Hér kemur gamla músasagan.

Það er ekkert nýtt að frétta af gæludýrinu sem gerði sig heimakomið í bílskúrnum um daginn. Nú er Haukur búinn að kaupa kassa sem hann hefur sett fullt af súkkulaði í og músin á síðan að nást lifandi úr kassanum, en hún þarf að fara inn í hann til að sækja sér nammið og kemst síðan ekki út aftur.
En, nú ætla ég að segja ykkur gömlu músasöguna mína.

Þessi saga gerðist á meðan ég bjó á Kambsveginum og Guðbjörg bjó með fyrrverandi manninum sínum á neðri hæðinni. Hún hafði farið í saumaklúbb um kvöldið og hann var heima með Karlottu litla. Allt í einu hringdi síminn hjá mér og X, eins og ég ætla að kalla hann, bað mig formálalaust um að koma strax niður. Ég henti frá mér símanum og hélt að eitthvað væri að barninu og rauk því í loftköstum niður stigann og inn í íbúð niðri. Þegar ég kom niður svaf barnið hinsvegar vært í rúminu sínu en pabbinn var í miklu uppnámi og sagðist hafa séð mús spássera yfir gólfið í stofunni.

Tengdamamma ákvað að músinni skyldi komið út því annars svæfi enginn vært niðri um nóttina. Hófst því mikil leit og til þess notuð alls konar verkfæri og prik til þess að finna út hvar hún væri. Það leið ekki á löngu þar til við fundum hana og ég veit satt að segja ekki hvort var stressaðra músin eða þeir sem leituðu. Ég er hinsvegar alls ekki hrædd við mýs, alla vega ekki svona eina og eina í einu, en ég veit að þær geta gert svo mikinn skaða að ég vil ekki vita af þeim innanhúss.

Jæja áfram með söguna. X kom með vaskafat sem við skyldum skella yfir hana þegar við sæum hana næst. Ég prikaði því með kústinum og þegar músin sást reyndi X að skella yfir hana fatinu. En hún hló bara að okkur, ha, ha og smeygði sér bara innundir eitthvað annað. Mér datt þá það snjallræði í hug að sækja tvær dýnur sem ég átti uppi og reyna að króa hana af með þeim. Við gerðum margar atrennur með dýnunum. Nokkrum sinnum tókst okkur að króa mýslu af og í eitt skiptið vorum við nærri því komin með hana fram að dyrunum sem lágu út í garð, en smá smuga hafði þá einhversstaðar verið og hún slapp og aftur inn í stofuna. Loks fór hún á bak við stóra bókahillu. Plássið sem hún hafði til að komast þar á bakvið var svo lítið að ég hefði getað svarið að það væri ekki hægt, jafnvel fyrir litla mús, að komast í gegnum þessa litlu rifu. Við vönduðum okkur nú alveg rosalega að girða fyrir á meðan músin beið skjálfandi á bak við skápinn. Þegar við töldum okkur búin að girða nógu vel fór X innfyrir og náði að hreyfa þannig hilluna að mýslan skaust útundan og nú komst hún hvergi og fatinu var skellt yfir hana. Svo gátum við fundið einhverja slétta plötu til að smeygja undir fatið og X fór út með herlegheitin. Mér fannst hann ótrúlega lengi og spurði þegar hann kom hvert hann hefði farið? Upp á róluvöll, því hann ætlaði sko ekki að fá hana beint inn aftur. Við gátum nú ekki annað en hlegið að þessu þegar þetta var afstaðið og ég hefði gjarnan vilja eiga þetta á filmu.

Það er af Guðbjörgu að segja, þegar hún kom heim úr saumaklúbbnum, að hún vissi ekki hvað hefði eiginlega gerst í íbúðinni á meðan hún var í burtu. Sófinn langt úti á gólfi, sófaborðið allt á ská, bókahillan skökk frá vegg og einhverjar dýnur komnar inn á stofugólf.

Ég var alveg rosalega montin með sjálfa mig eftir þessai viðureign og fannst ég hafa verið nokkuð ráðagóð. Annars hefði ég örugglega ekkert sagt ykkur frá þessu – svona er maður bara. En þetta var frumraun mín í að reka mús út úr húsi.

——————————

Vonandi fer svo þessum núverandi hremmingum hérna að linna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hér kemur gamla músasagan.

  1. Stefa says:

    Aðdáunarvert!
    Já þetta finnst mér aðdáunarverð saga – ég er nefnilega ofsalega hrædd við mýs. Tjah kannski ekki endilega dýrin sem slík heldur tilhugsunina um að t.d. vakna upp við mús að þefa af tánum á mér eða narta í eyrnasneplana….

    Við Rúnar fengum nokkrar óboðnar í bílskúrinn fyrsta veturinn okkar hérna í sundinu. Geymdum búslóðina alla þar á meðan við standsettum íbúðina og þar á meðal allan þurrmat og dósamat sem við áttum áður. Mýslurnar áttu heldur betur góð jól það árið því við hentum öllu matarkyns eftir veturinn – nöguðum hveitipokum, nöguðu kexi og að sjálfsögðu höfðu þær boðið hvorri annarri að narta í eitt horn af suðusúkkulaðinu góða sem lá rækilega innpakkað í einum kassanum.

    Mig hryllti við tilhugsuninni um að koma að þeim í gildrunum sem pabbi lánaði okkur – en sem betur fer þá hlupu þær út einhvern tíma fyrir sumarið og svo hafa þær látið skúrinn vera síðan… Ég þurfti því ekki að hafa áhyggjur af því að koma kvikindunum úr gildrunum og á endanlegan áfangastað.

    Hefurðu annars leitað að músafælu? Hann Kalli pabbi Önnu Kristínar er með svoleiðis í bústaðnum þeirra. Þar er lítið tæki sem gefur frá sér hátíðnihljóð sem fælir burtu mýs en það er á tíðni sem mannseyrað greinir ekki. Afskaplega sniðug uppfinning 😀

    Bestu kveðjur austur fyrir,
    Þín Stefa

  2. afi says:

    Músaveiðar
    Þér ætti ekki að verða skotaskuld að ná þessari músarsmán. Þú hefur æfinguna. Eða ertu kannski búin að losa þig við dýnurnar? – Þar fór í verra. Þú verður að finna upp nýjar aðferðir. Bíðum spennt frekari fregna.

  3. Svanfríður says:

    Mér þykir þú hafa verið ráðagóð mín kæra. Það verður gaman að sjá hvernig þessi músarsaga endar:)

  4. Hulla says:

    Jesús hvað ég er búin að hlægja mikið. Ég sé þig bara í anda hahahaha
    Yndisleg saga!!!

  5. Nafnlaust says:

    Ja
    hérna,þetta er nú meiri sagan(skondin).
    Las ég rétt fór X með músaræfilinn upp á róluvöll?kv:Jens.

Skildu eftir svar