Haustverkin.

Haukur er búinn að vera hérna síðan á þriðjudag og hvílíkt sem við erum búin að vera dugleg að gera allt klárt fyrir veturinn. Við kláruðum að bera á grindurnar í kringum pallinn. Síðan bar Haukur á bekkinn og blómakassana. Ég þvoði alla glugga og svo klikkti Haukur út með því í gær að bera á allar þrjár útihurðirnar. Nú sitjum við bara og horfum hvert á annað 🙂


Það var óskaplega fallegt útsýnið yfir á Hellisheiðina í gær. Það var eins og að horfa á jökul þegar sólin skein á snjóhvíta flallatoppana. Þetta var svo einstaklega fallegt því það er jú allt grænt hér i kring ennþá og svo komu þessir hvítu fjallatoppar í fjarskanum. Já það er alltaf jafn yndislegt á morgnanna þegar maður vaknar að rölta á náttfötunum út að að glugga í stofunni og líta til fjalla. Ég er að komast á þá skoðun að ég hafi líklega átt að vera sveitakona. Búa á fallegum stað með fjöllum og lækjum, baka mikið af kökum og fá mikið af gestum. Dýrin já, ég hefði líklega þurft að hafa einhvern annan til að hugsa um þau. Ég hef á tilfinningunni að ég hefði ekkert kunnað á það.   En þetta eru jú bara hugleiðingar „miðaldra“ konu sem hefur tekið fyrsta skrefið af mölinni og líkar það svo vel.


Ég tók mér það bessaleyfi að sækja Karlottu í skólann í dag því á föstudögum fer hún ekki í skóladagvistina. Við röltum svo upp í skóla til Guðbjargar til að láta vita að amma hefði rænt prinsessunni. Síðan fórum við í Sóltúnið. Hún fór að segja okkur að hún hefði verið í danstíma í skólanum og við dönsuðum svoldið saman. Það kveikti auðvitað í afa sem fór að spila á harmonikkuna. 


Þegr Guðbjörg var búin að sækja Karlottu þá skruppum við Haukur niður á Stokkseyri til að hitta Hullu og krakkana. Þær Hulla og Dana María voru bara heima þegar við komum og strákarnir komu ekki fyrr en við vorum að fara en við náðum þó aðeins að hitta þá.


Í kvöld höfðum við svo kosy kvöld. Elduðum góða steik, borðuðum við kertaljós inni í stofu og drukkum rauðvín með matnum. Fínt „slútt“ á þessu vaktafríi hjá Hauki sem snýr aftur í puðið hjá Ísal (Alcan) á morgun.


Ég er hinsvegar að spá í að fá Karlottu og Odd Vilberg til mín á morgun og hafa þau yfir nótt. Ég á eftir að spyrja þau hvort þau séu í stuði að fá að sofa hjá ömmu. Það kemur í ljós á morgun.


 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar