Hvalir eða ekki hvalir – það er nú stóra spurningin.

Sjálfsagt á maður ekki að skrifa eða tala um það sem maður hefur ekkert vit á. En alltaf gjammar maður samt, þó oftast eigi maður frekar að þegja og hlusta á þá sem vitið hafa meira. Þannig er nú ástatt fyrir mér í sambandi við hvalveiðimálið.

Það er nefnilega svo að ég elska hvalkjöt, og á þeim tíma sem hvalveiðar voru stundaðar borðaði maður það oft. Svo kom að þessu hvalveiðibanni og þá varð ég auðvitað rosalega súr yfir því að nú væri bannað að veiða uppáhaldsmatinn minn – talandi um súr þá hefur líka vantað algerlega súra hvalinn.

Nú stóð ég alltaf í þeirri trú að hvalveiðar væru eitthvað sem kæmi þjóðarbúskapnum okkar til góða og við hefðum almennt tekjur af þessum veiðum og af útflutningi á kjötinu og hef því stutt heilshugar að Íslendingar fái að veiða hvali. Ég hélt líka að hvalir, ef þeir fjölguðu sér mikið, myndu skófla upp í sig allt of miklu af fiskinum sem við gætum annars veitt. Mér var nefnilega innprentað það strax í bernsku að fiskveiðar væru okkar aðal atvinnuvegur og því þyrfti að vernda hann sem mest.

Nú renna hinsvegar á mig tvær grímur og ég er nánast komin með Ragnars Reykáss syndromið og snýst í hringi með þetta allt saman.
Mér hefur fundist sjálfsagt að leyfa takmarkaðar veiðar svo þessir hvalastofnar verði ekki allt of stórir. Svo langar mig auðvitað rosalega til þess að geta keypt hvalkjöt alltaf þegar mig langar í það – þetta er sem sé afstaða eigingirni minnar.

En, svo skulum við bara átta okkur á því, að atvinnuvegir þjóðarinnar eru ekki þeir sömu og þeir voru um miðja síðustu öld og ferðaþjónusta blómstrar nú hér á landi og mikill áhugi og þátttaka er í hvalaskoðunarferðum og ekki viljum við eyðileggja það.
Svo er líka spurning hvort þetta verður eitthvað ábatasamt fyrir þjóðfélagið því markaðir eru sagðir litlir sem engir og hvað er þá unnið við þetta. Er kannski bara um að ræða draum Kristjáns Loftssonar, sem hefur í öll þessi ár greitt hafnargjöld og haldið við gömlu hvalskipunum ásamt því að halda í hvalstöðina í Hvalfirðinum í þeirri von að einn góðan veðurdag verði allt aftur eins og áður var og Hvalstöðin lifni við og Hvalur h.f. verði aftur eins og á tímum föður hans.

Því meira sem ég hugsa um þetta þá sætti ég mig frekar við að vera án steikta hvalkjötsins með miklum lauk og brúnni sósu (namm, namm ) og súra hvalsins á Þorrablótunum, en hallast frekar að því að leggja þessar veiðar alveg af áður en stærri skaði skeður.

Þetta er nú það sem Ragna Reykás leggur til málanna en á morgun gæti hún verið komin annan hring í málinu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Hvalir eða ekki hvalir – það er nú stóra spurningin.

  1. Nafnlaust says:

    Hvað skal nú?
    Það eru margar hliðar á þessu máli, sem mörgum öðrum. Þótt afi sé ekki beint á móti hvalveiðum er hann í miklum vafa. afi veltir fyrir sér hvort þetta snúist um þjóðrembu? En hvað um selina? Þeir éta aldeilis þó nokkuð.

  2. Ragna says:

    Fleiri í hringsóli ?
    Fleiri í hringsóli ?
    Já satt er það afi að selirnir éta líka mikinn fisk. Mér heyrist að þú afi sæll sért líka í svona hringsóli með þetta mál eins og ég.
    Ætli þú hafir ekki hitt naglan á höfuðið með því að hér sé einmitt þjóðremban á ferð. Ég tel það ekki fjarri lagi

  3. Rakel says:

    Ef ég hef skilið rétt þá erum við að tala um 9 hvali…..og mikið írafár og hótanir um viðskiptabönn!!

  4. Linda says:

    Ég er á sömu blaðsíðu og þið hin, hef litla sem enga vitneskju um hvalveiðarnar og veit ekki hvort ég á að vera með eða á móti..
    En hvað sem því viðkemur, þá er hvalkjöt gott með brúnni sósu og lauk.. 🙂

Skildu eftir svar