Meiri nóttin!

Já það gekk á ýmsu hjá mér í nótt. Ég vaknaði einhverntíman um miðja nótt í hvílíku svartamyrkri að ég sá ekki handa minna skil. Ég náði nú að þreyfa mig áfram og staulast fram á klósett og ég held meira að segja að ég hafi hitt á réttan stað því það var ekki pollur á gólfinu í morgun. Síðan tók það mig langan tíma að sofna aftur. Loksins hefur það þó tekist því ég vaknaði aftur upp við það að glugginn hrikti allur því það var svo hvasst úti. Ég varð sem sagt að staulast út úr rúminu aftur til að festa gluggann. Loksins náði svo svefninn tökum á mér í annað sinn. En „Adan var ekki lengi í Paradís“ því ég vaknaði upp við það sem ég hélt fyrst að væri vekjaraklukkan en var það ekki. Klukkan var að verða sex. Þegar betur var að gáð virtist þetta háværa píp sem minnti helst á reykskynjara vera einhversstaðar frammi. Þetta var óþolandi. Við nánari athugun var þetta píp í ísskápnum. Ég varð að leita uppi leiðbeiningabókina með honum og þar las ég að ef straumur færi af í það langan tíma að hitastigið breyttist að ráði þá kæmi viðvörunarpíp. Síðan var kennt á hvaða takka ætti að stilla til þess að taka þetta bö…. píp af. Ég náði því loksins af en var þá orðin svo stressuð að ég sofnaði auðvitað ekkert aftur. Ég var líka búin að lofa Oddi Vilberg að koma til mín um áttaleytið því það var frí á leikskólanum hjá honum svo það hefði hvort sem ekki tekið því að fara að reyna að berja sig niður fyrir nokkrar mínútur. Ég tók bara það ráð þegar Oddur var kominn að bjóðast til að horfa með honum á Þumalínu, sem hann þáði með þökkum. Ég hinsvegar notaði tækifærið til að dotta í Lazyboyinum og náði upp nokkrum kröftum. Hvílíkt og annað eins. Ég var bæjarfélaginu ekkert sérlega þakklát fyrir að taka af rafmagnið alla nóttina vegna tenginga. Næst þegar slíkt gerist vil ég vita það með fyrirvara svo ég geti í það minnsta tekið fjárans ísskápinn úr sambandi svo hann veki mann ekki með reykskynjarapípi.


Oddur var hjá mér til klukkan fjögur þegar Guðbjörg kom og sótti hann. Það kom í ljós í morgun að Edda var líka dagmamma í dag því Sigþór hennar Selmu var hjá henni, en þeir Oddur eru á sömu deild í leikskólanum. Við skruppum aðeins yfir í morgun og síðan kom Sigþór til að leika við Odd eftir hádegið. Þeir voru rosalega góðir frændurnir og bara gaman að hafa þá.


Klukkan er nú ekki nema hálf tíu en ég er samt að hugsa um að fara að koma mér í rúmið. Ég finn líka að ég má ekki vera að pikka á tölvuna því ég er allt í einu svo slæm í öxlinni, verð bara að halda handleggnum upp að mér. Ég er ekki einu sinni viss um hvernig ég ætla að fara að því að hátta mig en það kemur bara í ljós. Ég ætla að setja á mig íspoka og taka verkjatöflu. Þetta er svo sem ekkert nýtt en síðan ég hætti að vinna hef ég ekki fengið svona fyrr en núna. Ég hugsa að ég hafi eitthvað ofgert í sundleikfiminni. Hún var með svo miklar axla og handleggjaæfingar síðast. Ég verð að vera orðin góð um helgina því við Haukur erum að fara á árshátíð hjá Ísal/Alcoa og þá verður maður að geta skorið matinn sinn og síðan tjúttað.


Læt þetta duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar