Ein í vanda

Ja, nú er úr vöndu að ráða.

Fyrir helgina í frostakaflanum tók ég eftir einhverjum svörtum smákornum í bílskúrnum. Ég sópaði þeim upp en sá svo nokkur slík annarsstaðar daginn eftir. Mig grunaði strax hvað þetta gæti verið og hvaðan það hefði komið því ég hef heyrt fólk hér í kring kvarta yfir að fá inn úr kuldanum litla fjórfætta gesti. Hugsanlega af því við erum svo nálægt ánni og umhverfinu í kringum hana. Við höfum verið svo heppin að hafa ekkert lent í svona gestakomum og höfum því verið alveg róleg og Haukur er oft með skúrinn opinn því hann er svo duglegur að þrífa bílana hérna á planinu hjá okkur. Líklega hefur einum slíkum ferðalang verið kalt hérna fyrir utan og smokrað sér innfyrir dyrnar þegar bílskúrinn hefur verið opinn og sá hinn sami kunnað svo vel við sig í hlýjunni að hann hefur ekkert drifið sig heim til sín aftur.

Ég verð hinsvegar að segja að þessi litli gestur er alls ekki velkominn hér þó það standi á skilti við útidyrnar hjá mér "Velkomin". Þegar Haukur kom austur þá drifum við okkur því í Húsasmiðjuna til að kaupa músagildru. Ég var nú svo einföld að ég hélt að aðeins væri um eina tegund af slíku að ræða en nei, það voru allar sortir og gerðir. Við ákváðum nú að byrja með þetta einfaldasta og ég sagði Hauki að hann yrði að sjá um þetta því svona hefði ég aldrei þurft að meðhöndla á ævi minni.
Ég hugsaði svo ekkert meira um þetta, en í kvöld þá datt mér í hug að athuga hvort eitthvað hefði komið í gildrurnar tvær í skúrnum. Nú er Haukur nefnilega kominn í bæinn og því ekki til taks. Það var ekkert komið í gildrurnar og mér sýndist eitthvað svo lítil þessi tutla sem Haukur hafði sett í hvora gildru um sig, að ég ákvað að setja eitthvað annað sem kannski væri girnilegra. Ég fann paprikuost í ísskápnum og skar af honum tvo bita og fór með þetta inn í bíllskúr og lokaði vandlega úr þvottahúsinu svo enginn hlypi inn í íbúð.

Það eina sem ég vissi um svona gildrur er, að þær smella á bráðina þegar hreyft er við þeim. Ég stóð lengi og starði á þetta músagildrufyrirbæri til að reyna að sjá hvernig þessi búnaður væri og var alveg logandi hrædd um að fá þetta á puttana á mér. Ég tók því sporjárn og pikkaði með því í gildruna og hún small með látum niður og mér brá svo að ég henti bæði sporjárninu og ostbitunum eitthvað út í loftið, sá nú fljótt annan bitann og færði mig um eitt skref til að taka hann upp en áttaði mig þá ekki á staðsetningu hins og hafði stigið ofan á hann í leiðinni og klesst hann í mottuna sem ég stóð á.

Ekki vildi ég nú alveg gefast upp og tók upp gildruna sem nú var vita saklaus og eftir miklar tilfæringar setti ég þennan stóra bita af paprikuostinum í gildruna og fann loksins út hvernig átti að læsa henni aftur og koma henni fyrir. Bara einu sinni small hún á mig meðan ég var að þessu en ég náði að forða puttunum. Nú bíð ég bara milli vonar og ótta eftir því hvort eitthvað gerist.

Um leið og ég vona að músin finnist, þá í hina röndina vona ég að ekkert komi í gildruna fyrr en Haukur er kominn heim aftur því hvað í ósköpunum geri ég ef ég finn dauða mús í gildru? Ekki hendir maður svona í ruslatunnuna hjá sér eða í klósettið? Nei það get ég ekki ímyndað mér. Ég myndi sko alveg standa á gati.

Elsku bestu, ef þið eigið gott ráð þá endilega látið mig vita af því. Ekki stinga upp á ketti því ég kann heldur ekkert á svoleiðis og hef aldrei átt neinn slíkan.

———————————————–

Annars luma ég nú á einni sögu um eltingaleik minn við mús, en þar var músin sjáanleg sem ég lenti í eltingaleiknum við og það er mikill munur á því og þessu. Þá standa líka báðir aðilar jafnt að vígi. Kannski segi ég ykkur frá því seinna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Ein í vanda

  1. linda says:

    Oojjjjj.. ég fæ gæsahúð Ragna..
    Ég hlýt að vera svo illa innrætt, því ég lít á mýs eins og vespur og önnur viðbjóðsleg skordýr og eru þau öll, ég meina ÖLL skordýr óvelkomin inn í mitt hús..
    Ég veit um eina góða gildru til að ná þessum kvikindum, en það er lítill pappi sem er settur á gólfið með eins og einu ostastykki á, nema á pappanum er lím og um leið og þær stíga fæti á pappann, standa þær pikkfastar á honum..
    Ég hef sjálf ekki losað mig við þessi kvikindi eftir að þau eru föst í gildrunni, læt það eftir einhverjum karlmanninum..

    Gangi þér rosa vel..

    P.s. Engar áhyggjur af kommenti síðustu færslu.. Ég hló bara með sjálfri mér..

  2. Sigurrós says:

    Ég hef nú gerst svo fræg að fjarlægja dauða mús úr gildru, en þegar ég bjó úti í Frakklandi þá herjaði mús (eða mýs) á þurrmatsskápinn okkar. Sett var upp gildra og var það au-pair stúlkan sem fann músina þar dauða á miðjum degi og ekkert annað að gera en að losa sig strax við kvikindið. Mig minnir að ég hafi nú bara tekið hana með litlum plastpoka úr gildrunni og hent beint út í tunnu.

  3. Svanfríður says:

    Í eina skiptið sem ég hef barist gegn músum þá bjó ég í Austurríki og á bóndabæ. Við fundum músarhreiður uppi á lofti og var músamamman og hennar ungar búnar að koma sér vel fyrir í tunnu einni. Við færðum tunnuna niður og hleyptum köttunum okkar oní tunnuna (30 stk takk fyrir takk af köttum voru á bænum) og þar með var því músarfári lokið.
    gangi þér vel og EKKI klemma þig.

  4. Ragna says:

    Súkkulaði
    í gær setti ég súkkulaði í gildruna og í morgun hafði hún hirt súkkulaðið en gildran var enn spennt. Þetta virðist vera einhver snillingur sem ég hef fengið inn hjá mér eða ég hef ekki spennt fjárans gildruna rétt. Ég er sko ekki búin að gefast upp og set aftur súkkulaði í kvöld.

  5. afi says:

    Góðgæti
    Nú er hart í ári hjá smáfuglunum og músunum líka. Sætt af þér að fóðra þær á osti og súkkulaði. Geri aðrir betur. Þú ættir ekki að hafa miklar áhyggjur af hvað verði um músarræksnið ef þér tækist að koma henni fyrir kattarnef. Bara útí tunnu eða láta ána um hana.

  6. Ragna says:

    Hver át súkkulaðið úr gildrunni
    Ég myndi sko glöð vilja fóðra mýsnar í nágrenninu – bara ekki á heimilinu mínu.
    Enn hef ég ekkert saknæmt á samviskunni því mýsla hefur ekki ratað í gildruna hjá mér. Ég fer nú að halda að það hafi aldrei verið nein mús.
    En,þá vaknar spurningin – Hver hefur þá etið súkkulaðið úr gildrunni???

  7. Eva says:

    Súkkulaði er vinsælast meðal músa, segja meindýraeyðar. Ég hef nú bara sett hræin í ruslið þegar ég hef lent í músagangi en ég kannast alveg við þessar sem eru svo klárar að éta úr gildrunum. Fáðu lánaðan kött, það gagnast best. Lokaðu bara svefnherbergjum því þeir eiga það til að koma færandi hendi til húsmóður sinnar og þú vilt væntanlega ekki fá músarhræ í rúmið.

  8. Hulla says:

    Ertu viss um að þetta sé mús??? Ég hef nefnilega heyrt að þær séu ekkert voðalega vel gefnar. En hin tegundin, sem ég þori varla að nefna hér, aðeins stærri en mýs, er voðalega gáfuð. Fáðu lánaðan kisa í bílskúrinn yfir nótt. Þá losnaru ábyggilega við þessa „vinkonu“ þína.
    Og í öllum bænum ekki fá þér límspjald. Það er það ómanneskjulegasta sem til er. Þær naga greyin af sér lappir til að losa sig. Ekki gott.
    Gangi þér vel. Og láttu karlmann=tengdason jarða greyið ef þú nærð henni.
    Endalaust af kossum.

  9. Ragna says:

    Já Hulla mín ég er viss um aðþað hafi verið mús, annars höfum við ekki séð nein svört korn síðan súkkulaðibitinn hvarf úr gildrunni. Hún hefur kannski etið yfir sig og ekki þolað það. Nú er pabbi þinn kominn og ætlar að kemba skúrinn og leita. Svo keypti hann eitthvert hringleikhús sem hann ætlar að lokka hana inní og svo má sleppa henni út.

  10. Hulla says:

    Æ það var gott að heyra. Bæði að þetta SÉ mús, og að þið ætlið ekki að slátra henni. 🙂
    Vona að hún komsit heim til sín aftur, ef hún er þá ekki þegar farin.
    Hafið það gott.

Skildu eftir svar