Saumaklúbbur.

Klukkan er að verða eitt eftir miðnætti en líklega hef ég drukkið of mikið kaffi í kvöld því ég er ekki vitund syfjuð.  Fyrsti saumaklúbbur vetrarins var í kvöld. Já það var ákveðið þegar ég flutti á Selfoss að ég skyldi hafa fyrsta saumaklúbb vetrarins og þann síðasta að vorinu svona til þess að öruggt væri að enginn lenti í hálku eða snjó. Ég reyni svo að sigla milli skers og báru þegar ég þarf að fara til Reykjavíkur í hina klúbbana. Ég gisti þá bara í höfuðborginni ef eitthvað er að veðri.  Við komumst að ægilegri staðreynd. Við eigum 40 ára saumaklúbbsafmæli næsta haust. Það þýðir nefnilega ekki nema eitt. – VIÐ ERUM AÐ VERÐA GAMLAR -. En mikið er nú samt gaman að hafa verið með sömu konunum í saumaklúbb í svona mörg ár án þess að nokkurn tíman bæri skugga á. Það hafa frá upphafi tvær hætt í klúbbnum. Báðar höfðu til þess gilda ástæðu. Önnur fluttist fljótlega eftir stofnun klúbbsins norður í land. Hin flutti til Bandaríkjanna en hún er nú samt búin að koma í nokkra klúbba. Í fyrra hringdi hún og spurði hvenær væri saumaklúbbur hjá okkur því hún ætlaði að skreppa til Íslands til þess að vera með okkur í einum svona alvöru saumaklúbb með kökum og alles. Hún stóð við það. Nú er spurningin hvort við leggjum í að fara til hennar á 40 ára afmælinu okkar. Hún býr upp undir Canada og það er ansi mikið og flókið ferðalag.  En allavega þurfum við nú eitthvað að gera skemmtilegt á 40 ára afmælinu.


Veðrið hefur verið eins yndislega fallegt í dag og það var ömurlegt um helgina. Ég sá að Edda systir og Jón voru komin út að mála hjá sér pallinn í dag.  Ég á eftir að klára smávegis hjá mér. nú vona ég bara að veðrið haldið áfram svona gott svo það sé hægt að klára að ganga frá í garðinum o.fl. fyrir veturinn. Ég er með miklar vangaveltur hvernig ég geng frá Cyprusinum og stórri rós sem ég hef verið með í potti á pallinum í sumar. Vonandi fæ ég einhversstaðar góð ráð til þess að halda í þessu lífinu í vetur.


Ég var að skoða vefinn hennar Sigurrósar og sé að hún hefur fengið vefverðlaun   Alltaf gaman þegar ungarnir manns eru að afreka eitthvað.


Jæja, ég er nú ekki frá því að ég sé að verða svolítið syfjuð enda klukkan orðin korter yfir eitt. Læt þessar vangaveltur duga í þetta sinn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar