Fallegir dagar í desember.

Það mætti ætla að maður væri upp fyrir haus að jólast og þessvegna ekki haft tíma til að blogga, en það er nú allt í rólegheitunum hérna hjá mér, kannski of miklum. Ég er bara svona að smá dunda mér með tusku og setja upp eitthvað af jóladóti. Ég hef verið eitthvað svo ótrúlega löt undanfarið enda sofið köflótt á nóttunni og þá er maður svo fjári latur að koma sér að verki á daginn. En hvað um það þetta stendur vonandi allt til bóta enda ekki vanþörf á að fara að koma sér betur í jólagírinn þegar aðeins tvær vikur eru til jóla.

Þessa skreytingu útbjó ég um daginn og var bara ánægð með

adv2.jpg

Í gær fór Haukur til Keflavíkur í jarðarför vinnufélaga síns en við Guðbjörg fórum í borgarferð til að sinna nokkrum erindum. Þ.e.a.s. ég þurfti að fara á nokkra staði og hún tók að sér að keyra um með þá gömlu. Takk fyrir það Guðbjörg mín, það var sko fínt að losna við umferðarstressið í höfuðborginni.

Þegar við vorum búnar að erinda allt nema kirkjugarðana og það sem þurfti að gera í Kópavogi þá sóttum við Sigurrós í vinnuna og fórum allar saman  í Fossvogskirkjugarðinn til að setja niður lugtina með ljósinu í og skreytingu í vasann, en það var allt pikkfrosið svo Sigurrós tók það að sér að koma því niður þegar hlánaði eitthvað. Við fórum því ekki heldur í Gufunesgarðinn því ástandið þar hefur örugglega verið það sama. Sigurrósar bíður því að fara í báða garðana með lugtir og skraut sem venjulega hefur verið komið  á sinn stað strax í byrjun aðventu en það er svona þegar frost er þá þýðir ekkert að reyna að koma þessu fyrir. 

Eftir að fara á þessa þrjá staði í Kópavoginum sem þurfti að fara á, þá sáum við að það yrði enginn tími í þessari ferð til að líta í heimsókn til  tengdamömmu og mig langaði líka til að kíkja til Einars mágs míns og Ingu, en tíminn  hafði flogið svo hratt að áður en varði þurftum við að leggja af stað aftur austur og  enginn tími eftir í neinar heimsóknir. Ég náði þó að komast nokkurn veginn yfir það sem ég þurfti að erinda.

Þegar við komum aftur austur þá var það afskaplega ljúft að Magnús Már var búinn að elda og beið með mat handa okkur svo ekkert þurfti að gera annað en að setjast til borðs. Takk fyrir það Magnús minn.

Það var fallegt að líta út í gærmorgun.
Svona birtu í desember kallaðii hún móðir mín jólabjarma
og við gátum setið  lengi við gluggan og horft á jólabjarmann.

adv1.jpg

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar

förum varlega í umferðinni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Fallegir dagar í desember.

  1. Linda says:

    Æðislega falleg jólaskreytingin sem þú gerðir.. Jólaleg og smekkleg, enda ekki við öðru að búast þar sem þú ert með puttana annars vegar.. Það virðist allt verða að gulli sem þú snertir.. 🙂
    Jólabjarmi er nokkuð sniðugt nafn á þessum tíma og á vel við..

    Góða helgi Ragna mín og farðu vel með þig..

  2. Þórunn says:

    Jólbjarmi
    Jólabjarminn er alltaf fallegur, ég man hvað mér fannst þetta flott nafn þegar þú nefndir það í fyrra. Það er greinilega jólabjarmi yfir öllu þínu heimili, þessa dagana.

Skildu eftir svar