Myrkvaðir dagar og minningar.

Ég var hálf skúffuð yfir því  að við í Árborg skyldum engan þátt taka í myrkvuninni í gærkveldi. Það var ekki alveg skýjað hérna svo hugsanlega hefðum við séð eina og eina stjörnu á himni. En þó við hefðum ekki séð stjörnurnar þá er alltaf einhver sjarmi yfir því þegar allt myrkvast.

Það rifjast upp fyrir mér rafmagnsleysið hérna á árunum áður. Þá var maður reyndar ekki svo heppinn að það væri tilkynnt fyrirfram og oftar en ekki var verið að elda eða átti að fara að elda, jafnvel jólamatinn, því oft varð svo mikið álag þá að rafmagnið datt út.
Eldspítur og kerti var geymt á ákveðnum stað svo auðvelt væri að finna það í slíkum tilfellum og svo varð bara að þreyfa sig áfram í myrkrinu til þess að finna það.

Það var eitthvað svo sérstakt við þessar stundir þegar allt slokknaði, allir hættu því sem þeir voru að gera og söfnuðust saman í kringum kertaljósin. Oft var þetta þegar veður var vont á vetrum og þá var verið að rýna út í myrkrið til þess að sjá hvort hægt væri að sjá nokkurn á ferli og sjá ljóstýrurnar út um gluggana í kring.

Einu sinni man ég þó eftir að ég var verulega hrædd en þá hef ég líklega verið svona ellefu ára og var að koma gangandi heim frá vinkonu minni sem átti heima úti í Hálogalandshverfi. Ég var sem betur fer búin að stytta mér leið yfir túnin og skurðina þar sem nú eru Álfheimarnir og Laugardalurinn og var að komast upp á Langholtsveginn þar sem ég sá eitt og eitt bílljós og svo lét ég hendina renna eftir girðingunum og vissi þannig að ég var á réttri leið því girðingarnar voru mismunandi og þar sem þetta var leiðin í skólann þá þekkti maður hvaða girðing var hvar.

En manni minn, allar þær svakalegustu drauga og glæpasögur sem ég hafði heyrt rifjuðust þarna upp fyrir mér.  Á þessum tíma var t.d. verið að lesa í útvarpi framhaldssöguna "Hver er Gregorí?" og á þessari stundu var ég a.m.k. alveg viss um hvar Gregorí var  því hann hlaut að vera einhvers staðar þarna í myrkrinu.

Það var lítil stúlka með mikinn hjartslátt sem skreiddist á endanum inn til mömmu og pabba sem biðu óróleg og höfðu oft verið að kíkja út  í myrkrið  til að athuga hvort dóttirin, sem var ein á heimleið sæist vera að koma. 

Hvílík tilfinning sem það var svo að hjúfra sig í fangið á foreldrum sínum og finna alla hræðslu hverfa og unaðstilfinningu leika um sig allan.

——– 

Já svona er nú þetta,  þó ég fengi ekki að taka þátt í rafmagnsleysinu þá gerði ég það samt á minn hátt því í allri þessari umræðu fór hugurinn af stað og ég mundi eftir þessu atviki sem ekki hefur skotið upp í kollinn á mér í marga áratugi.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Myrkvaðir dagar og minningar.

  1. Svanfríður says:

    Foreldrafaðmurinn er svo góður.

  2. Linda says:

    Það voru svo skemmtilegir tímarnir þegar rafmagnið fór af í vondum veðrum.. Alveg sérstakt andrúmsloft sem flæddi á heimilum..

    Ég get alveg ímyndað mér litlu stúlkuna á leiðinni heim, því sjálf sá ég drauga í hverju horni þegar rafmagnið fór af.. meira að segja þurfti ég fylgd á salernið heima ef svo bar undir..

    Gott að heyra að engin slys urðu á fólki í óhappinu sem þú lentir í.. þó þetta sé bölvað og allt það, þá er sem betur fer hægt að lappa upp á bílinn..

  3. Þórunn says:

    Myrkur
    Ég er ekki alveg með á nótunum þegar talað er um að myrkva stór-Reykjavíkursvæðið, er virkilega hægt að fá yfirvöld til að taka rafmagnið af svo stóru svæði, aðeins til að auglýsa kvikmyndahátíð? Ég var líka hrædd við myrkrið og hljóp oft hratt heim frá vinkonu minni þegar komið var myrkur, oftar en ekki heyrði ég fótatak á eftir mér en það var auðvitað bara bergmál af eigin fótataki.

  4. Jói says:

    Það var slökkt á ljósastaurum. Rafmagn var ekki tekið af.

  5. Þórunn says:

    Misskilningur
    Takk fyrir að leiðrétta misskilning minn Jói. Ég hélt að rafmagnið hefði verið tekið alveg af en sá svo myndir sem teknar voru á meðan slökkt var á götulýsingu og las svarið þitt. Svona getur ein fjöður orðið að 10 hænum.

Skildu eftir svar