Fíll í postulínsbúð.

Alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt en ég vona svo sannarlega að í því tilviki sem hér um ræðir þá sannist máltækið að "æfingin skapi meistarann".

Við systur drifum okkur í línudans í kvöld. Námskeiðið byrjaði reyndar á mánudaginn var en ég komst ekki í fyrsta tímann.
Það var fullur salur af dönsurum, bæði byrjendum og þeim sem voru í fyrravetur og þeim sem voru enn lengra komnir.

Í byrjun gekk nú allt vel og fyrstu tveimur dönsunum náði ég nokkurn veginn fljótt og átakalaust og hélt að þetta yrði nú ekki mikið mál – en svo fór smám saman að síga á ógæfuhliðina og þegar kom að því að læra og taka þátt í að dansa fimmta dansinn á þessum eina klukkutíma sem námskeiðstíminn er í hvert sinn, þá bara snerist ég í hringi og var hætt að meðtaka. Það var alltaf vitlaus fótur laus til að halda áfram og ég mátti þakka fyrir að snúa ekki sjálfa mig niður. Ef það hefði verið postulín þarna þá hefði ég verið eins og fíll í postulínsbúð.

Ha, ha, ha svo var kennarinn svo bjartsýnn að segja að maður gæti æft sig heima fyrir næsta tíma. Bíddu nú við þetta gekk svo hratt fyrir sig að maður man ekki einu sinni neitt af þessum lögum sem við vorum að læra dansana við. Ég hugga mig þó við að þegar við vorum að bíða eftir að námskeiðið byrjaði þá var fólk að tala saman um fyrsta tímann, þennan sem ég komst ekki í og nýliðarnir voru á einu máli um það að enginn myndi neitt úr tímanum. Þessir lengra komnu hugguðu svo með því að þetta kæmi allt smám saman og á það ætla ég að treysta.

Ég skil þó ekki alveg af hverju það þarf að taka svona marga dansa fyrir í einu. Það er farið í sporin og síðan dansað við lagið og svo er farið í að kenna næstu spor við næsta lag. Það væri mikill munur að heyra lagið nokkrum sinnum og fá að dansa við það þangað til maður hefur lært nokkurn veginn sporin og lagið. Það virðist nefnilega vera svo með línudansinn að það er búinn til nýr dans við hvert einstakt lag svo maður notar þetta ekki eins og aðra danskunnáttu við ýmis lög.

En vitið þið bara hvað, þrátt fyrir allt, þá var þetta svo skemmtilegt og ég hlakka til að mæta í næsta tíma. krossa bara fingur (alls ekki fætur) og vona það besta.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Fíll í postulínsbúð.

  1. Svanfríður says:

    Dansi dansi dúkkan mín, dæmalaust er stúlkan fín…..

  2. Stefa says:

    Æfingin skapar meistarann
    Elsku Ragna þetta líst mér stórvel á!

    Línudansinn er bara hreint út sagt alveg hrikalega skemmtilegur – og jú víst er satt að æfingin skapar meistarann. Mér finnst alltaf best þegar maður er að læra nýjan línudans að vera staðsett í miðjum hópnum því þá er alltaf einhver fyrir framan mann til að fylgjast með.

    Annars efast ég ekki um að eftir nokkra tíma verður þú heldur betur orðin sleip á svellinu og svei mér þá ef ég sé þig ekki bara fyrir mér í kögurskyrtu, kúrekastígvélum og með flottan hatt til að toppa múnderinguna 😀

    Gangi þér vel og bestu kveðjur,
    Þín Stefa

  3. Linda says:

    Mikið skil ég þig í sambandi við að ná ekki öllum sporunum um hæl.. Það er undarlegt að lofa fólki ekki að taka nokkra dansa með nýjum sporunum, til að vera viss um að ná þeim en ekki vera að flækjufótast þetta..

    En ég hef fulla trú á þér, þó hefði verið rosalega gaman að vera fluga á vegg í tímanum.. thíhíhí..

    Gangi þér rosa vel dans, dans, línudansinum..

  4. Guðlaug Hestnes says:

    dans
    Prófaðu rauðan hálsklút, hatt og stígvéli. Mér er sagt að allt fáist með því. Hljómar eins og þegar ér er að reyna að halda í við Færeyingana í þeirra Ólafi liljurós! Njóttu, fimbulfætur verða brátt fimir.

Skildu eftir svar