Lífið er línudans!

Jæja þá er nú helgin löngu liðin og ekkert bloggað meira, það er nú meira hvað maður þykist vera upptekinn. Annars er það nú svo að stundum er alveg nóg um að vera en samt er maður alveg tómur þegar sest er við tölvuna.

Við systur fórum að vanda í línudansinn á mánudagskvöldið og nú var bara rosalega gaman og við gátum tekið þátt í öllu og þegar við fórum heim fannst okkur að nú kynnum við þetta allt. Við höfðum keypt disk með þessum 15 lögum sem dansað er eftir og þegar við komum heim þá dró ég Eddu aðeins inn með mér og við ætluðum að dansa þetta yfir svona til að sanna fyrir okkur að nú værum við orðnar að svo miklum snillingum að við gætum farið að panta kúrekahattana og stígvélin frá Nashwille og þyrftum kannski ekkert á kennaranum að halda meira.
Haukur var kominn austur og við ætluðum að sýna honum herlegheitin. En þegar fyrsta lagið heyrðist þá var þetta ekki eins sorterað í fótunum á okkur og okkur fannst í huganum og við mundum nú ekki alveg hvort við byrjuðum á að stíga fram í þessu lagi eða var þetta lagið sem við áttum að byrja á að stíga til hliðar, eða var þetta kannski lagið sem reyndi svo mikið á vinstri mjöðmina þegar við byrjuðum á að standa á vinsti fæti og vingsa þeim hægri fram fyrir og skipta svo yfir og snúa – allt mjög hratt.
Humm, það er greinilegt fyrir það fyrsta, að við erum ennþá bara góðar þegar kennarinn kemur okkur af stað og í öðru lagi er líklega best að sætta sig við að það sé ekki tímabært að panta að svo komnu máli hattana, stígvélin og flottu skyrturnar með kögrinu, en halda áfram að mæta í gömlu bolunum og þeim þægilegustu skóm sem maður finnur í skóskápnum og trúa því sem kennarinn segir, að fyrstu tímarnir séu erfiðir en svo komi þetta smám saman með æfingunni.

Já svona gengur nú lífið fyrir sig hjá systrunum á Selfossi þessa dagana.

Þegar ég settist við tölvuna þá ætlaði ég að skrifa um allt annað en þetta, en útkoman varð sem sé þessi og orð skulu standa svo ég breyti engu.

Njótum svefns og hvíldar í nótt og megi góður dagur bíða okkar á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Lífið er línudans!

  1. Linda says:

    Hver segir svo lífið sé línudans?? eða dans á rósum??
    Er sjálf alger klaufi og lýt út eins og spýtukarl með nagla í hælunum á dansgólfinu.. Langt í frá að vera fögur sjón.

Skildu eftir svar