Helgin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Síðasta helgi var alveg frábær og mikið að gera.

Ég fór í bæinn á föstudaginn ásamt Karlottu og Oddi Vilberg, en þau voru að fara í helgarferð til pabba síns í Kópavoginn. Eins og alltaf í slíkum ferðum var sungið fyrir ömmu alla leiðina og þá meina ég alla leiðina. Að þessu sinni var m.a. sungin öll Stóra Vísnabókin, þessi gamla góða. Þau vita hvað amma er ánægð með að láta þau syngja fyrir sig því þá virðist leiðin bæði styttri og miklu skemmtilegri. og það er ótrúlegt hvað hún Karlotta kann lög við alla texta í þessum söngbókum, nánast sama hvað er.

Svo skellti ég mér í Stórholtið í klippingu því daginn eftir stóð mikið til og konan vildi vera fín. Eftir gistingu á Austurbrúninni fór ég um hádegið á laugardeginum í saumaklúbb hjá Ástu, þar sem við skvísur vorum allar mættar og sátum langt fram eftir degi. Ekki var þó alveg til setunnar boðið því aftur stóð mikið til. Jólahlaðborð á Hótel Sögu með balli á eftir. Það voru nú engar smá krásir sem þarna voru á boðstólum og Alcan var svo grand á því að bjóða upp á alla drykki kvöldsins, allt frá fordrykk til loka ballsins um nóttina. Ég var nú hálf fúl yfir því að langa bara í eitt rauðvínsglas með matnum og síðan bara blávatn og græddi því lítið á þessu kostaboði, en þetta er svona mín rútína í slíkum boðum og ég sá enga ástæðu til að breyta henni þar sem mér finnst íslenska vatnið besti drykkur sem maður fær. Daginn eftir þegar ég vaknaði eldhress og kát þá varð mér hinsvegar hugsað til þess hvernig þeim liði sem notfærðu sér til fullnustu þetta kostaboð og var þá rosalega ánægð að hafa ekkert grætt á veitingunum nema að vera hress og glöð. Haukur vaknaði eldsnemma því hann var á morgunvakt daginn eftir herlegheitin.

Er hægt að láta sér líða annað en vel á svona fögrum degi?

esj.jpg

Þar sem ég var ekki í neinu stuði að fara beint heim þá hafði ég samband við Sigurrós og við fórum saman í jólaþorpið í Hafnarfirðinum. Mig hefur alltaf langað til þess að skoða þennan jólamarkað þarna en aldrei orðið af því fyrr en nú.

Leikskólabörn í Hafnarfirði hafa búið til skraut og hengt á jólatrén í þorpinu.
Hér er Sigurrós ásamt bumbubúanum við eitt tréð.

hafnarf1.jpg

Þegar við vorum búnar að rölta þarna um, skoða allt handverkið í litlu kofunum og hlusta á kór Flensborgarskólans syngja nokkur lög, þá var kominn hrollur í okkur svo við fórum á næsta kaffihús og fengum okkur heitt kakó og eitthvert góðgæti með.

Ég skilaði Sigurrós síðan í Kópavoginn sem var svo fallegur þennan dag eins og næsta myndi sýnir en ég tók hana í byrjun ferðar okkar Sigurrósar á meðan hún fór ínn á bókasafnið.

hafn1jpg.jpg

Eftir að hafa skilað Sigurrós sá ég að til að komast heim fyrir myrkur þá væri best að skella sér af stað austur aftur. Ég hafði reynt að ná í pabba Karlottu og Odds Vilbergs til að vita hvort þau vildu fá far heim en ekki tekist að ná í hann, en þegar ég var að koma að Rauðavatni þá hringdi hann og sagðist ætla að þiggja það að ég tæki þau með austur. Ég beið svo eftir þeim þarna á stæðunum við Rauðavatn í hálftíma eða svo og síðan skelltum við okkur öll þrjú heim á Selfoss þar sem Guðbjörg og Magnús Már biðu með mat handa okkur.

Ég smellti nú þessum myndum af honum nafna mínum, en hann er að verða ansi duglegur þegar hann brunar um í göngugrindinni sinni. Nú nær hann orðið til þeirra hluta sem hann á ekki að ná til, eins og t.d. að opna skápa og skúffur og tína út úr þeim það sem hann nær í.

Er nokkur að fylgjast með mér?
Ég ætla nefnilega að sýna ömmu að ég get opnað skápinn.

bros1jpg.jpg

Æ,Æ. Er búið að setja lás?

bros2jpg.jpg

Hér eru svo myndir helgarinnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Helgin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

  1. Jólanta says:

    Ótrúleg tilviljun
    Fyndin tilviljun hér í blogginu þínu. Ég bý í Hafnarfirði og börnin mín eiga jólaskraut á trénu sem Sigurrós stendur við. Það eru svo mörg tré þarna skreytt af leikskólabörnum, held alveg 12 tré en akkúrat veljið þið þetta tré, ótrúleg tilviljun finnst mér. Það bara blasir við jólaskraut barnanna minna:-)
    Fyrir utan það var ég akkúrat þarna á staðnum þegar Flensborgarkórinn var að byrja syngja. Varstu ekki þarna á sunnudeginum um 14 – 15 ? 🙂

    Jólanta netvinur

  2. Ragna says:

    Alveg merkilegt.
    Við vorum komnar þarna rétt áður en kórinn fór að syngja og vorum líklega a.m.k. um klukkutíma að rölta þarna um. Það er alveg magnað að vita að kannski höfum við staðið þarna hlið við hlið.
    Ég sendi kæra kveðju í Hafnarfjörðinn sem mér finnst alltaf svo fallegur.

  3. afi says:

    afi missti af ferð í jólaþorpið á sunnudag. Við ætluðum með Hermanni, Eddu og foreldrum hennar sem komu norðan úr Þyngeyjarsýslu fyrr um daginn. Þegar við vorum að leggja af stað hringir síminn. Varð að hendast í vinnuna og bjarga óvæntum málum. Þannig fór um sjóferð þá. En myndirnar flottar og fínar.

  4. Ragna says:

    Gengur ekki.
    Ég held að afi ætti nú alvarlega að spá í að hætta í þessari vinnu. Það liggur við að það flokkist undir einelti að kalla afa alltaf til vinnu þegar hann ætlar að gera eitthvað skemmtilegt. Sussu svei.

Skildu eftir svar