Löt í dag en á það inni.

 

Er það ekki alveg dæmalaust að þegar maður er búinn að ákveða að vera voða duglegur þá lekur maður niður fyrir framan tölvuna og hugsar til bloggvina sinna og hvað þeir séu nú að gera þessa stundina, í stað þess að draga fram hveiti og sykur og hefjast handa við jólabakstur.

Þetta er það sem kom fyrir mig áðan og ástæða þess að ég pára þessar línur núna rétt eftir hádegið. Ég get bara ekki komið mér í gírinn að gera eitthvað mikið í dag. Svo er aftur á móti annað mál hvað þetta merkilega er sem mér fannst ég eiga að vera að gera og því meira sem ég hugsa um það þá finnst mér ég eigi það bara inni eftir helgina að gera ekki neitt – þrátt fyrir auglýsinguna í sjónvarpinu sem segir, "Hvað sem þú gerir, ekki gera ekki neitt".

Um helgina var ég nefnilega rosalega dugleg. Þannig er að við vorum ekki búin að koma því í verk, þessi ár síðan við fengum sólpallinn, að setja seríu í kringum hann fyrir jólin. Nú ákvað ég að þetta gengi ekki ein jólin enn. Fyrir hádegi á laugardaginn, eftir kaffi og nýtt brauð hjá Guðbjörgu og Magnúsi Má, þá fór ég af stað og viðaði að mér því sem ég ætlaði að nota af ljósum og grenilengjum til að drífa þetta bara upp. Þetta var fyrsta ferðin mín til að viða að mér efni en þær áttu eftir að verða fleiri. Um klukkan hálf sex um kvöldið var verkinu lokið en þá var ég búin að fara tvær ferðir í Húsasmiðjuna og tvær í Byko (það má nefnilega ekki gera upp á milli) :), en þá var ég semsagt búin að koma ljósum í grenikransi kringum allan pallinn og þetta eru sko nærri tuttugu metrar. Ég er alveg rosalegla ánægð og montin yfir að vera búin að þessu.

pallur.jpg

Haukur var þó ekki eins glaður þegar hann hringdi úr vinnunni á laugardaginn og ég sagði honum hvað ég væri að gera. Honum finnst þetta ekki vera verk húsmóðurinnar og fannst að þetta hefði getað beðið. Hann elsku Haukur minn, sem allt vill fyrir mig gera, áttar sig bara ekki á því að áður en ég kynntist honum þá var ég orðin svo vön því að gera alla hluti sjálf, hvort sem það flokkaðist undir kvenmanns- eða karlmannsverk. Ég hef alltaf haft rosalega gaman af svona stússi og finnst það ekkert endilega vera karlmannsverk, að bora í vegg, hengja upp myndir, tengja ljós, mála og hengja upp jólaseríurnar. Það er hinsvegar ósköp notalegt að láta þá um alla þessa hluti, ekki síst ef það gleður þá að gera þetta fyrir mann.

Jæja nú hætti ég þessu pári því Karlotta mín var að koma og ég ætla að gefa henni eitthvað heitt að drekka, en hún er að koma úr skólanum og tónlistarskólanum og þá kemur hún stundum til ömmu á eftir því það er miklu styttra til ömmu en heim til hennar.

————-

Ekki lauk ég nú skriftunum í dag en það er af okkur Karlottu að segja að við ákváðum að skreppa á kaffihús svona til að gera eitthvað öðruvísi og spennandi. Við ætluðum á nýja bókakaffið hérna en fannst það ekki eins spennandi og við héldum að það væri og snerum því við í dyrunum og fórum í Vilbergs konditorí þar sem nóg var af góðgætinu og gott kaffi með. Ég keyrði hana svo í fimleika og dreif mig heim því ég mundi allt í einu eftir því að línudansinn væri klukkan sjö svo ég ætlaði að borða snemma.

Nú verður gott að skríða í bólið sitt og ég segi bara Góða nótt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Löt í dag en á það inni.

  1. Linda says:

    Það væri nú gaman að fá að sjá myndir af pallinum í jólaskrúðanum..
    Hér eru komin upp jólaljósin og búið er að taka nokkrar myndir, en þær hafa enn ekki ratað á síðuna.. Úr því verður bætt bráðlega..

    Bestu kveðjur

  2. Nafnlaust says:

    Myndin komin inn
    Auðvitað var ég búin að mynda en það er bara svo erfitt að taka mynd af svona ljósum svo vel sé, að ég hætti við að setja myndina inná síðuna. En, hvað gerir maður ekki fyrir bloggvini sína!

  3. Þórunn says:

    Mér finnst þú alveg eiga það inni að hvíla þig eftir dugnaðinn við að setja upp öll ljósin. Mikið er þetta fallegt hjá þér. Takk fyrir bréfið og kveðjuna.
    Þórunn

  4. Linda says:

    Rosalega falleg ljósin og svo jólalegt.. Er komin í smá jólastuð og hlakka voða til að koma heim..

    Var að sjá kommentið á síðunni minni og veistu, mér líst ofurvel á það ef við gætum haft smá bloggkaffi á meðan við Svanfríður erum á landinu.. Við ætlum að reyna að hittast líka áður en við fljúgum heim svo kannski við getum bara haft bloggfund allar saman.. og jafnvel fleiri saman ef einhvern langar að vera með..

Skildu eftir svar