Kærar þakkir Alcan fyrir skemmtilega tónleika og veisluna á eftir.

Enn einu sinni gerir Ísal (Alcan) vel við starfsfólkið sitt. Haukur fékk um daginn senda tvo miða sem giltu á tónleika Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Laugardalshöllinni í dag og léttar veitingar í hliðarsal á eftir.

Nú hittist þannig á að Haukur var á kvöldvakt og gat ekki fengið því breytt. Mér datt því í hug að fá Sigurrós með mér því ekki kom til greina að láta svona góða miða fara forgörðum.

Tónleikarnir voru stórgóðir. Það var ekkert hlé og Bjöggi söng hvert einasta lag ýmist einn, með gestasöngvurum eða með Fóstbræðrum og alltaf spilaði öll Sinfóníuhljómsveitin undir. Ég hafði ekki söngskrána með heim, en lögin voru örugglega yfir 20 í þessu tveggja tíma prógrammi. Bjögga var greinilega mjög heitt þarna í öllum ljósunum á sviðinu því hann þurfti oft að þurrka af sér svitann. Ég var að vorkenna honum að það skyldi ekki vera neitt hlé svo hann gæti hvílt sig þó ekki væri nema svona örfáar mínútur eða að hljómsveitin spilaði eins og eitt lag og hann gæti aðeins dregið andann rólega á meðan, en hann stóð þarna og söng allt prógrammið án þess að anda á milli. Það var æðislegt að heyra hann flytja Gullvagninn með svona kröftugu undirspili – alveg magnað.
Ekki veit ég hvernig hann Bjöggi ætlaði svo að komast í gegnum þetta prógram allt öðru sinni í kvöld því klukkutíma eftir þessa tónleika voru aðrir eins og svo þeir þriðju á morgun. Hvílík harka.

Eftir tónleikana var einkasamkvæmi þar sem Alcan bauð starfsmönnum og gestum upp á veitingar. Þar var ekkert skorið við nögl enda ekki venjan á þeim bæ að gera það. Það var boðið upp á margskonar drykki og fjöldan allan af snittum og smáréttum. Svo var tónlistin þar inni ekki af verri endanum því Bogomil Font og félagar spiluðu þar og sungu.

Við dvöldum nú ekkert lengi í samkvæminu við Sigurrós enda var mér í mun að leggja af stað fyrir myrkur heim. Það tókst svona nokkurn veginn að komast heim áður en alveg var komið myrkur og ég náði í seinni hlutann af hinni bráðskemmtilegu Spaugstofu.

Síðan horfði ég á alveg rosalega fína mynd á RUV Draumur um Afíku

Nú er klukkan að verða eitt eftir miðnætti og því tímabært að slökkva á tölvunni.
Ég segi því Góða nótt og njótið morgundagsins.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Kærar þakkir Alcan fyrir skemmtilega tónleika og veisluna á eftir.

  1. Sigurrós says:

    Já, þetta var alveg rosalega gaman! Takk fyrir að bjóða mér með 🙂
    Söngdagskráin er í bílnum þínum – hún liggur í hólfinu við farþegasætið.

  2. Björk says:

    Seinni tónleikarnir
    Sæl Ragna. Ég mátti til að segja þér að við Mamma og Ívar bróðir og konan hans vorum á seinní tónleikunum hjá Björgvin á laugardagskvöldið og þeir voru hreint út sagt frábærir. Ég var einmitt að hugsa um hvort hann myndi ekki missa röddina á að syngja svona tvenna tónleika sama daginn, þar sem hann virtist ekkert vera að spara röddina en hann var alveg meiriháttar. Þannig að við vorum alveg í skýjunum. Þetta er auðvitað alveg stórkostlegt hjá Alcan að bjóða starfsmönnum og þeim til mikils sóma.

Skildu eftir svar