Saumaklúbbsferðin

Ég var svo spennt að fara í sumarbústaðinn með saumaklúbbnum að ég var búin að pakka dótinu mínu í bílinn á föstudagskvöldið. Það var svo sem ekki mikið sem þurfti að taka með sér nema sæng og tannbursta en svo smá bætist nú alltaf eitthvað við.

Ég pakkaði t.d. niður kampavínsflösku sem við höfum átt lengi og aldrei notað svo datt mér í hug hvort ég myndi kannski í svona ferð fá mér eitthvað sterkara í glas og þegar ég sá hálfan Vodkapela í vínskápnum þá ákvað ég að taka hann með. Haukur hló að mér og spurði hvort ég ætlaði að fara að drekka Vodka sem ég vildi aldrei. Hann stakk uppá því að ég færi með bjór en það drekk ég heldur ekki svo það kom nú ekki til greina. Einhvernveginn fannst mér samt að í svona ferðir væri haft áfengi með og ég vildi ekki vera eins og predikari úti í horni með vatn í glasi. Meira um það síðar.

Þær stöllur voru komnar hérna um hádegið og þá var mínum bíl bætt við svo við fórum á tveimur bílum. Ásta tók glæsilega á móti okkur með miklu morgun/hádegisverðar hlaðborði þar sem allt sem nöfnum tjáir að nefna fyrirfannst. Við sátum góða stund að gæða okkur á herlegheitunum og vitanlega spjalla,

asta3jpg.jpg

en fórum síðan út að skoða okkur um á landareigninni. Ásta fór með okkur á svæðið sem þau hafa verið að gróðursetja og sýndi okkur skógræktina en þetta eru ennþá mjög smáar plöntur enda nýgróðursettar.

Svo sagðist hún ætla að sýna okkur greni. Þegar við komum að staðnum þar sem grenið átti að vera þá gat ég ekki skilið hvaða greni hún ætlaði að sýna okkur því ég sá bara ekkert greni þarna. Þegar betur var að gáð þá var þetta tófugreni, en slíkt hef ég aldrei áður séð.
Hér sést einn inngangurinn í grenið og spor eftir lágfótu en enga hreyfingu sáum við en það mun vera tófa með yrðlinga í greninu

asta1.jpgasta2.jpg

Þegar við komum úr göngutúrnum var hafist handa við að undirbúa kvöldverðinn en á matseðlinum var grillað lambalæri með tilheyrandi. Við fórum nú létt með það að grilla lærin á gasgrillinu og maturinn var algjört lostæti.

asta6.jpg

Nú kem ég aftur að þessu með vínföngin. Við fengum okkur kampavín nokkru fyrir matinn en Ásta átti einnig kampavínsflösku. Svo var boðið upp á rauðvín með matnum og við vorum í léttu og góðu skapi, en þegar við fórum að spá í að fá okkur eitthvað meira að drekka eftir matinn þá hafði bara engin neina þörf fyrir það. Það kom nefnilega á daginn að við vorum svo skemmtilegar að við þurftum ekkert á meiru að halda til að gera okkur skemmtilegri. Við töluðum auðvitað mikið, svo hlógum við, sungum og dönsuðum. Vínföngin okkar komu svo bara heim aftur með óhreyfðum töppum. Haukur hristi bara hausinn yfir okkur og er hann þó ekki neinn djammari.

asta7.jpg

og svo var stiginn dans

asta5.jpg

asta4jpg.jpg

Svona var nú bústaðaferðin hjá okkur stöllum. Sú sem er fremst á myndinni, hún Kolla, kom alla leið frá Bellingham, sem er upp við landamæri Canada, til þess að mæta í saumaklúbb en þó fjarlægðin sé mikil þá kemur hún öðru hvoru í gamla saumaklúbbinn sinn

Ég veit ekki hvort þú Ásta mín, les nokkuð heimasíðuna mína en ef svo skyldi vera þá þakka ég alveg rosalega vel fyrir mig. Höfðinglegri móttökur er ekki hægt að fá svo þakka ég öllum hinum fyrir skemmtunina.

Allar myndirnar eru svo hér 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Saumaklúbbsferðin

  1. afi says:

    Ekki há
    Það er kosturinn við Tófugrenið að það verður hvorki hátt né fyrirferðamikið. Átti ekki von á öðru en að lukkan ein réði ríkjum í þessari stelpugleði. Ekkert sukk eða svínarí, tóm gleði.

  2. Anna Björg says:

    Kærar þakkir fyrir síðast!
    Elsku Didda,
    kærar þakkir fyrir síðast, þ.e. í ,,húsinu á sléttunni“. Mikið var nú gaman hjá okkur og gaman að af þessu skyldi verða.
    Myndirnar hjá þér eru aldeilis fyrirtak, bara eins og maður sé á staðnum.
    Enn og aftur kærar þakkir fyrir selskapinn og allt saman.
    Gangi ykkur Hauki nú vel að klára að mála, vísan þín =skemmtileg. Þú ættir bara að leggja þetta fyrir þig.
    Bestu kveðjur, heyrumst.

  3. Sigurrós says:

    Það er svo gaman í svona stelpu-sumarbústaðarferðum – bíð spennt eftir þeirri sem ég ætla í eftir tæpar tvær vikur! 🙂

    Hópmyndin af ykkur er virkilega flott – þið þurfið endilega að skella henni í ramma.

  4. Kolla says:

    klúbbveisla
    Ragna mín kæra,
    þakka þér og öllum hinum klúbbsystrum fyrir dýrðlega ferð, samverustundir og veglegar veitingar í sumarbústað Ástu um síðustu helgi. Alveg ógleymanlegt!
    Myndir þínar eru heill fjársjóður.
    Kærar kveðjur
    Kolla

Skildu eftir svar