Fullt að gera um helgina en lasarus í dag.

Já í dag er ég hálfgerður lasarus eftir annasama helgi. Ekkert stóralvarlegt, bara hálsbólga, höfuðverkur, beinverkir og leti. Ég mátti samt til með að setjast aðeins við tölvuna og setja inn smá pistil. Ragnar litli er líka kominn með einhverja pest, þetta ku vera að ganga núna í kuldanum.

Helgin var nokkuð annasöm. Ég skrapp í bæinn á föstudaginn og sótti Sigurrós og bumbubúann, en Sigurrós ætlaði að vera með okkur Guðbjörgu í bakstri um helgina. Á laugardagsmorguninn bjó ég til piparkökudeig til þess að hafa tilbúið til að baka seinni partinn. Strax eftir hádegi fórum við svo í frænkuboð til Dóru, en hún er barnabarn og nafna elstu systur minnar og býr hérna á Selfossi, svo það var ekki um langan veg að fara fyrir okkur Selfosskonur. Það voru allar frænkurnar sem hérlendis búa mættar og það þurfti mikið að spjalla. Um tíma var eins og í fuglabjargi hjá okkur því það fylgir sko engin lognmolla okkur frænkunum. Dóra mín, takk fyrir heimboðið.

Þegar við komum heim á laugardaginn þá var tekið til óspilltra málanna að skera út og baka piparkökurnar. Hugsanlega hef ég flýtt mér of mikið við að búa til deigið um morguninn því þó ég hafi geymt það í plasti þá var svo erfitt að fletja það út og það vildi springa. Ég hlýt að hafa mælt hveitið heldur ríflega og deigið þar af leiðandi orðið of þurrt. Ég veit hinsvegar ekkert ráð til þess að bæta úr slíku eftirá. það er erfitt að eiga við slíkar lagfæringar þegar sýróp, sykur og smjör er soðið saman í potti fyrst og síðan öðru bætt út í. En þetta hafðist nú, eftir að kröftum var beitt við að fletja út og kökurnar komu stórfínar úr ofninum.

Það lá mú meira fyrir en að baka piparkökur og á sunnudagsmorguninn klukkan 11 mættum við mæðgur galvaskar ásamt Karlottu og Oddi til þess að hefja laufabrauðsskurð og bakstur. Haukur fór í Styrk og puðaði þar í tvo tíma eins og hann er vanur þegar hann er hérna fyrir austan. Þegar hann kom úr Styrk var hann órólegur út af veðurspánni, sem sagði að það myndi hvessa og snjóa hér fyrir austan seinni partinn svo hann þorði ekki annað en fara að tygja sig upp úr hádegi til þess að verða ekki veðurtepptur.
Sigurrós , sem hafði ætlað að nota ferðina með Hauki í bæinn þurfti því að taka sig saman í hvelli og fara miklu fyrr en áætlað var. Við höfðum nefnilega heyrt allar snjófréttirnar úr Reykjavík og enginn vildi verða veðurtepptur ef þetta veður væri á leiðinni hingað. Hér hefur hinsvegar ekki komið snjókorn og allt er marautt.

Við Guðbjörg og krakkarnir kláruðum svo að skera út laufabrauðið en Magnús var með Ragnar litla heima því hann var eitthvað svo ergilegur og síðan kom í ljós að hann var orðinn veikur.
Guðbjörg þurfti síðan að fara heim því tengdaforeldrar hennar voru komnir norðan frá Akureyri í stutta heimsókn, svo það smá fækkaði í vinnuhópnum.

Við Karlotta sáum svo um rest, þ.e. að steikja þessar 80 kökur sem við vorum með og ég verð að segja að hún var alveg rosalega dugleg og jafnoki hvers fullorðins sem hefur hjálpað mér við steikinguna. Hún pressaði allar kökurnar þegar þær komu úr pottinum og setti yfir á annað borð í stafla og gerði næstu köku klára fyrir ömmu að setja í pottinn

laufab1.jpg

Hér er svo mynd af Karlottu sem var mjög áhugasöm um þetta allt

laufab2.jpg

Svo er smá sýnishorn af afrakstrinum.

Þessa gerði Guðbjörg
laufab3.jpg

og þessa gerði Karlotta

laufab4.jpg

Annars eru myndirnar komnar í albúm.

Engar myndir eru úr frænkuboðinu. Eitthvað hef ég verið stressuð þegar ég fór þangað því ég gleymdi að taka myndavélina með mér og það gerist nú ekki oft en ég held að Sigurrós hafi verið með myndavél.

——————————————————————

Svo þegar öllu var lokið í gærkvöldi helltist allt i einu þreytan yfir mig og hálssærindin sem ég var búin að finna fyrir í nokkra daga mögnuðust og ég lak niður í Lazyboy og fór að fylgjast með Eddunni og svo í rúmið þar sem ég lá til hádegis í dag. Ekki man ég hvenær það gerðist síðast að ég lægi í rúminu til hádegis, því það gerist nánast aldrei. Verst finnst mér að missa af línudansinum í kvöld því að síðast gekk svo vel.

Ekki fara að vorkenna mér neitt ég verð örugglega orðin stálslegin á morgun eftir letina í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Fullt að gera um helgina en lasarus í dag.

  1. Svanfríður says:

    Veistu Ragna að það hittast svona og skera út laufabrauð er svo skemmtilegt. Þetta hefur verið stundað í minni fjölskyldu í mörg ár og hvað heldurðu? Ég næ þessu í ár því ég verð heima!
    Kaka Guðbjargar er glæsileg, algert listaverk og Karlottu ekki síðri. Dugleg stelpan.

  2. Jólanta says:

    Greinilega góð helgi hjá þér í faðmi þinna nánustu.

    Vonandi nærðu nú fljótt úr þér flensunni! Hafðu það sem allra best.

  3. Þórunn says:

    Mér datt það í hug
    Jæja Ragna mín, nú er ég semsagt farin að þekkja venjur þínar fyrir jólin, mér datt alveg í hug að þessi helgi væri frátekin annað hvort fyrir kökubakstur eða laufabrauðgerð, en að þú værir með þetta allt á dagskránni sömu helgina, það vissi ég ekki. Þú hefur færst heldur mikið í fang, þetta var aðeins of mikið í einu, en það er gott að þú ræður tíma þínum sjálf svo að þú getur verið í rúminu til hádegis ef þú vilt. Það er um að gera að hvíla sig þá verður þú fljót að jafna þig.

  4. afi says:

    Annir
    Dugnaður er þetta og afraksturinn eftir því. Nú er næsta mál á dagskrá að þú náir úr þér lumbrunni. Ekki amarlegt að geta maulað piparkökur á meðan.

  5. Ragna says:

    Eyddi óvart
    Linda mín, ég er alveg miður mín yfir því að ég eyddi óvart því sem þú lagðir í orðabelginn.
    Ég fæ svo mikið „Spam“ daglega í orðabelginn hjá mér sem ég þarf að eyða og áðan smellti ég bara á næsta og næsta og sá svo að ég var búin að setja eyða við færsluna frá þér og gat ekki bjargað því. Sorrrrý.

Skildu eftir svar