Rokið

Það hefur nú fátt markvert borið við í dag enda veður með slíkum látum að fólk er ekki mikið á ferðinni. Ég hef aðallega verið að horfa út um gluggan til að fylgjast með myllunni minni sem ég hef verið dauðhrædd um að fjúki af stalli sínum og út í buskann. En hún hefur staðið veðrið fram að þessu og vonandi fer að lægja svo ég þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur. Við vorum með bundinn einhvern forláta poka sem við keyptum yfir grillið en ég tók eftir því áðan að hann var fokinn út í veður og vind, bara snærið eftir. Bekkurinn minn hérna framan við húsið var líka fokinn á hliðina.  Annars hefur fólk hér í kring tekið vel til í kringum sig svo það hefur allt verið með kyrrum kjörum en mikið svakalega hefur verið hvasst í hryðjunum.  


Ég hef verið að skrifa nokkur E-mail, til Ameríku og til Englands, ráða krossgátu og bara að hafa það huggulegt innandyra. Ég ætla að fara að koma mér fyrir í Lazy boyinum og horfa á fréttirnar og svo er jú Practise í kvöld, ég má ekki missa af því. Síðan er, í framhaldinu fróðlegt að sjá hvern Sigmundur Ernir fær í Maður á mann. Nú klukkan átta á RÚV er þátturinn Galdrastef á Ströndum. Ég gæti trúað því að hann sé áhugaverður. Sem sagt gott sjónvarpskvöld í vændum. Nú er bara að halda haus og detta ekki útaf því ég veit ekki hvernig dagskráin er í draumalandinu. Það er nú svona upp og ofan hvernig hún er.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar