Fimleikasýning í dag og gisting í ömmuhúsi.

Það liggur ungur sveinn í litlu ferðarúmi við hliðina á ömmu þegar hún skrifar þessar línur. Amma þorir ekki að taka mynd af litla fallega englinum því ekki má vekja hann. Í næsta herbergi sofa svo systkinin Karlotta og Oddur Vilberg svo það má segja að gestkvæmt sé í ömmuhúsi.

Í dag var fimleikasýning, þessi árlega jólasýning í íþróttahúsinu í Vallaskóla hérna á Selfossi. Í þetta sinn var þemað "Trölli stal jólunum" og var sagan sögð og fimleikum og dansi fléttað inní með tónlist. Þetta var alveg sérstaklega flott og skemmtileg sýning og ég ætla bara að vona að hún hafi verið tekin upp á filmu því hún var svo sannarlega þess virði. Karlotta var mjög ánægð að vera með í sýningunni og vitanlega mættum við oll að fylgjast með. Meira að segja litli bróðir fylgdist með af athygli allan tímann.

Hér er hann með pabba sínum og áhuginn skín úr andlitinu.

fiml2.jpg

Eftir fimleikana komum við svo öll í Sóltúnið og drukkum saman í kaffitímanum. Síðan fór Magnús Már með eldri börnin til þess að sjá þegar kveikt væri á jólatrénu og jólasveinarnir kæmu úr Ingólfsfjalli. Það var rosalega kalt í dag og allir fóru vel búnir, en þau stoppuðu ekkert mjög lengi enda þurftu foreldrarnir að búa sig til þess að fara á jólahlaðborð í kvöld. Það skýrir næturgestina hjá ömmu. Amma tók nefnilega ekki í mál að passa þau heima hjá þeim því af eigingirni sinni vildi hún fá að hafa þau til morguns enda mjög langt síðan Karlotta og Oddur Vilberg hafa gist og Ragnar litli aldrei. Svo er líka ágætt fyrir þau nýbökuðu foreldrana að geta einu sinni sofið róleg og þurfa ekki að láta vekja sig oft yfir nóttina. Sú gamla ætti að lifa það af eina nótt enda alvön næturröltinu og gott að fá félagsskap.

Svona gengur nú lífið fyrir sig í Sóltúninu þessa stundina. Ég ætla að endingu að setja hérna inn eina mynd af fimleikasýningunni í dag.

fiml.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Fimleikasýning í dag og gisting í ömmuhúsi.

  1. Sigurrós says:

    Ég hef mætt á fimleikasýninguna síðustu tvö ár en missti af henni núna og finnst það hálffúlt – þetta er nefnilega virkilega skemmtileg sýning á hverju ári – og hvað þá núna, með svona skemmtilegt þema! O jæja, ég verð bara að passa að mæta næst 🙂

  2. Svanfríður says:

    Þetta er eitt það skemmtilegasta við aðventuna, það er alltaf svo mikið um að vera.

  3. Anna Sigga says:

    Gaman að hafa börnin í kringum sig
    …sérstaklega barnabörnin! Þetta hefur örugglega gengið það vel að þú færð að hafa þau nótt aftur fljótlega ;). Farðu vel með þig Ragna mín!

  4. afi says:

    Aðventugleði
    Þetta er eins og best verður kosið á aðventunni.

Skildu eftir svar