Langur pistill.

Tölvumálin:


Ég hef verið svona ýmist í náðinni eða ekki hjá betra.is síðustu viku. Ég get ekki neitað því að ég hef verið svona léttstressuð yfir þessu því það er komið svo upp í vana hjá mér að kveikja á tölvunni á morgnanna, kíkja á póstinn og lesa hvað hinir skrifa í dagbækurnar sínar og setja aðeins inn í mína dagbók. Nú vona ég bara að hremmingunum sé lokið. Ég dáist að þolinmæðinni hjá honum Jóa mínum að gefa sér alltaf tíma til að hlusta á öll tölvuvandamál tengdamömmu sinnar og redda eftir því sem hægt er, ýmist í gegnum tölvuna eða símann, því sem hægt er að redda. Stundum dugar ekki annað en að drösla tölvunni til höfuðborgarinnar svo hann geti þar „læknað“ hin stærri mein. En semsagt alltaf tekur Jói mér jafn vel og þó ég viti að hann sé upp fyrir haus í verkefnum segir hann alltaf að það sé ekkert mál að hjálpa mér. Takk Jói minn.


Síðasta vika, hmm


Nú er að reyna að rifja upp hvað ég var að bralla í síðustu viku, jú ég var búin að segja frá því að ég fór að hitta augnlækninn. Það virðist ætla að vera framtíðarvandamál og  pirrar mig verulega að fá ekki betri lausn á þeim málum. 


Á föstudaginn fór ég svo í bæinn í þeim eina tilgangi að fara í tvær jarðarfarir. Ég fór í Áskirkju kukkan 13:30 til að kveðja góðan nágranna til margra ára, Sverri sem bjó á Kambsvegi 15.  Síðan dreif ég mig í Kópavogskirkju til að kveðja þar hana Dúnu en sú jarðarför hófst klukkan 15:00. Tengdafólkið mitt fór allt í garðinn svo ég fór það með þeim. Það tók þó nokkurn tíma. Ég sleppti því að fara í erfidrykkjuna. Bæði var að ég var einhvernveginn orðin alveg uppgefin og svo var líka spáð óveðri seinni partinn svo ég þorði ekki annað en að drífa mig heim á litla Pólóinum mínum svo ég fyki ekki út í hraun ef óveðrið myndi nú bresta á áður en ég kæmist heim. Þetta var auðvitað óþarfa hysteri því óveðrið skall ekki á fyrr en um nóttina og að vanda mun minna en spáð hafði verið. En svona var þetta samt. Þær gera oft grín að mér dæturnar fyrir veðurhræðslu mína. 🙂


Ferðahelgi:


Haukur kom austur á föstudagskvöldið og við drifum í því að smyrja nesti og taka okkur til í ferðalag með Steinasafnaraklúbbnum, en á laugardagsmorgun átti að pikka okkur upp hér á Selfossi og fara í hina árlegu ferð klúbbsins. Að þessu sinni var farið í Þjórsárdal og gist í gangnamannahúsi sem heitir Hólaskógur og er nokkru fyrir neðan Sultartangavirkjun, nýtt og gott hús. Við höfðum stuttan stans í Hólaskógi, fórum bara inn með dótið okkar og tókum frá kojur. Það má eiginlega segja að hér hæfist hin eiginlega ferð. Rútan fór með okkur inn á Gljúfurleit sem er upp með Þjórsánni nokkru ofan við Sultartanga-virkjun. Nú átti að ganga upp með Þjórsánni og skoða fallega fossa sem þar eru. Að vanda var ausandi rigning en það fylgir ferðum klúbbsins að fyrri daginn er alltaf rigning og oft slagveður en seinni daginn hefur alltaf verið gott veður. Vitaskuld brást það ekki í þetta sinn. Til að gera langa sögu stutta  þá skoðuðum við marga fallega fossa en þeirra stærstir eru Gljúfurleitarfoss og Dynkur, en hann er óskaplega fallegur og tilkomumukill. Þetta var fjögurra klukkutíma ganga í lyngi og mosa, upp gil og niður gil. Það var svo mikið af stórum krækiberjum þarna að það má með sanni segja að saftin spýttist undan fótum okkar. En manni minn hvað það er ótrúlega erfitt að ganga í jarðvegi sem lætur svona mikið undan þegar stigið er. Ég verð að segja það eins og er að ég hefði ekki komist sentimeter lengra en að þeim stað sem rútan sótti okkur því ég kom varla öðrum fætinum fram fyrir hinn í lokin. Ég var samt ekki verst. Ég talaði við konu sem sagði að það hefði legið við að hún bara settist niður og neitaði að fara lengra. Svo var ein, sem vissi hvað þetta væri erfið ganga og hún bara fylgdi rútunni og lagði sig á meðan. Hún var sko ekkert að láta okkur hin vita hvað þetta væri erfið leið. Ég tók bara ekkert eftir því að einhver varð eftir í rútunni. En ef öllu væli er sleppt, því allir komu jú aftur og enginn þeirra dó, þá sé ég ekki eftir því að hafa lagt þetta á mig til að sjá þessa fallegu fossa. Sérstaklega er Dynkur fallegur.  Um kvöldið var svo boðið upp á fordrykk og síðan þennan fína grillmat. Síðan var spjallað, farið í létta leiki og spilað á gítar og sungið. Venjulega er dansað en enginn hafði þrek í það.


Á sunnudeginum var svo ekið inn á Sprengisandsleið og haldið í áttina að Þjórsárverum og skoðuðum við m.a. bæ Fjalla-Eyvindar og Höllu. Á bakaleiðinni var svo komið í þjónustumiðstöðina að Hrauneyjum. Síðan var stefnan tekin á Selfoss og fyrstu farþegunum ekið heim. Það var sko gott að koma heim og skella sér í gott bað. Þegar upp er staðið þá var þetta alveg frábær helgi.


Á mánudaginn drifum við svo í því að bera á pallinn hjá okkur. Við  ákváðum að nota góða veðrið og það að Haukur var í fríi. Við höfum svo verið að dunda okkur við að sandbera nýju stéttina fyrir framan húsið. Nú er þetta bara allt að verða klárt.


Ég veit nú ekki hvort ég skrifa á morgun en ég sæki Karlottu og Odd í skóla og leikskóla og verð með þau þangað til á föstudag því Guðbjörg fer í fyrramálið á Kennaraþing í Vestmannaeyjum og kemur ekki heim fyrr en seinni partinn á föstudag. Það verður bara gaman að fá að vera með þeim aðeins en ég býst ekki við að skrifa því hugsanlega verð ég með þau heima hjá þeim það er svona þægilegra.


Ég læt þessum löngu skrifum lokið hérmeð.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar