Tengdaforeldraheimsóknir.

Já það má nú eiginlega kalla þessa viku tengdaforeldraviku því á mánudaginn kom Jens tengdapabbi Sigurrósar í heimsókn en hann hefur verið á NLFI í Hveragerði um tíma og vildi líta inn áður en hann færi aftur í bæinn. Við Jens höfum alltaf um nóg að spjalla og ekki spillir að á næsta ári eigum við í vændum sameiginlegt verkefni, en meira um það síðar. Ég var ekki heima þegar Jens kom en Haukur reddaði auðvitað málunum og snaraði sér í pönnukökubakstur eins og honum er einum lagið, svo ég settist bara beint að kaffiborðinu með gestinum þegar ég kom heim og borðaði rjúkandi pönnukökur.

Í gær komu svo þau heiðurshjónin Magnús og Ragna tengdaforeldrar Guðbjargar, en þau hafa verið á ferð hér sunnan heiða þessa viku en halda aftur til Akureyrar á morgun. Það var gaman að fá tækifæri til að fá þau, ásamt fjölskyldunni í Grundartjörninni, í mat í gærkveldi og við áttum virkilega skemmtilega og góða stund saman. Ég vona að þau lendi ekki í miklu vetrarveðri þegar þau aka aftur norður því nú virðist vetur konungur vera farinn að gera sig breiðan á norðlenskum heiðum.

Ég held að fátt jafnist á við að fá góða gesti í heimsókn. Ég nýt þess að minnsta kosti.

————————————

Í morgun fórum við Guðbjörg og Ragnar litli í Reykjavíkurferð, þetta var nú ekki löng reisa því við vorum komin aftur um hádegi til þess að sækja börnin í skólann. Tilgangur ferðarinnar var að ég þurfti að láta skera af mér dularfullan fæðingarblett sem settur var í glas og lagður inn á rannsóknarstofu. Svo var annar frystur. Ekki hef ég nú neinar áhyggjur af því sem kemur út úr þessu því hún Kristín er svo góður doktor að hún reddar því sem þarf að gera ef eitthvað þarf að gera meira.

Síðan skruppum við inn í Kringlu – já það fór þó ekki svo að ég þyrfti ekki að fara í Kringluna. Erindið var að kaupa stígvél á Odd ömmustubb en það merkilega gerðist að við komum stígvélalausar heim. Hann hafði sagt mömmu sinni að hann vildi SKO EKKI smábarnastígvél en við fundum bara ekkert annað, svo nú verður að bera það undir unga manninn hvað skuli til bragðs taka.

Haukur var að fara í bæinn áðan í nýja vinnusyrpu og ég er farin að hlakka mikið til helgarinnar. Þetta hljómar auðvitað þannig að ég hlakki sérstaklega mikið til helgarinnar af því Haukur sé farinn að vinna en það er nú ekki svo. Hinsvegar ætlar Sigurrós að koma og vera hjá mér um helgina og við ætlum að dúllast við að búa til jólakort og gera eitthvað fleira skemmtilegt.

Ætli ég hætti ekki núna og kíki á síðustu mínúturnar í leik Svía og Íslendinga í boltanum. Ég lagði ekki í að horfa á allan leikinn því ég æsi mig upp úr öllu valdi yfir svona leikjum – sérstaklega þó handboltaleikjum.

Ég kveð ykkur í bili glöð og ánægð með enn fleiri góða daga í lífsins farteski.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Tengdaforeldraheimsóknir.

  1. afi says:

    Mörg hornin
    Þú hefur margt á könnunni og í mörg horn að líta, þessa dagana. Þá er ekki ónýtt að hafa hjálparhellu sem bakar pönnsur í gríð og erg.

  2. Linda says:

    Það er ekki ónýtt að koma heim í rjúkandi pönnukökur eftir að maðurinn hefur staðið sveittur við eldavélina.. Líst mér vel á svoleiðis hlutverkaskipti..
    Það er nú ekki skrítið að það er alltaf allt fullt af lífi í kringum þig þar sem þú og þið bæði eruð algerir höfðingjar heim að sækja..

    Farðu vel með þig Ragna mín..

  3. Anna Sigga says:

    Gaman þegar góðir gestir kíkja inn.
    Já, það er örugglega alltaf gaman að fá gesti og heppin varstu að vera ekki heima til að byrja með ;), geta bara sest beint að kaffiborðinu og borðað ilmandi pönnsur. Vonandi kemur ekkert óeðlilegt úr blettaræktuninni. Það var gott að þú lést taka blettinn.
    Bestu kveðjur og farðu vel með þig Ragna mín!ég mun hugsa til ykkar mæðgna næstu helgi. Það er fátt skemmtilegra en að föndra jólakort saman!

  4. Sigrún says:

    Þú varst nú bara heppin að horfa ekki á leikinn! Mæðgnahelgin hljómar spennandi og njótið hennar vel.

  5. Svanfríður says:

    Á svona mann líst mér vel á og því máttu skila til Hauks.

  6. Gurrý says:

    Ekkert eins skemmtilegt og að ganga í bæinn og uppgötva það að aðrir hugsa til manns og taka til hendinni, dásamlegt alveg. Já, alla bletti í burt segi ég líka..gott að vera búin að taka svoleiðis ákvörðun. Aaaa ég sakna mömmu þegar ég sé að þið mæðgur ætlið að verja tíma saman um helgina, hafið það gott 🙂

Skildu eftir svar