Svarta jólatískan.

Þetta hefur ekkert með fatastíl að gera, en fyrst ég hef ekki náð mér alveg úr nöldurgírnum, þá er líklega best að halda bara tuðinu áfram. Það sem ég ætla að tuða um í dag er ný tíska í jólaskreytingum. Svart skal það vera. Já kolsvart. Svartar slaufur og svört kerti, svartar stjörnur og kúlur, svört jólatré og seríur. Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá þetta fyrst.

Ég var á kvenfélagsfundi í gærkveldi þar sem kynntar voru ýmsar hugmyndir að jólaskrauti. Sú sem kynnti tók það sérstaklega fram að hún hefði ekki komið með neitt í svarta tískulitnum.

Er ekki eitthvað að hjá okkur þegar við erum orðin svo mettuð af velsæld og því að eiga allt sem hugurinn girnist, að það eina sem okkur detti í hug fyrir þessi jól sé að henda öllu þessu gamla góða og breyta yfir í svart þema. í dag er svo flott að hafa þema og nú skal það sem sé vera svart á jólunum.

Hvað er orðið af hátíð ljóss og friðar? Er þetta bara orðið að einhverri keppni um að hafa rétt þema í þeirri jólatísku sem framleiðendur og kaupmenn hafa ákveðið svo kaupa þurfi allt frá grunni í réttum lit.

Nei, má ég þá heldur biðja um gamla góða græna jólatréð með gyltri stjörnu á toppnum og alla vega marglitu skrauti sumu eldgömlu, og ekki síst með fallegum ljósum. Ekkert svart hér takk fyrir.

Á þessu heimili hefur enginn áhuga á að tolla í tískunni. Jólin skulu vera björt og falleg.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Svarta jólatískan.

  1. afa says:

    Gamaldags?
    Nú er það svart maður lifandi. afi hélt að það væri gull og gyllt sem væri jólatískuliturinn í ár. En svona bregðast krosstrén. En gamli íhaldssami jólaskarfurinn heldur sig við gamla lummulega skrautið.

  2. Helgi Jónsson says:

    Lovísa (Lay Low )
    Ég kíki stundum á síðuna hennar Dúddu ( Þórunar í Austurkoti ) í Portúgal,vegna þess ,að við erun bæði Vopnfirðingar að uppruna. Þar er gefin slóð fyrir þá sem vilja hlusta á músíkina hennar Lovísu (Lay Low) á netinu. Ég sá að þú hafðir ekki náð inn vegna þess að þig vantaði aðgangsorð.
    Það þarf ekki aðgangsorð, aðeins þarf að slá inn í leitarstrenginn (Address)
    eftirfarandi.
    http://www.myspace.com/bara lovisa.
    Gangi þér vel Helgi.

  3. Svart! Nei takk
    Þetta er ótrúlegt! Grænt og rautt með fullt af gylltu og silfruðu dóti eins og vanalega takk..það er greinilega verið að troða inn einhverri nýrri tísku til að láta fólk eyða sem mest og nota ekki það gamla..

  4. Sigurrós says:

    Ég sá einmitt svona svartar jólagreinar í Hagkaup í byrjun mánaðarins – en þar sem Halloween var þá nýafstaðið þá hélt ég kannski að starfsfólkið væri að ruglast, þetta væri bara afgangurinn af Halloween-skreytingunum… 😉

  5. Svanfríður says:

    Svart? Á jólum? Það er nú ekki alveg í lagi. Ég er þér sammála, hátíð ljóss og friðar. Jól og tíska finnst mér ekki fara saman og ef það koma auglýsingar um að „endilega kaupa þér limósínu far til kirkju“ eins og maður sá fyrir fermingarnar, þá mótmæli ég og það harðlega!

  6. Þórunn says:

    Svört jól?
    Nú er ég aldeilis hissa, ekki hef ég séð þessa týsku í Portúgal (sem betur fer) ég er hjartanlega sammála þeim sem vilja bjartar, gylltar og glitrandi jólaskreytingar. En ég hefði gaman af að vita hver Helgi Jónsson er sem gefur þér góð ráð við að hlusta á lögin hennar Lovísu. Það væri nú gaman ef hann gæfi sig fram á síðunni minni og segði mér hver hann er, hvort hann er gamall skólabróðir?

  7. Ragna says:

    Þakka þér fyrir hjálpina Helgi. Ef einhver annar ætlar að hlusta þá á lovisa að koma í beinu framhaldi en ekkert bil á milli.

  8. Ragna says:

    Allir sammála.
    Við virðumst öll sammála um að halda okkar hefðbundnu jól. Ég fór í Blómaval í dag og sá þar kolsvarta jólaskreytingu og sá mikið eftir að vera ekki með myndavélina í veskinu. En nóg um það nú höldum við kæru bloggvinir bara áfram með okkar venjulega undirbúning og hundsum alla svarta tísku.

Skildu eftir svar