Mæðgnahelgi – jólakortagerð.

Þá er Sigurrós komin í rútuna með allt sitt hafurtask á leið heim úr helgarleyfinu á Selfossi en ég er komin aftur heim í Sóltúnið þar sem allt í einu er eitthvað svo tómlegt eftir góðan félagsskap um helgina.

Á föstudaginn ákvað ég að fara nú bara í Kópavoginn og sækja Sigurrós og allt dótið sem hún var með til jólakortagerðarinnar. Við komum aðeins við í "Litur og Föndur" áður en við fórum austur og kíktum á stimpla, litaduft og fleira. Það er svo sem nóg til en það er ótrúlegt hvað það er allt dýrt í þessa tegund kortagerðar. Ég freistaðist samt til að kaupa mér einn nýjan stimpil en læt svo bara þessa gömlu duga. Ég á ekki von á því að fólk muni hvaða myndir hafa verið á jólakortunum sem það hefur fengið frá mér áður svo ég læt bara ráðast hver fær hvað núna.
Ég býst ekki við því að það séu margir eins og hann Haukur, en hann á öll jólakort sem hann hefur fengið um dagana, alveg frá því hann var smástrákur.

Ég má til með að sýna ykkur hvað himininn var
fallegur síðdegis á föstudaginn þegar við komum austur.

fegurd.jpg

Við Sigurrós þjófstörtuðum aðeins og hófum kortagerðina á föstudagskvöldið en fórum svo til Guðbjargar með allt dótið í gær og höfðum svona mæðgnadag. Guðbjörg var að búa til svo flotta jólasveina en við Sigurrós vorum í kortunum. Nafni minn hjalaði svo í kringum okkur og Magnús Már tók sér frí frá verkefnum sem hann var að vinna við og bakaði handa okkur vöfflur og hitaði kaffi. Alveg rosalega notalegt allt saman.

í gærkvöldi bauð Magnús Már Guðbjörgu út að borða en við Sigurrós fengum litla prinsinn til okkar í Sóltúnið þar sem hann undi sér vel þangað til þau komu og sóttu hann.

Maður er alltaf að verða mannalegri og mannalegri
og nú á maður sér sæti við eldhúsborðið hjá ömmu.

prinsinn1.jpg

En allt tekur enda og nú er Sigurrós sem sagt í rútunni á leið heim aftur, í þoku og ausandi rigningu. Guðbjörg, Magnús Már og Ragnar eru að bíða eftir því að Karlotta og Oddur komi heim frá pabba sínum, Haukur er í vinnunni í Straumsvík og amma í Sóltúninu sest kannski aftur og bætir við nokkrum kortum núna þegar hún er búin að skrifa helgarpistilinn sinn.

Svona lítur nú stofuborðið mitt út í augnablikinu og á sjálfsagt
eftir að gera næstu daga því aðeins eru komin nokkur kort og mörg eftir.

kortagerd.jpg

Við vorum svo uppteknar í föndrinu í gær að ég bara gleymdi að taka myndir hjá Guðbjörgu þrátt fyrir að hafa sérstaklega sett niður myndavélina til að taka nú heimildarmyndir. Þið sjáið bara hvað það hefur verið gaman – ekki oft sem gleymist að taka myndir á þessum bæ.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Mæðgnahelgi – jólakortagerð.

  1. Rakel says:

    Get ekki staðist að leggja orð í belg! Rata stundum inn á þitt blogg (þegar Sigurrós samkennari minn hefur verið löt að skrifa)…og hef komist að því að það er sko engin tilviljun að dóttir þín er svona skemmtileg og jákvæð…..hún hefur það sem sagt frá þér! Vonum bara að Linda frænka lesi þetta ekki…!
    Takk fyrir að sýna okkur allar þessar fallegu myndir!
    Kveðja, Rakel.

  2. Ragna says:

    Allir velkomnir hér og gaman þegar vinkonur Sigurrósar koma í heimsókn. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af Lindu mágkonu því ég held hún lesi aldrei þessa síðu – Nú ef hún gerir það þá verður hún bara að horfast í augu við sannleikann 🙂

  3. Svanfríður says:

    Það er alltaf skemmtilegt að fá persónuleg jólakort, annaðhvort heimatilbúin, með myndum eða þessháttar. Ég hlakka alltaf til að lesa jólakortin á aðfangadagskvöld, ég opna þau aldrei fyrr en þá og er mikill hátíðleiki yfir lestrinum.Þú gleður eflaust marga með þínum kortum:)

  4. afi says:

    Aðstoðarmaður
    Mikill er nú myndarskapurinn á þessum bæ. Ekki er að undra að afraksturinn sé mikill þegar þið hafið annan eins hjálparsvein.

  5. Linda says:

    Það er nú meiri dugnaðurinn hjá ykkur mæðgum..
    Árangurinn lætur ekki á sér standa, stórglæsileg jólakort..

  6. Stefa says:

    Blessuð jólakortin
    Hæhæ,

    þið eruð svo duglegar mæðgurnar að það hálfa væri nóg! Jólakortin er eitthvað sem ég geri alltaf á síðustu stundu og hafa hálfpartinn orðið að nýárskortum síðustu ár…hahha.

    En ég kannast við þetta með að geyma jólakortin eins og Haukur gerir. Mér finnst nefnilega ekkert eins erfitt og að henda kortum sem mikið hefur verið lagt í að búa til og enn verra ef textinn inni í þeim er persónulegur og skemmtilegur. Þannig að ég hef geymt nánast öll kort (já meira að segja líka afmæliskort) sem ég hef fengið um ævina og held að Rúnari þyki orðið nóg komið af þessari geymslu-áráttu hjá mér.

    Bestu kveðjur,
    Stefa

  7. Edda says:

    jólakort
    Ja hérna Didda mín,
    „líkt“ höfumst við að, ég var alla helgina að hamast við jólakortagerð, reyndar notaðist ég meira við straujárnið á kortin mín en stimpla, en ég tek undir með þér, maður gleymir sér algjörlega við þessa iðju, þetta er svo skemmtilegt. Við höfum semsagt báðar komist snemma í jólastuðið þetta árið. Sjáumst hressar á morgun kæra vinkona.
    þín Edda GG

Skildu eftir svar