Hvílíkir pjakkar.

Já það var mikið um að vera í Grundartjörninni í dag þegar þar var haldin sjóræningjaveisla.

Eftir hádegið fylltist sem sé allt af sjóræningjum svo það lá við að amma yrði smeik. Það varð úr að Magnús Már, sem er langt frá því að vera orðinn frískur eftir kirtlatökuna í síðustu viku færi í flóttamannabúðir í Sóltúnið til Hauks. Amma hins vegar setti í sig kjark og fór í Grundartjörnina til þess að hjálpa eitthvað til og til þess að forða minnsta stubb frá öllum sjóræningjunum.

Þetta gekk þó allt merkilega vel fyrir sig þó hávaðasamt væri og enginn fór sár heim. Ekki hélt ég að sjóræningjar væru til í að fara í frystidans, en svo er það víst kallað þegar spiluð er músikk og síðan stöðvuð og þá má enginn hreyfa sig því annars er sá hinn sami úr leik.

Það er einhver sjóræningjatíska í gangi hjá þessum 7 ára stubbum núna, annars erum bæði ég og mamma hans á móti því að börn séu að leika sér með vopn og þegar hann var minni og einhver gaf honum t.d. byssu í afmælisgjöf þá lét Guðbjörg hana hverfa og faldi uppi í skáp. Ég man t.d. eftir einni vatnsbyssu sem var í nokkur ár efst í fataskáp. En það þýðir víst ekkert þegar krakkarnir stækka að vera svona strangur hvað þetta varðar því heima hjá vinunum er farið í sjóræningaleiki og annað í þeim dúr. Guðbjörg lét því undan og hleypti öllum sjóræningjunum inn í tilefni dagsins.

Dagur Snær besti vinurinn mætti fyrstur og því kjörið að taka fyrstu myndina af þeim saman. Hér eru þeir vinirnir, Oddur Vilberg er sá með leppinn.

Er nokkuð skrítið að amma héldi að maður vildi ekki láta kalla sig ömmustubb.

Hvílíkir pjakkar

sjoraen.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Hvílíkir pjakkar.

  1. Nafnlaust says:

    Váá
    Illúðlegir en flottir gæjar. Það vantar ekkert upp á það.

  2. Ragna says:

    Já satt er það,
    en svo eru hjörtun sem slá fyrir innan svo lítil og viðkvæm.

  3. Þórunn says:

    Sjóræningjar
    Já það er gott til þess að vita að þessir mögnuðu sjóræningjar skuli svo breytast í blíða ömmu-stubba, þegar leiknum lýkur.

Skildu eftir svar