Hugleiðing um sjarma árstíðanna.

Ég er stundum að hugsa um hvað við eigum gott að eiga svona skýrar skiptingar á árstíðunum og hvað við eigum okkur skemmtilegar hefðir til að brjóta upp skammdegið með.

arstid1jpg.jpg

Það jafnast auðvitað ekkert á við vorið, þegar sól hækkar á lofti og lækir þiðna, græn slikja færist yfir grasið, tré og blóm byrja að sýna sitt fyrsta brum og fólk er bograndi í görðunum sínum að hlú að örsmáa gróðrinum sem nú er í fyrsta sinn að líta dagsins ljós eftir dvala vetrar. Nágrannar rabba saman yfir lóðamörkin, spá í veðrið, gróðurinn og hvað eigi að gera í sumarleyfinu. Söngur fuglanna er nú svo glaðlegur og þeir þakka fyrir vetrarfóðrunina með endalausum söng sínum, milli þess sem þeir kroppa upp strá í hreiðrin sín. Það er svo gaman að fylgjast með því öllu og sjá breytingarnar frá degi til dags.

arstid2.jpg

Síðan kemur sumarið í allri sinni dýrð með sínum björtu nóttum. Nú koma fuglarnir ekki lengur til að kroppa kornið sem mannfólkið gefur þeim heldur sjást þeir nú kroppa upp einn og einn ánamaðk til þess að gefa litlu ungunum sínum sem tísta svangir í hreiðrinu. Nú eru blómin sprungin út og allt orðið grænt sem grænt á að vera. Það er yndislegt að geta sest út með kaffibolla og dagblöðin og heyra og sjá börnin, sem nú eru ekki lengur bundin við skólasetu heldur geta leikið sér frjáls úti. Nú hefur umferð gangandi og hjólandi fólks á öllum aldri aukist til muna um göngustígana. Þegar líða fer á dag fyllir vitin ilmur af allskonar grillmat því nú hafa grillin verið tekin út og nær eða fjær má heyra í sláttuvélum allir vilja jú hafa snyrtilegt í kringum sig.

arstid6.jpg

Sumarið líður yfirleitt hratt og allt í einu er komið haust, með öllum sínum fallegu haustlitum og löngu skuggum.

arstid3.jpg

Haustið er yndislegur tími, þessi tími þegar skuggarnir fara að lengjast og allt fær einhvernveginn á sig annan blæ. Á þessum tíma eru komin rauð ber á Reyniviðinn og allur gróður tekur á sig annan lit. Haustlitirnir eru engu líkir. Nú eru berin sprottin og orðin þroskuð og gaman að fara í haustlitaferðir og leita í leiðinni að fallegum berjaþúfum sem bæði ungir og fjörugir fingur jafnt þeim sem eru orðnir gamlir og lúnir geta farið höndum um og kroppað sem mest af berjum til að taka með heim og búa til eitthvað gott til vetrarins.
Nú sér maður börnin með stóru skólatöskurnar á bakinu hraða sér til alvöru lífsins og fólk talar um hvernig þetta sumar hafi verið, hvort haustið sé gott eða slæmt og hvernig veturinn líti út fyrir að verða að þessu sinni.

Svo þegar líður á haustið fer ekki á milli mála að veturinn er að koma. Þá breytist allt eina ferðina enn. Nú er gróðurinn orðinn alveg ber nema barrtrén og annar gróður sem aldrei fellir lauf og nú hafa Cyprusar og Erikur hreiðrað um sig í blómakössunum í stað sumarblómanna. Fólk er komið í úlpurnar sínar og annan skjólfatnað þegar maður sér það í göngutúr. Maður kíkir oftar í átt til Hellisheiðarinnar að gá til veðurs og spáir í hvort það sé þoka eða nokkuð að fara að snjóa og skiptir þá engu máli hvort maður er sjálfur að ferðbúast eða ekki. Nú er kominn tími á kertaljósin og fólk fer að huga að jólakortagerð og öðru sem gott er að byrja snemma á fyrir jólin.

Svo finnur maður eftir því sem líður á nóvember og desember byrjar, að jólin eru í nánd. Þá kemur þessi mikla tilhlökkun til jólanna með öllum fallegu ljósunum, jólabakstri og endalausri eftirvæntingu. Fyrsta tilhlökkunin snýst um að taka fram og setja upp aðventudótið og setja jólaljós á húsið og í garðinn og svo fylgir hvað öðru þar til jólin sjálf ganga í garð.

arstid4.jpg

Sá árstími sem ég tel sístan, er hins vegar eftir áramótin þegar jólaljósin hafa verið tekin niður, skrautið komið ofan í kassa og í geymslu og allt verður svo tómlegt. Veður eru yfirleitt rysjótt og það sýnist eitthvað svo langt í að eitthvað gerist næst. En auðvitað hefur þessi tími eins og aðrir upp á margt að bjóða og nóg er að gera því það þarf að fóðra alla litlu fuglana og njóta þess að sjá þá koma í kornið sitt oft á dag – ekki er það nú leiðinlegt. Á þessum árstíma má helst vænta þess að það snjói og þá lýsist allt upp, börnin elska að leika sér í snjónum og fuglarnir eru líka svo miklir gleðigjafar.

fuglarnir.jpg

Svo koma þorrablótin, bolludagurinn, sprengidagurinn og öskudagurinn þegar sjá má börn í alla vega búningum skokka um bæinn.

Án þess að við tökum mikið eftir því á þessum tíma þá hækkar sólin aðeins á lofti á hverjum degi og smá lýsir okkur inn í næstu árstíð sem er vorið og þá sumarið og koll af kolli.

arstid.jpg

Um að gera að horfa ekki of langt fram í tímann hverju sinni heldur njóta hverrar árstíðar og þess sem hún býður uppá.

Er ekki tilveran dásamleg í okkar fallega landi!

Njótum vel helgarinnar kæru vinir.
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Hugleiðing um sjarma árstíðanna.

  1. Rakel Guðmundsdóttir, kennari says:

    Þú ert flottur penni!

  2. Ólöf says:

    Mikið hlakka ég til að koma aftur heim í Sóltúnið þegar ég les þetta og skoða myndirnar. Heima er best!

  3. Þórunn says:

    Amen
    Hér segir maður nú bara Amen, eftir efninu og engu við þetta að bæta. Þetta er frábær pistill hjá þér, eins og venjulega.
    Kveðjur úr rigningu í Portúgal,
    góða helgi,
    Þórunn og Palli

  4. Jólanta says:

    Fallegt blogg hjá góðum penna. Þetta minnti mig á lag sem að Ragnheiður Gröndal syngur svo fallega:

    Sumarið kemur og fer
    staldrar haustið við,
    síðan vetur, desember
    og svo kemur vor eftir langa bið
    sem betur fer,
    í huga mér.

    Hafðu það gott mín kæra!

  5. Anna Sigga says:

    Ó jú
    tilveran er yndisleg! Flottar myndir og góð hugleiðing.

  6. Stefa says:

    Dásamlegt
    Mikið er dásamlegt að lesa þessi orð þín elsku Ragna. Ég skil ekki afhverju þú ert ekki búin að skrifa bók! Þið mæðgur hafið svo greinilega hæfileikann og nú skora ég á ykkur að koma með eina fyrir jólabókaflóðið að ári 😀

    Bestu kveðjur,
    Stefa

  7. Ragna says:

    Að gera ekki lítið úr dómgreind annarra.
    Hún Sivva mín, sem ég vann með í nokkur ár skammaði mig fyrir að koma alltaf með afsakanir þegar ég fengi hól. Ég ætti að vera glöð og þakka fyrir mig í stað þess að segja alltaf „æ, þetta er nú bara ….“ því ég gerði lítið úr dómgreind viðmælanda míns með því. Þetta varð mér talsvert umhugsunarefni og ég sá sannleikann í þessu. Ég reyni því að tileinka mér þetta þó mig langi oft miklu frekar til að segja já, en….
    Ég læt dómgreind ykkar ráða í þetta sinn og segi því : Þakka ykkur kærlega fyrir ef ykkur finnst pistillinn góður.

Skildu eftir svar