Gluggaveður- heilabrot – lausn mála.

Í gær var ferlega hvasst og kalt en sólin skein og því alveg yndælis gluggaveður. Hvað gerir maður svo í gluggaveðri? Auðvitað tilvalið þegar maður býr nú svo að segja í sveitinni að taka smá rúnt á bílnum. Hondan hans Hauks varð fyrir valinu og við fórum í óvissuferð. Við ætluðum kannski til Þingvalla og beygðum því inn í Þrastaskóginn í þeim tilgangi. Þegar við komum að Ljósafossvirkjuninni datt okkur hinsvegar í hug að fara þar yfir og að Úlfljótsvatni og kannski inn í Grafninginn. Nú skuluð þið koma með okkur í smá rúnt.

Það fyrsta sem vakti athygli mína var þetta stóra listaverk
á túninu á Ljósafossi, rétt ofan við brúna sem liggur yfir í Grafninginn.

biltur1jpg.jpg

Hér sjáum við svo brúna.

biltur2.jpg

Svo komum við að Úlfljótsvatni og skoðuðum þar aðstöðu skátanna og fórum niður að kirkjunni. Það er einstaklega skemmtileg staðsetningin á þessari kirkju sem stendur þarna keik á klettabrúninni og líklega eru þau ófá ungmennin sem hafa verið í sumarbúðum á Úlfljótsvatni og fengið í þessari kirkju trúfræðslu sem enn kemur þeim að góðu gagni.

biltur3.jpg

Svo komum við nokkru vestar að lítilli vík þar sem þessi fallegi pollur fangaði augu mín. Hann var svo sléttur og fallegur og það syntu tveir fuglar á vatninu þegar við ókum niður að því. Myndavélin var óðara gerð klár, en þetta fuglapar langaði bara ekkert til að láta mynda sig og þau voru snögg að fljúga í burtu áður en ég náði að smella af. Myndina tók ég samt því mér fannst svo mikil andstæða að sjá þennan lygna poll og svo úfið Þingvallavatnið sem náði nánast alveg að pollinum.

Það má eiginlega segja að þetta sé svona týpísk gluggaveðursmynd því
það var rosalega kalt þarna og ég vafði treflinum fast um hálsinn á mér.

biltur4.jpg

Við fórum nú ekkert langt inn með Grafningnum því þetta var bara svona smá bíltúr. Við snerum svo við og ókum fram hjá Torfastöðum og aftur heim á Selfoss og mikið var gott að fá sér sterkan og góðan kaffisopa í eldhúsinu.

Í dag er svo alveg himneskt veður og ekki þetta hvassviðri sem verið hefur. Haukur var að fara í bæinn í næstu vinnusyrpu og ég er spá í hvað ég ætli að gera á þessum fallega degi. Ég veit alveg hvað ég ætti að gera, því sólargeislarnir sýndu mér verkefnið áðan – nefnilega að þvo hjá mér gluggana, en það veit Guð að mig langar bara ekkert til þess að gera það núna og því leita ég nú í hugskoti mínu sem óð sé, að einhverri nothæfri afsökun til þess að gera eitthvað allt annað. Ég ætti kannski bara að horfa á tölvuskjáinn og sleppa því að láta aðra skjái vera að hrella mig – eða læðast bara út í göngutúr og þykjast ekki taka eftir neinu.

Þetta eru mikil heilabrot.

————————

Framhald:
Það sést nú alltaf í gegn hjá manni þegar plata á aðra en það er alveg snilld hvað maður getur platað sjálfan sig.

Heilabrotum mínum í leit að afsökun til þess að finna mér eitthvað annað að gera í góða veðrinu en að þvo hjá mér gluggana lauk með frábærri lausn. Ég ákvað að vera ekkert að þessu gluggastússi og skreppa í Nóatúni og kaupa ýmislegt sem mig vantaði. Á leiðinni þangað fékk ég óstjórnlega löngun til þess að kaupa mér einhverja góða tertusneið í bakaríinu sem er svo skemmtilega staðsett í einu horninu í Nóatúnsbúðinni. Ég sló því upp veislu með sjálfri mér þegar ég kom heim, setti kántrýdiskinn í tækið og tertuna á kökudiskinn, lagaði gott kaffi og naut þess svo að borða súkkulaðiperutertuna sem ég keypti mér – alveg unaðslegt.

Svo kom framhaldið skemmtilega á óvart. Ég fékk svo mikla orku af tertusneiðinni að ég dreif mig í galla, setti sápuvatn í fötu, tók tusku og sköfu og fór út að þvo gluggana og síðan að innan og meira en það ég þvoði líka eldhúsgardínurnar og setti þær aftur fyrir gluggann. Ég á reyndar eftir að taka norðaustururhliðina hjá mér en það geri ég þegar sólin skín þeim megin – kannski á morgun, hver veit.

Njótið vel helgarinnar hvar sem þið eruð.

fyrsti_vetr.1.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gluggaveður- heilabrot – lausn mála.

  1. Edda systir says:

    gluggaþvottur
    Já það var þetta með gluggaþvott er búin að tala um það í fleiri vikur. Ertu í þjálfun ?

  2. Ja hérna, þetta er þá leyndarmálið og uppskriftin fyrir orku ha? Prófa næst að fá mér eina sneið af vænni hnallþóru næst þegar ég þarf að taka til hendinni. Myndirnar alveg yndislegar og hefðirðu ekki minnst á það sæi ég ekki annað en logn og blíðu og hið fínasta veður..svona eru gluggaveðrin á Íslandi..

Skildu eftir svar