hinum hefur fundist.

Það er ekki að því að spyrja að auðvitað búum við íslendingar til allt það besta – eins og dæmin sanna 🙂  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Lakkrísinn og fleira gott.

  1. Svanfríður says:

    Það sem þú skrifaðir um í síðasta pistli og í belginn, þar skil ég þig vel því mér finnst oft eins og sumir hafi bara samband ef þeir þurfa að versla eitthvað ódýrt og þá er ég valin í það og látin senda heim. En ég fékk vatn í munninn við lesturinn á brennivíninu…ég hefði viljað vera með þarna:)

  2. Þórunn says:

    Lakkrís, já takk!
    Satt er það, við búum til margt gott á Íslandi og lakkrís er með því besta. Það er oft vandi að velja þegar gestir eru að bjóðast til að færa okkur eitthvað, þú trúir því kanski ekki en ég bið oftast um „Lýsi“ það fæst ekki hér og ég er svo sannfærð um að það vinni vel gegn gigtinni í mér. Þess vegna finnst mér það gott.

  3. Ragna says:

    Já, lýsið er gott að taka á fastandi maga og á að vera gott til að hamla gegn gigtinni.

  4. afi says:

    Lakkrís og flatkökur
    Þetta með lakkrísinn kannast afi vel við. Nýdanska fjölskyldan biður alltaf um lakkrís þegar þau fá sendingu eða heimsókn frá Fróni. Ekki skemmir að fá flatkökur og kleinur líka.

  5. Sigurrós says:

    Hmmmm… nú verðið þið að hætta að ræða um lakkrísinn, annars verð ég að fara beint út í búð og kaupa mér stóran poka af reimum! 😉 En hann var ekkert smááá góður lakkrísinn sem þú bauðst Angelu og Alick upp á, ég get enn fundið bragðið! 🙂

Skildu eftir svar